Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti, ég skal vera stuttorður. Ég þakka hæstv. ráðherrum þeirra svör. Því miður heyrði ég ekki alla ræðu hæstv. iðnrh. en mér skildist á máli hans að hann hefði lagt til í ríkisstjórninni að endurgreiðslan yrði 150 millj. sem nú eru 160 millj. (Gripið fram í.) Ég var ekki kominn þegar þessum hluta var svarað en ég fékk þær upplýsingar hjá sessunaut mínum að hæstv. ráðherra teldi sig bera ábyrgð á og leggja til það sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert í þessu máli og ætlar sér að standa að þeirri tillögu sem er 150 millj. í frv. og 160 millj. eftir breytingu sem gerð var á frv. (Gripið fram í.) Það kemur nú að því að við náum sæmilegu sambandi og þá er best að ég orði þetta aftur: Hæstv. ráðherra segist styðja það að iðnaðurinn fái 160 millj. endurgreiddar vegna uppsafnaðs söluskatts af rekstri sl. árs. Það þýðir að líklega vantar nærri því 40 millj. upp á að greiðslurnar séu jafnvirði þess sem kemur fram í bókhaldi fyrirtækjanna áður en til vaxtareikninga kemur.
    Ég heyri að hæstv. ráðherra kýs að koma hér í stólinn og gera betri grein fyrir þessu, sem sjálfsagt er mér að kenna því ég hef ekki hlustað nægilega vel, en sé þetta rétt, eins og ég hef hér lýst, þá kemur í ljós að hæstv. ráðherra ætlar að bregðast þeim loforðum sem gefin voru fyrir rúmu ári þegar hæstv. ríkisstjórn sagðist mundu láta endurgreiðslu vegna uppsafnaðs söluskatts á sl. ári renna til iðnaðarins. Það átti reyndar að gerast á sl. hausti en þá reyndust ekki nægir fjármunir vera fyrir hendi. Þar sem hæstv. ráðherra ætlar að taka til máls aftur sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla að svo stöddu meira um þetta. Ég vil þó biðja hæstv. ráðherra að skýra það betur út hvernig á því standi að hann telji það réttlætanlegt að endurgreiða ekki þann hluta uppsafnaða söluskattsins, sem öllum ber saman um að er fyrir hendi, og varð til vegna reksturs í desember 1989.
    Þá vil ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýr svör. Hann sagði sjálfur að hann hefði barist af hörku fyrir því að leggja af jöfnunargjaldið í núverandi mynd. Það verður að skilja á þann veg að hann telji að slíkt jöfnunargjald fari í bága við skuldbindingar okkar gagnvart EFTA-EB og jafnvel öðrum viðskiptaþjóðum. Hann sagði að hann hefði samþykkt að það bæri að kanna betur hvort nota mætti aðrar aðferðir til þess að leggja gjöld á innflutning og þá hlýtur maður að álykta sem svo að það frv., sem er stjfrv. og liggur fyrir hv. þingi, sé lagt fram af hæstv. ríkisstjórn allri. Í því frv. er gert ráð fyrir að framlengja jöfnunargjaldið þannig að það verði 4% frá 1. jan. og 2% frá 1. júlí á næsta ári og leggist síðan af í lok næsta árs. Þetta sé gert sem eins konar aðlögun fyrir iðnaðinn, enda hafi Þjóðhagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að óhagræðið sé meira en áður hefur verið haldið fram, einkum og sér í lagi vegna fasteigna, eins og hæstv. ráðherra lýsti hér áður.
    Ef skoðuð eru tafla og texti Þjóðhagsstofnunar kemur í ljós að þetta er ákaflega misjafnt eftir greinum. Það hlýtur að blasa við hverjum sem þetta les að

hafi einhvern tímann verið efni til endurgreiðslu þá er það á grundvelli þeirra raka sem koma fram hjá Þjóðhagsstofnun. Þess vegna hlýtur maður að þurfa að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé eðlilegt, fyrst áfram er haldið að innheimta þetta gjald, að endurgreiða það til þeirra sem hafa þurft að greiða mestan skattinn vegna þess að þetta kemur ákaflega misjafnlega niður á viðkomandi fyrirtæki. Þjóðhagsstofnun segir frá þessu og segir að hlutfallið sé frá 2,3% og upp í 9%. Það munar sem sagt meira en þrefalt á fyrirtækjum eftir greinum.
    Það er einmitt þetta sem veldur því að það hlýtur að vera eðlilegt, ef menn eru í alvöru að gera það sem þeir segjast vera að gera, að bæta fyrirtækjunum í samkeppni upp það óhagræði sem verður vegna skattareglna á Íslandi, að jafna þann mun. Ein aðferðin er auðvitað að gera eins og apinn þegar hann skipti ostinum á milli músanna með því að éta ostinn sjálfur. Það kýs hæstv. ríkisstjórn að gera með því að leggja á gjald og láta það renna í ríkissjóð. En það væri hægt að gera þetta með þeirri aðferð að taka gjaldið og jafna á milli greinanna með því að greiða þeim aftur það sem þeim ber til þess að samkeppnisstaða þeirra sé eins og fyrirtækjanna sem þau eru að keppa við, bæði fyrirtæki sem stunda útflutning og fyrirtæki í iðnaði sem eru í samkeppni við innflutninginn.
    Þetta finnst mér að vanti í þessa umræðu. Ég geri mér ljóst, virðulegi forseti, að það er hægt að taka þessa umræðu aftur upp síðar þegar það frv. verður til umræðu. En það er samt merkilegt að hér hefur komið fram að hæstv. utanrrh. hefur barist gegn jöfnunargjaldinu í núverandi mynd. Hann hafði betur 1. maí 1989 þegar hæstv. ríkisstjórn gaf út það loforð að fella niður jöfnunargjaldið, enda hafði hæstv. utanrrh. áður sem fjmrh. tekið jöfnunargjaldstekjurnar inn í virðisaukaskattinn þegar kerfisbreytingin átti sér stað þannig að tekjutap ríkissjóðs var ekkert. Hann veit betur en flestir aðrir sem utanríkisviðskiptaráðherra að við erum að brjóta samninga á okkar viðskiptaþjóðum, þ.e. þeim sem við höfum gert sérstaka samninga við.
    Niðurstaðan varð samt sem áður sú að ríkissjóður hefur hirt af þessu gjaldi einn milljarð á yfirstandandi ári. Nú fyrst er hæstv. ríkisstjórn að efna að hluta ársgamalt loforð um endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Þetta gerist þrátt fyrir að hæstv. utanrrh. hafi barist af hörku gegn jöfnunargjaldinu í núverandi mynd. Hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir hvernig hann ætlar að efna það loforð sem gefið var gagnvart iðnaðinum, að greiða uppsafnaðan söluskatt samkvæmt bókhaldi fyrirtækjanna vegna reksturs á sl. ári. Það hefur auðvitað ekkert með það að gera að menn hafa nýlega komið sér saman um það að óhagræði íslensku fyrirtækjanna sé meira og látið Þjóðhagsstofnun reikna það út, nema að menn samþykki þá í leiðinni að óhagræðið, sem er mjög misjafnt eftir fyrirtækjum og greinum, verði til þess að um jöfnuð sé að ræða, þannig að gjaldið verði notað til þess að greiða aftur þeim fyrirtækjum sem þurft hafa að greiða mestan uppsafnaðan söluskatt. En það er ekki ætlunin vegna þess að hæstv. fjmrh. ætlar að fara leið apans. Hann ætlar að borða allan ostinn.