Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 263 ásamt brtt. á þskj. 264 um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, frá hv. félmn. þessarar deildar. Í nál. segir svo:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um það Grétar Guðmundsson, aðstoðarmann félmrh., Þórólf Halldórsson, formann Félags fasteignasala, Gunnar Helga Hálfdánarson, forstjóra Landsbréfa, Vigdísi Hreinsdóttur, forstöðumann ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar, og Yngva Örn Kristinsson, formann stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þá barst nefndinni umsögn um frv. frá stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Breytingar þær sem um er að ræða eru eftirfarandi:
    1. Við 2. gr. Lagt er til að heimilað verði að skipta á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf fyrir fjárhæð er nemi allt að 75% af eðlilegu matsverði fasteignar. Ráðherra ákveður með reglugerð hvert hlutfall þetta skuli vera og getur hann ákveðið að hlutfallið vegna nýbygginga eða kaupa á íbúð í fyrsta sinn sé hærra en lánshlutfall vegna annarra fasteignaviðskipta. Það er vilji nefndarinnar að sú breyting, sem felst í brtt., leiði ekki til þess að lánshlutfallið hækki almennt úr 65% í 75%, heldur er skapaður möguleiki á því fyrir ráðherra að ákveða að lánshlutfallið verði allt að 75% vegna nýbygginga og kaupa á fyrstu íbúð.
    Ástæða þess að nefndin breytir fyrri efnismgr. 2. gr. er sú að frumvarpsgreinin þykir óþarflega margbrotin og óljós og er talin geta aukið á viðleitni til að gefnar verði rangar upplýsingar um kaup- og söluverð eigna.
    2. Við 3. gr. Lagt er til að húsbréfaviðskipti vegna viðgerða og endurbóta hefjist ekki fyrr en 1. sept. 1991 þar sem nauðsynlegt er að dreifa því aukna álagi sem gera má ráð fyrir að verði á verðbréfamarkaði með tilkomu þessara viðskipta og viðskipta vegna greiðsluerfiðleika. Rétt er að taka fram að nefndin telur að félmrh. hafi heimild til að ákveða að þeir sem hefja endurbætur eftir 1. jan. 1991 eigi rétt til húsbréfa vegna viðgerða og endurbóta þegar hlutaðeigandi ákvæði laganna tekur gildi.
    3. Við ákvæði til bráðabirgða. Talið er nauðsynlegt að fram séu tekin þau hlutfallslegu mörk um greiðslubyrði sem miða skal við þegar umsóknir eru metnar. Eðlilegt þykir að heimild til að geta fengið lánafyrirgreiðslu samkvæmt þessari grein sé bundin því að greiðslubyrði umsækjanda sé yfir 30% af áætluðum heildarlaunum hans á ári að jafnaði næstu fjögur árin og að eftir skuldabréfaskiptin fari greiðslubyrðin ekki upp fyrir þessi mörk né niður fyrir 20%, skilgreint á sama hátt.``