Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Í nál. meiri hl. fjvn. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 á þskj. 292 er þess getið að fyrir löngu sé tímabært að gera fjvn. formlega að heilsársnefnd. Samkvæmt þingskapalögum þeim sem nú gilda fellur starfsumboð nefndarinnar niður við þinglausnir á hverju vori. Fjvn. svífur því nokkuð í lausu lofti milli þinga. Er það oft bagalegt svo sem gefur að skilja ef nefndin þarf að láta til sín taka utan þingtíma. Sannleikurinn er sá að margir líta svo á að nefndin lifi sæmilegu lífi milli þinga og þeir sem málum eru kunnugastir láta sér vel líka að svo sé. Má því segja að ekki skorti annað en formið eitt til þess að nefndin geti starfað lögformlega allt árið eins og utanrmn. gerir nú samkvæmt ákvæðum laga. Að minni hyggju er full þörf á þessari breyttu skipan á störfum fjvn. Tel ég að um þetta ætti að geta náðst góð samstaða.
    Það verður líka að segja hverja sögu eins og hún gengur. Fjvn. er mjög önnum kafin allt frá byrjun haustþings til jóla a.m.k. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs í allmörg ár að nefndin hefur veitt fulltrúum sveitarstjórna viðtöl og tekið við erindum frá þeim áður en þing hefst og fjárlagafrv. er lagt fram. Má vera að þetta komi ekki að öllu leyti heim og saman við ákvæði og anda laganna. Þó hefur þetta viðgengist árum saman athugasemdalaust, að því er ég best veit.
    Segja má að fulltrúar flestra sveitarstjórna landsins sæki með þessum hætti fundi fjvn. á hverri haustönn. Að mínum dómi er þetta mjög ákjósanleg og skemmtileg skipan mála. Á þessum fundum fá fjárveitinganefndarmenn allgott yfirlit yfir mál sem sveitarstjórnarmenn eiga við að glíma úti um byggðir landins. Þegar þar við bætist að sveitarfélögin eiga lögvarinn rétt samkvæmt stjórnarskránni til að ráða sjálf málefnum sínum að vissu marki og stjórnarskráin kveður svo á að þessum rétti þeirra skuli skipað með lögum má ekki minna vera en þessum útvörðum byggðanna sé tekið af góðvild og kurteisi í höfðuðstöðvum fjvn., Alþingi, í miðborg Reykjavíkur þegar þeir leggja leið sína þangað.
    Þá verður og að ætlast til þess að fjvn. gefi sér einhvern tíma til að ræða við gesti sína þó að það komist að sjálfsögðu aldrei í hálfkvisti við móttökur þær sem fjárveitinganefndarmenn eiga að fagna þegar þeir taka sér ferð á hendur um byggðir landsins að sumarlagi. Satt að segja eru þessar ferðir eða heimsóknir sem nefndarmenn hafa farið út í kjördæmin eitt af því lærdómsríkasta og minnisstæðasta úr starfi nefndarinnar því þá geta menn séð með eigin augum og fest betur í minni þær aðstæður og umhverfi sem þjóðin á við að búa til sjávar og sveita og við hvaða viðfangsefni hún hefur að fást.
    Í fjárlagafrv. á bls. 245 er nokkuð rætt um umbætur í fjármálastjórn sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Er ekki nema gott eitt um það að segja. Þar eru ýmis atriði nefnd, svo sem það að aukafjárveitingar heyri nánast sögunni til og fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár séu nú lögð fram í annað sinn á haustþingi. Hér er einmitt að því vikið sem ég nefndi, að gert er ráð fyrir þeirri breytingu að í stað fjvn. verði sett upp með breytingum á þingsköpum fjárlaganefnd sem hafi það verkefni að fjalla bæði um útgjaldahlið og tekjuhlið fjárlaga. Og enn fremur í 12. tölul. að hin nýja fjárlaganefnd verði gerð að heilsársnefnd líkt og utanrmn. Þá er það komið.
