Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Stefán Guðmundsson :
    Herra forseti. Aðeins örstutt af því að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kom hér upp, ef það hefur farið fram hjá honum það sem ég sagði í Sþ. núna rétt áðan. Ég hélt að hann hefði heyrt mál mitt þá. ( EKJ: Ég var staddur inni í Ed. Alþingis.) Já, þá skal ég endurtaka þetta nú hér í Ed. Það sem ég sagði er það að sú nefnd, sem vann að þessu máli og í áttu sæti fulltrúar Fiskifélags Íslands, Félags smábátaeigenda og Landssambands smábátaeigenda, ásamt fulltrúum frá sjávarútvegsráðuneytinu, kom á umræddan fund sjútvn. beggja deilda, lýsti því þar yfir að þeir væru tilbúnir til þess að fara yfir öll þessi gögn með sjávarútvegsnefndarmönnum eða þingmönnum, hverjum sem það vildu. Öll þessi gögn fyrir hvern einasta bát, 2100 báta, og sýna þeim þær útreikningsreglur og þau vinnubrögð sem þeir höfðu viðhaft. Þetta boð stendur enn.