Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós mikla ánægju með það að hv. 1. og 17. þm. Reykv. hafa flutt þetta frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. Það leiðir enn hugann að öllum þeim stórfelldu göllum sem eru í löggjöf okkar lands og ekki síst í landbúnaðarlöggjöfinni. Með allri virðingu fyrir þeirri ágætu atvinnugrein og mikilvægu þá þurfum við þó að hyggja að því að þar er að finna afskaplega mörg lagaákvæði sem eru vægast sagt afar hæpin séð í ljósi almennra réttinda manna.
    Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu en tvö atriði í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. urðu til þess að ég sló í borðbrúnina. Annað var það að hv. þm. minntist á hve neikvætt það væri og fráleitt þegar jarðir væru nýttar til annars en landbúnaðar af því tagi sem hann skilgreindi nú reyndar ekki nánar, nema að það var ljóst að hann taldi það ekki í landbúnaði í sínum skilningi að menn ættu jarðir eða rækju hrossabúskap sér til ánægju. Ég fæ ekki séð að hrossabúskapur sem rekinn er í ábataskyni eða atvinnuskyni sé neitt heppilegri fyrir landið en hrossabúskapur sem menn reka sér til ánægju. Og þá er ég komin að því sem mér finnst mikilvægt atriði í þessu sambandi, fyrir utan hina lögfræðilegu hlið sem snýr að mannréttindum, og það er landverndarsjónarmiðið sem ég hygg að hljóti að hafa náð betri skilningi nú í dag en e.t.v. var á árum áður.
    Það er liðin sú tíð, að ég hélt, að mati flestra Íslendinga að byggðir landsins séu eingöngu nýtanlegar til landbúnaðar í hefðbundnum skilningi. Ég hefði haldið eða a.m.k. er það að heyra á máli manna á hátíðlegum stundum að dreifðar byggðir landsins þurfi að bæta. Það þurfi að bæta gæði landsins og gróðurfar með betri umgengni um þetta sama land, forðast ofbeit, græða upp börð og mela og einfaldlega að bæta þannig landið til langrar framtíðar litið. Og það er þetta sjónarmið sem mér finnst vera gengið fram hjá í þessum mikla lagabálki. Hér er einungis litið á hagsmuni þess landbúnaðar sem fyrir er, sveitarfélagsins sem í hlut á, þótt þar séu fyrst og fremst bújarðir. Það er ekki verið að líta sérstaklega á það hvort þar sé um að ræða bújarðir eða sveitir sem allar eru í sárum vegna ofbeitar og þar sem menn fást e.t.v. ekki til að búa neinum búskap nema með fleiri hundruð fjár og hafa gert svo e.t.v. öld eftir öld. Menn líta fram hjá því að það séu nú jafnvel íbúar þéttbýlisins, bæði norðan og sunnan heiða, austan og vestan, sem hafa lagt og munu leggja mikið af mörkum til þess að bæta gróðurinn í byggðum landsins, til þess að vinna að landvernd. Ég tel að ákvæði núgildandi laga vinni fremur gegn því sjónarmiði en með því. Þess vegna held ég að með því að losa um þau höft sem nú eru á aðilaskiptum að fasteignum í sveitum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., nái lögin fremur þeim tilgangi að unnt sé að koma við ýmiss konar landverndar- og ræktunaraðgerðum sem fyrst og fremst hafa að tilgangi þau almennu sjónarmið en ekki einungis rekstur búa í venjulegum hefðbundnum skilningi þótt

þau séu vissulega nauðsynleg.
    Það ber líka öllum saman um að úr fjölda búa hefur þurft að draga, úr ágangi búfjár hefur þurft að draga og ég fæ ómögulega séð hvernig það kemur heim og saman við það sjónarmið sem hér hefur komið fram í máli a.m.k. hv. 6. þm. Norðurl. e., að það sé hinn sanni tilgangur jarðalaga að sjá svo um að landbúnaðinum sé borgið. Vissulega þarf meginatvinnugreinum landsmanna að vera borgið en það þarf að verða breyting á til þess að hægt sé að gera eitthvað af viti og eitthvað sem um munar í ræktun og landvernd utan þéttbýlis.
    Þá kem ég m.a. að því sem virðist vera þyrnir í augum ýmissa þeirra sem staðið hafa að gildandi jarðalögum, en það er sumarbústaðabyggð í landinu. Ég fæ ekki betur séð þegar ég ferðast um landið en að einmitt sumarbústaðaeigendur víða um land hafi unnið stórvirki í því að rækta umhverfi sitt og þar með líka sýna öðrum hvað hægt er að gera við ýmsa hrjóstuga skika eða illa farin landsvæði á Íslandi. Þess vegna held ég að menn þurfi að líta til þess að við erum ekki að tala um að hér sé verið að vinna að einhverju sérstöku braski eða leikaraskap, heldur að menn sýni því fullkomið tillit og virðingu að aðrir hagsmunir koma landinu líka til góða en landbúnaðurinn einn í hinum gamla skilningi og þær nefndir sem stjórnað hafa skipulagi á því í sveitum sínum.
