Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég ætla nú að leyfa mér að fagna þessu frv. þótt heldur lítilfjörlegt sé miðað við t.d. frv. það sem hv. síðasti ræðumaður gat um að Sverrir Hermannsson hefði flutt hér á sínum tíma, 1984 og frv. sem Friðrik Sophusson var með í þinginu, til athugunar alla vega, 1988 hygg ég að það hafi verið, þegar hann var iðnrh. En þetta frv. er þó betra en ekkert og ég tel sjálfsagt að hraða því í gegnum þessa hv. deild þar sem það var skoðað hér í fyrra og afgreitt frá deildinni. En gjarnan mætti koma því í svolítið nýtískulegra horf. Ég hefði ekkert á móti því.
    Án þess að ég ætli beinlínis að fara að deila við hv. þm. Skúla Alexandersson, þá kemst ég ekki hjá því að vekja athygli hans á því að ræða hans er ansi gömul. Hún hlýtur að vera 20 -- 30 ára gömul. Það vita allir menn það núna hvar sem er á hnettinum að ríkisrekstur hefur ekki gefist vel og ekki skilað af sér mikilli auðlegð. ( SkA: Fyrir þá sem búa á Akranesi og vinna í Sementsverksmiðju ríkisins.) Það er þá eina dæmið líklega í veraldarsögunni nú orðið. Það er sama hvaða ríki er og hvaða stjórnmálaafl hefur verið. Það eru allir að breyta yfir í einkarekstur og frjálsræði í atvinnumálum en ekki í einokun ríkisins. En þetta hef ég svo lengi rætt um og hv. þm. Skúli Alexandersson ekki verið sammála mér, en ég hélt að hann væri kannski orðinn það núna því að margir t.d. í Austur - Evrópu sem voru með þjóðnýtingu að sjálfsögðu hafa horfið frá henni. Ég held að hv. þm. sé ekki mikið hrifinn af þjóðnýtingu almennt þó að honum þyki vænt um þetta ákveðna fyrirtæki og ég skal leyfa honum það. En þeir eru auðvitað allir búnir að sjá það að það er ekki leiðin til velfarnaðar og þess vegna er verið að breyta til.
    Að því er Pétur Ottesen varðar þá vitum við það öll hér að framsýnni og framgjarnari maður fyrir hönd þjóðar sinnar en Pétur Ottesen var varla til. Það var sama hvort það var í hafréttarmálum eða atvinnumálum. En hann hafði það auðvitað fyrir sið að reyna að koma málum í gegn á þann hátt sem unnt var að koma þeim í gegn miðað við aðstæður þess tíma. Og það var ekki um annað að ræða í þessu þjóðfélagi þegar Sementsverksmiðjan var byggð en annaðhvort ríkisrekstur eða þá einhvers konar samvinnubákn. Auðvitað vildi Pétur Ottesen, eins og allir vita sem hér eru inni og þekkja eitthvað til þingsögunnar, ætíð koma málum fram og þá tók hann þennan kostinn. Og að sjálfsögðu vildi hann gjarnan hafa verksmiðjuna á Akranesi. Hún lá líka beint við t.d. öflun hráefnis í flóanum svo að það var ekkert óeðlilegt. Ég hugsa að einstaklingar hefðu kannski gert þetta líka. En að því er Pétur Ottesen varðar, og dái ég hann nákvæmlega jafnmikið og hv. þm. Skúli gerir áreiðanlega, studdi hann t.d. samvinnurekstur þar sem það átti við. Hann var einn mesti hvatamaður þess að útlendingar reistu álverksmiðjuna í Straumsvík, geysilegur hugsjónamaður. Ég get ekki komist hjá því að rifja það upp að þegar ég var ungur, nýorðinn ritstjóri Morgunblaðsins, þá vildi svo til að ég skrifaði leiðara og gagnrýndi það að bændur væru að byggja stærðar hótel. Þeir ættu að lækka vöruverð eða þá að einhverjir aðrir byggðu þetta.
    Þá höfðu þingmenn ekki nein herbergi hér í þinghúsinu eða í nágrenni og Pétur Ottesen, sem var einhver mesti Morgunblaðsmaður sem til var, hafði gjarnan aðsetur í prófarkalestursherberginu. Þar rakst hann á leiðara þar sem ég var að gagnrýna þetta fyrirkomulag og var óskaplega reiður og talaði ekki við okkur Morgunblaðsmenn í viku eða lengur en síðan gleymdi hann því öllu saman. En auðvitað sá hann þá líka að það voru ekki aðrir en einhvers konar samtök sem höfðu mátt til að byggja þetta stóra hótel. Hann byggði það í Reykjavík, því þar var það best komið. Það var hans mál, einlægt hugsjónamál að koma hótelum á stofn á Íslandi alveg eins og hann vildi koma upp stóriðju, ekki bara sementsverksmiðju heldur líka álverksmiðju. Hann var framsækinn á sviði sjávarútvegsmála og einhver mesti hvatamaður okkar aðgerða í hafréttarmálum og væri það áreiðanlega enn ef hans nyti við svo að við þurfum ekkert um það að deila.
