Jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar
Mánudaginn 10. desember 1990


     Frsm. allshn. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Allshn. hefur fjallað um 62. mál þingsins. Hér hefur verið útbýtt nál. um till. til þál. um könnun á gerð jarðganga og vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla.
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og stuðst við umsagnir frá síðasta þingi, þ.e. frá bæjarstjórnum Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, Fjórðungssambandi Norðlendinga og Vegagerð ríkisins.
    Nefnd þingmanna úr öllum þingflokkum vinnur nú ásamt Vegagerð ríkisins að gerð langtímaáætlunar í samgöngumálum. Virðist efni tillögunnar falla inn í verkefni þeirrar nefndar. Nefndarmenn eru því sammála um að heppilegast sé að umræða um jarðgangagerð og könnun hennar fari fram í þeirri nefnd sem vinnur að langtímaáætluninni.
    Í trausti þess að efni þessarar tillögu verði komið á framfæri við fyrrgreinda þingmannanefnd leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta skrifa Guðni Ágústsson, Jón Kristjánsson, Karl Steinar Guðnason, Kristinn Pétursson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson og Eggert Haukdal.