Jarðalög
Mánudaginn 10. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi koma á framfæri. Í fyrsta lagi mótmæla því að þessu máli um jarðalög sé vísað til annarrar nefndar en landbn. Það væri alveg nýtt í sögunni ef það væri gert og með því væri verið að brjóta allar þær hefðir og reglur sem þingið hefur sett sér á undanförnum árum. Ef það ætti að fara að gera það þannig þyrfti eðlilega að stokka allt upp með þessar nefndir og ef til vill leggja einhverjar þeirra niður. En að fara að vísa máli sem tilheyrir landbn. til annarrar nefndar en venja er nær auðvitað engri átt.
    Í öðru lagi kom það fram hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að það væri víða þannig að þeir sem væru í jarðarnefnd væru sömu menn og eru í sveitarstjórn. Í þessu kemur fram ókunnugleikinn á þessum málum. Jarðanefnd er nefnd sem starfar fyrir öll sveitarfélög í hverri sýslu. Það er undir hælinn lagt að einhverjir af þeim séu í einhverri af hreppsnefndum allra hreppanna. Í Eyjafjarðarsýslu er enginn úr jarðanefnd í hreppsnefnd. Í Norður-Þingeyjarsýslu mun það vera einn af þeim sem eru í jarðanefnd. Og að halda því fram að það séu sömu mennirnir og eru í sveitarstjórn. Það er bara tilviljun ef einn af þessum þremur er í sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags sem jörðin er í og fjallað er um í hverju tilviki.
    Það væri ástæða til þess að ræða þetta mál enn frekar en ég hef ekki trú á að svo sé komið tillitsleysi við strjálbýlið og landbúnaðinn að hætt sé við því að landbn. Nd. skili jákvæðu áliti á frv. í þeirri gerð sem þetta frv. er í.