    Hitt deila menn um, og það er ekkert nema gott um það að segja, hvaða rekstrarform henti nútímanum. Það eru held ég allir flokkar svo til í hinum vestræna heimi stuðningsmenn einkaframtaks í einhverju formi. Ég hef sérstaklega talað um almenningshlutafélög, að reyna að dreifa þjóðarauðnum sem mest meðal almennings þar sem flestir borgaranna séu eigendur atvinnufyrirtækjanna. Og ég held að sú stefna sé ríkjandi í öllum íslenskum stjórnmálaflokkum meira og minna, sem betur fer. Menn skilja þetta. Það var t.d. núna fyrir nokkru ráðstefna um hlutabréfamarkað sem hefur þróast með ótrúlegum hraða, mikil ráðstefna í Holiday Inn í heilan dag, einmitt þennan merka dag sem Sjálfstfl. var að fjalla um annað mál hér (Gripið fram í.) og ég var einmitt þar þegar sú umfjöllun fór fram eins og frægt er orðið. En sleppum því. Ég veit að Skúli Alexandersson hefur gaman af svona svolitlu innskoti þegar menn þykjast vera að rífast. ( Viðskrh.: Er það ekki að verða útrætt mál í flokkunum?) Nei, við skulum ekki vera allt of alvörugefin alltaf.
    Ég fagna því að þetta frv. er fram komið og ég mun taka þátt í því að athuga hvort hægt er að fá því breytt þannig að fljótlega eða jafnvel strax við stofnun félagsins yrði látið reyna á það hvort almenningur mundi ekki vilja taka þátt í því. Ég er ekki að tala um meirihlutaeign eða neitt slíkt. Þýska undrið gerðist með þeim hætti, svo að nefnt sé dæmi, að fyrirtæki eins og Volkswagen - verksmiðjurnar voru gerð að almenningshlutafélögum, þýski stálhringurinn gerður að almenningshlutafélagi, seldir bankar o.s.frv. Þannig gerðist þýska undrið og hið sama gerðist í japanska undrinu að þar voru almenningi fengin í hendur eignarráð að svo og svo miklum hluta atvinnuveganna. Þetta er allt að rætast og ég held að hæstv. iðnrh. þurfi ekkert að skammast sín fyrir það að fylgja þessari stefnu. Ég veit ekki betur en að allir jafnaðarmannaflokkar aðhylllist þá stefnu sem þeir voru eindregnir andstæðingar á þeim tíma sem við erum að

ræða um, þ.e. fljótlega eftir stríðið þegar þýska undrið byrjaði og Erhardt stóð fyrir því. Þá voru kratarnir andstæðingar þeirrar stefnu en þeir snerust mjög fljótt á sveif með öðrum lýðræðissinnuðum flokkum og tóku undir það að almenningur ætti að eiga sem mest í atvinnuvegunum.
    Þetta er þess vegna stefna flestra flokka í hinum vestræna heimi og við erum langt, langt á eftir, áratugi á eftir öðrum þjóðum. Það er ein af ástæðunum fyrir þessari heimatilbúnu kreppu sem ég hef nefnt svo. Hún er ekki bara óstjórnin og ofstjórnin. Hún er sú að við höfum ekki lært að fylgjast með tímans rás og hafa frjálsa atvinnuvegi. Raunar eru hlutafélögin ekkert ný af nálinni. Þau eru 200 -- 300 ára gömul. Á Íslandi voru aðalaframfarirnar í byrjun aldarinnar annaðhvort í formi hlutafélaga eins og Eimskipafélagsins og margra annarra stórra hlutafélaga og svo samvinnufélaga. Þetta helst í hendur. Þá áttu einstaklingar að vísu litla peninga en nærri því hver maður varð hluthafi í Eimskipafélaginu og það var kannski eitt merkasta dæmi um almenningshlutafélag, alla vega sem ég þekki. Ég hef lesið mér þó nokkuð til um hlutafélagarétt og sögu hlutafélaganna. Eitt merkasta dæmið um almenningshlutafélag sem þekktist, enn þá merkara en Volkswagen vegna þess að dreifing atkvæðisréttar var mjög mikil í Eimskipafélaginu og fullkomlega rétt að farið í upphafi. Og það veit ég að hv. þm. Skúli Alexandersson vill að valdinu í þjóðfélaginu sé dreift og þá ekki síst hinu efnahagslega valdi þannig að við þurfum ekkert um það að deila.
    En ég endurtek, að ég mun að sjálfsögðu greiða fyrir því að þetta frv. fái sem greiðastan aðgang í gegnum þessa hv. deild, en vildi gjarnan að því væri breytt, t.d. í það form sem var á frv. Sverris Hermannssonar á sínum tíma, að almenningur fengi þar strax aðgang að einhverjum hluta félagsins, t.d. 55% eins og þá var talað um eða bara 40 -- 50% svo ríkið gæti í fyrsta umgangi haft yfirráðin ef það vildi beita þeim. Þannig var það raunar í Volkswagen-verksmiðjunum þýsku t.d. að fylkin í Þýskalandi sem áttu þarna hlutabréf og ríkisvaldið hafði meirihlutavald fyrst í stað. En eftirsóknin eftir bréfunum var svo mikil að ríkið losaði sig mjög fljótt við þau og þetta var þá orðið allsherjar almenningshlutafélag. Eins var með þýska stálhringinn. Og af því lærðu menn að versla með hlutabréf og taka þátt í atvinnuuppbyggingu síns ríkis og það var liður í þýska undrinu. Það er kominn tími til þess að íslenska undrið gerist.