Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri hér á hv. Alþingi til þess að greina frá því sem gerst hefur í málefnum Þormóðs ramma að undanförnu.
    Eins og fram kom í ræðu málshefjanda er ríkissjóður nú eigandi 98% hlutafjár í Þormóði ramma en ríkissjóður hefur ekki áður átt jafnhátt hlutfall í því fyrirtæki. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni hér að ég tel ekki skynsamlegt til frambúðar að ríkið eigi svo hátt hlutfall hlutabréfa í þessu fyrirtæki því það sé ekki hollt neinu byggðarlagi að grundvallaratvinnutæki byggðarlagsins hvíli algjörlega á eignarhaldi ríkisins. Það sé vænlegri skipan að grundvallaratvinnutæki byggðarlaganna séu í höndum heimamanna. Ég nefni t.d. að núverandi skipan laga í landinu er þannig að fjmrh. gæti á einum degi selt öll þessi hlutabréf og þar með fyrirtækið og þar með allan veiðikvótann burtu af staðnum, vegna þess að fjmrh. hefur samkvæmt gildandi lögum fullkomna heimild til þess að ráðstafa hlutabréfum með þeim hætti sem hann kýs. Þess vegna tel ég það brýnt mál út frá atvinnuhagsmunum Siglufjarðar og almennri atvinnuþróun í byggðarlaginu að skoða nýja fleti á þessu máli. Þess vegna opnaði ég á fundi með bæjarstjórn Siglufjarðar 4. sept. sl. umræðu um það hvort það væri vilji innan bæjarstjórnarinnar, sem er hinn lýðræðislegi vettvangur heimamanna, til að skoða framtíð þessa fyrirtækis. Í þeim umræðum kom fram vilji heimamanna, kjörinna bæjarfulltrúa, til þess að skoða það mál í samvinnu við fulltrúa fjmrh. Ég bað bæjarfulltrúa á fundinum í september að hugleiða málið ásamt því að ég bað stjórnarformann fyrirtækisins og aðstoðarmann fjmrh. að skoða það nánar.
    Eins og fram kom í máli málshefjanda hélt ég síðan fund með bæjarstjórn Siglufjarðar 17. nóv. Þar kynnti ég eftirfarandi niðurstöður mínar:
    Í fyrsta lagi taldi ég nauðsynlegt að hefja könnun á því hvort einhverjir heimaaðilar, einstaklingar eða fyrirtæki, hefðu hug á því að gerast meðeigendur í Þormóði ramma þannig að hlutur ríkisins minnkaði.
    Í öðru lagi tók ég skýrt fram að slík hugsanleg sala á hlutabréfum í Þormóði ramma væri af minni hálfu eingöngu bundin við heimamenn, það væru því eingöngu siglfirsk fyrirtæki og siglfirskir einstaklingar sem þar kæmu til greina.
    Í þriðja lagi kynnti ég það grundvallarviðhorf mitt að forsenda slíkrar sölu væri sú að veiðikvótinn væri áfram bundinn í byggðarlaginu. Það yrði ekki heimild til þess að selja hann burtu.
    Í fjórða lagi gerði ég það alveg skýrt að ekki hefði verið tekin ákvörðun um það að selja hlutabréfin á þessu stigi og ég ítreka þá yfirlýsingu hér. Ákvörðunin sem hefur verið tekin er að kanna hvort það er áhugi hjá fyrirtækjum og heimamönnum, einstaklingum, á því að breyting verði á eignarsamsetningu fyrirtækisins.
    Mér ekki kunnugt um það á þessu stigi hvað sá áhugi er mikill eða hve hann er útbreiddur en tel að sá tími sem liðið hefur frá 17. nóv. hafi sýnt að hann

kunni að hafa verið nokkur og hann verður væntanlega meiri á þeim vikum sem fram undan eru. Þegar í ljós hefur komið hvers eðlis þessi áhugi er tel ég rétt að taka ákvörðun um það með hvaða hætti verður efnt til formlegra viðræðna eða sölu á þessum hlutabréfum og þá hve miklum hlut þeirra.
    Ég óskaði strax og ég kom af fundinum 17. nóv. eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins, setti fram þá ósk við 1. þm. kjördæmisins. Það dróst nokkuð að sá fundur yrði haldinn. Hann var hins vegar haldinn hér fyrir nokkrum dögum og ég tel að slíkt samráð við þingmenn kjördæmisins hafi verið farsælt.
    Ég vonast þess vegna til að geta á næstunni gert grein fyrir frekari framgangi þessa máls. Meginatriði þess er að treysta undirstöður atvinnulífs á Siglufirði, efla þróun þess á næstu árum, byggja upp öflugt fyrirtæki í eigu heimamanna og á forræði þeirra og draga úr því að Siglufjörður eigi jafnmikið undir gerræðisákvörðunum sitjandi fjmrh. á hverjum tíma eins og hann á nú.
    Ég er mjög ánægður með það að í viðræðum mínum við fulltrúa bæjarstjórnar, fulltrúa allra flokka í bæjarstjórn, hefur komið fram jákvæður vilji þeirra í þessu máli. Ég mun kappkosta að hafa góða samvinnu við bæjarstjórn Siglufjarðar um málið.