Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hafði eiginlega hug á að leiðrétta aðeins örfá atriði sem fram komu í ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar hérna rétt áðan og hefði gjarnan viljað að formaður sjútvn. Ed. hlýddi á mál mitt. ( Forseti: Forseti skal gera ráðstafanir til að sækja hv. þm.) --- ( Forseti: Þar sem hv. 6. þm. Vesturl. hefur gert hlé á ræðu sinni um stund vill forseti nota tækifærið og minna hv. þm. á ákvæði 35. gr. þingskapalaga að gefnum fjölmörgum tilvikum hér í dag, en þar segir: ,,Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins. Eigi má hann annars ávarpa nokkurn einstakan þingmann og kenna skal þingmann við kjördæmi hans eða kosningu.`` Undantekningar frá þessu eru síðan útvarpsumræður. Ég vil aðeins ítreka að mér finnst hafa borið nokkuð á því að menn hefðu ekki í heiðri þetta ákvæði þingskapalaga. En ég vona svo að hv. 3. þm. Norðurl. v. komi hér í salinn sem allra fyrst.)
    Ég vildi aðeins gera nokkrar athugasemdir, virðulegi forseti, vegna þess sem fram kom í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. sem einnig er formaður sjútvn. Ed. Hv. þm. hefur nú setið hér í dag og hlustað á þessa umræðu en ég hef samt einhvern veginn á tilfinningunni að hann hafi e.t.v. ekki heyrt mál mitt hér fyrr í dag þannig að ég ætla aðeins að leiðrétta misskilning og eiginlega rangtúlkun sem mér fannst koma fram í hans máli.
    Í ræðu minni hér fyrr í dag minnti ég á og rifjaði upp þær tillögur sem við kvennalistakonur fluttum við afgreiðslu kvótafrumvarpsins bæði nú sl. vor og einnig um áramótin 1987 -- 1988. Ég taldi reyndar að það væri ekki þörf á að fara út í þessar tillögur í smáatriðum því allir hv. þm. hlytu orðið að þekkja þær út og inn, ekki síst hv. formaður sjútvn. En í ljósi þeirrar vanþekkingar sem kom fram tel ég rétt að rifja enn frekar upp tillögur okkar.
    Í fyrsta lagi vil ég benda hv. þm. á að þó að sjútvrn. sjái um að útdeila kvóta á skip núna samkvæmt gildandi lögum og eins samkvæmt þeim lögum sem taka gildi núna um áramótin, þá hlýtur hv. þm. að vera kunnugt um að ráðuneytið sem slíkt stundar ekki útgerð og tillögur okkar fela að sjálfsögðu ekki í sér að borgarstjórinn í Reykjavík eða bæjarstjórinn á Sauðárkróki fari að gera út, þó þeir eða nefndir á vegum sveitarstjórna fengju heimildir til þess að úthluta veiðiheimildum. Það hljóta alltaf að verða fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu eða einstaklingar sem sækja aflann. Markmiðið með tillögum okkar var ekki síst það að draga úr ofstjórn og miðstýringu í sjávarútveginum en færa ábyrgðina og valdið til að deila kvótanum á skip og báta heim í héruðin til þeirra sem best þekkja til aðstæðna og útgerðarhátta á hverjum stað. Með því að færa þetta út í byggðarlögin hafa sveitarstjórnir og íbúar á viðkomandi svæðum möguleika á að halda aflanum heima í héraði þótt skip séu seld burt. Það er kjarninn í þeim tillögum sem við fluttum og með þeim tillögum vildum við tryggja stöðugleika í atvinnulífi byggðarlaganna.

    Hv. þm. minntist einnig á að hann vildi ekki taka rétt til að sækja aflann af sjómönnum. Ef hann heldur að okkar tillögur feli það í sér hefur hann misskilið þær alveg frá upphafi. Auðvitað verða það alltaf sjómenn sem sækja aflann en eins og lögin eru nú og eins og ráðgert er að lögin verði sem taka gildi á næstunni er rétturinn fyrst og fremst hjá útgerðarmönnum. Þeir geta síðan ráðið sjómenn á sín skip. En það eru útgerðarmennirnir sem hafa fengið þennan óveidda afla til frjálsrar ráðstöfunar.
    Hv. formaður sjútvn. hafði sömuleiðis áhyggjur af rétti sjómanna til að gera kjarasamninga næðu tillögur okkar fram að ganga. Sjútvrn. sér um að útdeila kvóta og mun væntanlega gera það áfram enn um sinn en ég hef aldrei vitað til þess að ráðuneytið taki þátt í gerð kjarasamninga fyrir sjómenn. Og þótt valdið til að deila út kvótanum verði flutt til byggðarlaga sé ég ekki ástæðu til þess að byggðarlögin eða sveitarstjórnir fari að gera kjarasamninga.
    Hv. þm. sagði einnig að ég hefði talað hér til smábátaeigenda og skil ég nú ekki alveg fullkomlega hvað hann átti við með því. Í ræðu minni lagði ég áherslu á að byggðarlög og einstaklingar gætu framfleytt sér af þeim kvóta sem þau fá úthlutað. Ég geri mér grein fyrir þeim erfiðleikum sem eru víða. Það er ekki meiri kvóti til ráðstöfunar og það er ekki stöðugt hægt að bæta við á einum stað án þess að um leið sé verið að tala um að taka hann af einhverjum öðrum. Þess vegna minntist ég á Hagræðingarsjóð hér fyrr í dag í máli mínu sem úrræði í slíkum tilvikum. Ég tel að til þess verði að koma að byggðarlög eða jafnvel einstaklingar sem verða mjög illa úti við kvótaúthlutun eigi einhverja möguleika á að fá aukaafla úr þeim sjóði. Til þess var hann stofnaður hér í vor og ég minnist þess að við kvennalistakonur tókum einmitt undir að þarna væri þó aðeins skref í rétta átt. Það væri að vissu leyti verið að gefa möguleika á því að byggðarlög sem af einhverjum ástæðum misstu kvóta ættu einhverja von um að bæta sér hann upp.
    Ég lagði sömuleiðis áherslu á það í máli mínu hér fyrr í dag að það þarf að reyna að fá meiri tekjur út úr þeim afla sem við höfum. Minntist ég í því sambandi á heimsókn okkar til aflanýtingarnefndar. Það var mjög ánægjuleg heimsókn vegna þess að þar er verið að gera hluti sem við kvennalistakonur höfum oft minnst á hér í sambandi við sjávarútvegsmálin, þ.e. að nýta betur það sem dregið er úr sjó og byrja að nýta nýjar tegundir.
    Í ræðu minni í dag benti ég sömuleiðis á að það þyrfti að efla og auka rannsóknir á því hvaða áhrif svo afgerandi stjórnvaldsaðgerðir hafa á mannlíf og atvinnulíf í byggðarlögum sem sjávarútvegsstefnan auðvitað er vegna þess að þetta er grundvöllur fyrir byggðinni í landinu, það eru þessir sjávarútvegsstaðir sem eru hér meðfram ströndum landsins.
    Ég vildi aðeins koma að þessum leiðréttingum. Mér þótti gæta þess misskilnings í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. að sveitarstjórnir ættu nú að setjast um borð og fara að fiska. Svo er alls ekki og hvet ég hann til þess að kynna sér tillögur okkar betur fyrst svo mikill misskilningur hefur verið á ferðinni.