    Ég læt þá vera að tala að öðru leyti um alla þá skriffinnsku sem gildandi lög hafa haft í för með sér. Alla þá miklu frelsisskerðingu, atriði eins og þau sem síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Norðurl. e. nefndi, að ég ekki tali um öll þau mörgu stórvafasömu atriði sem 1. flm. þessa máls nefndi í sinni framsöguræðu. Ég mun ekki endurtaka þau atriði en það var annað atriði sem varð mér tilefni til að banka í borðið. Það var þegar hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi það að við hefðum áður átt orðastað um þetta mál sem nú er í gildandi jarðalögum. Það er vissulega rétt og hv. þm. nefndi það líka að kannski væri rétt að minna á aðdragandann að þeirri lagasetningu. Ég held að hv. þm. ætti að rifja upp þann aðdraganda og greina frá því hér á Alþingi. Það var nefnilega svo að það frv. sem varð svo að jarðalögum, sem er meginstofn jarðalaga nú, hafði komið hér í þrígang úr höndum þáv. landbrh. ár eftir ár og svo mjög fór það fyrir brjóstið á þingheimi að menn gátu ómögulega hugsað sér að renna þessum ósköpum niður. Það var ekki fyrr en á síðustu dögum þings þegar landbrh. þáv. hafði komið með þetta frv. í þriðja sinn og hér var orðið mjög viðkvæmt andrúmsloft, eins og oft vill verða á síðustu dögum þings, og ég held helst að hæstv. ráðherra þáv. hafi talið það af mannvonsku einskærri sem menn voru að agnúast út í þetta mál eða svo virtist á tímabili. En ég sannfærðist um það síðar að ráðherranum var mætavel ljóst að þetta frv. var meingallað en gallarnir voru einfaldlega svo miklir að það var ógjörlegt fyrir hann þá að bæta úr þeim eins og á stóð. Mér er nær að halda að margir þeirra þingmanna sem þá samþykktu frv., sem varð að lögum, hafi gert það í trausti þess að mörg verstu ákvæðin í

því kæmu aldrei til framkvæmda.
    Þetta sé ég að hv. 6. þm. Norðurl. e. man, enda er ég hrædd um að hann hafi verið einn í þessum hópi. Hann hafi raunverulega vonað að þessi ósköp kæmu ekki til framkvæmda. Það væri meinlaust að láta ýmis þessi ákvæði standa í lagabálkinum. Þau yrðu hvort sem er aldrei framkvæmd. Þetta yrði lagað smátt og smátt. Ýmislegt það sem síðan hefur verið gert til þess að breyta þessum lögum hefur nú fremur verið í þá átt að rýra frelsi manna en hitt. Ég held því að það sé meira en tímabært að taka málið til gagngerðrar endurskoðunar og fyrst og fremst á þann veg sem lagt er til í þessu frv. Ég hygg að menn muni sannfærast um að það verði síður en svo til trafala þeim sem vinna störf í sveitum landsins, þvert á móti geti það orðið til landbóta.
    Ég hef hins vegar ekki vikið að því sjónarmiði sem þeir menn láta uppi sem tala máli sveitarfélaganna hér og það er af skiljanlegum ástæðum. Því að ég sé enga ástæðu til þess að láta sveitarfélögin í landinu bókstaflega ráða ráðstöfunarrétti einstaklinga á eignum sínum á, ég geri ráð fyrir að það sé, ef við lítum yfir flatarmál landsins, meiri hluti hins byggilega svæðis á landinu að flatarmáli til sem skv. lögunum ætti í raun og veru að vera háður umráðarétti sveitarfélaganna og/eða jarðanefndar en í mörgum tilfellum er þar um sama fólkið að ræða. Þetta er náttúrlega þvílíkur sósíalismi sem lýsir afskaplega vel hvað það felur í sér þegar menn telja að allt sem hið opinbera, sem svo er nefnt, gerir hljóti að vera betra en það sem einstaklingar gera af áhuga sínum eða frumkvæði og alveg jafnt þó að hið opinbera sé einhver fámennur hópur manna sem hefur öll ráð manna á þessu sviði í hendi sér. Því að það eru, eins og ég sagði áðan, ekki síst í smærri byggðarlögum oft og tíðum sömu aðilarnir sem eru í sveitarstjórninni og jarðanefndinni. Þannig að einstaklingur sem einhverju vill breyta í högum sínum að þessu leyti skal fara eftir því sem þessir háu herrar segja hvernig sem störfum þess einstaklings, sem vill ráðstafa eign sinni annars, er háttað.
    Herra forseti. Það fer vonandi ekki á milli mála að ég styð þetta frv. af heilum hug og mér þykir það skynsamleg tillaga ef hún hefur komið fram, ég var ekki viðstödd þegar hv. 1. flm. lauk ræðu sinni, en mér þykir ekki ólíklegt að hann hafi lagt til að þetta mál færi til allshn. Mér þykir það eðlilegt því að jarðirnar í landinu eru ekki einungis til landbúnaðar og jarðalögin, sem koma svo mjög við almenn mannréttindi, við eignarrétt manna, erfðarétt, ráðstöfunarrétt og starfsrétt, álít ég að séu meira lögfræðilegs eðlis og slík mál fara venjulega í allshn. Mér finnst engin ástæða til að við lítum til frambúðar á þessi mál sem landbúnaðarmál. Ég tel að þau séu það ekki.