    Að þessu fjárlagafrv. hefur verið unnið með hefðbundnum hætti. Það verður ekki séð að það marki nein sérstök tímamót. Að vísu hefði mátt búast við því að hin nýja löggjöf um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga mundi valda vatnaskilum í samskiptum þessara aðila en ekki verður þess vart að neinu ráði, a.m.k. ekki enn sem komið er. Sumir sveitarstjórnarmenn hafa komist svo að orði að virðisaukaskatturinn, sá er leysti gamla söluskattinn af hólmi, hafi nú þegar gleypt síðustu leifar af þeim ávinningi sem þeir vonuðust til að fá í sinn hlut við breytingar á verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga. Í nál. meiri hl. segir að breytingin á verkaskiptalögunum hafi a.m.k. enn ekki dregið úr því að sveitarstjórnir telji sig eiga erindi við fjvn. Er ekki nema gott eitt um það að segja að fulltrúar í sveitarstjórnum og fjvn. Alþingis haldi áfram að ræðast við og bera saman bækur sínar hér eftir sem hingað til. Vonandi er það og verður til ávinnings fyrir báða aðila því þeir eiga í raun og veru sameiginlegra hagsmuna að gæta á svo mörgum sviðum.
    Í athugasemdum við fjárlagafrv. er greint frá því að á undanförnum 2 -- 3 árum hafi verið lagður grundvöllur að nýrri hagstjórn hérlendis sem sé nær viðurkenndum vestrænum hagstjórnaraðferðum en sú hagstjórn sem áður var fylgt. Hin nýja hagstjórn felist í því að beita samræmdri stefnu á sviði ríkisfjármála, peningamála og gengismála til að stýra heildareftirspurn, stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og skapa sem eðlilegust og jöfnust rekstrarskilyrði fyrir atvinnulífið án þess að til komi skyndilegar og harkalegar breytingar á tekjuskiptingunni í landinu. Í þessu samhengi gegnir stefnan í ríkisfjármálum lykilhlutverki.
    Því verður ekki neitað með rökum að stefnan í ríkisfjármálum skiptir miklu máli og gegnir lykilhlutverki. Þeim mun betur verður að vanda til hennar og fylgja henni eftir af festu og skörungsskap. Í kafla þeim sem ber fyrirsögnina Efnahagsstefna og markmið fjárlaga í athugasemdum við fjárlagafrv. er fjallað um árangur efnahagsstefnunnar 1989 -- 1990 og sérstaklega tekið fram að efnahagsstefna sú sem fylgt hafi verið frá haustinu 1988 hafi þegar skilað umtalsverðum árangri. Nokkur atriði eru nefnd í því sambandi.
    1. Verðbólgan hafi lækkað og sé komin niður á svipað stig og í mörgum nágrannalöndum, þ.e. í eins stafs tölu, svo sem oft er tekið til orða.
    2. Vextir hafi einnig lækkað.
    3. Tekist hafi að bægja frá atvinnuleysi og bent á að enn sé Ísland í hópi þeirra ríkja á Vesturlöndum þar sem atvinnuleysið er minnst.

    4. Viðskiptahalli hafi rúmlega helmingast á síðasta ári þrátt fyrir samdrátt útflutningstekna.
    5. Staða atvinnuveganna hafi batnað verulega.
    6. Jafnvægi á peninga - og lánamarkaði hafi ekki verið betra í mörg ár.
    Gott er að benda á þessi atriði og væri vel að þeim mætti fagna til frambúðar því að hvert þeirra er öðru mikilvægara. En viðbúið er að þarna sé ekki allt gull sem glóir, ekki allt í nægjanlega föstum skorðum. Raunar þarf ekki að skoða fjárlagafrv. mjög ítarlega til þess að komast að raun um að þar er víða pottur brotinn og margur vandinn óleystur. Það er auðvitað sjálfsagt að vega og meta öll útgjöld og fara sparlega með opinbert fé. En svona vel stæð þjóð á þó að eiga fyrir brýnustu útgjöldum og daglegum nauðþurftum. Annars er eitthvað bogið við málið. Og það er hægt að minna á ýmis atriði sem breyst geta á marga vegu og erfitt er að reikna út. Nefna má óvissu vegna olíuverðshækkunar. Svo er einnig ritað um hugsanlegar álversframkvæmdir og sagt sem svo: Verði ráðist í byggingu álvers og virkjana er nauðsynlegt að fylgja mjög aðhaldssamri stefnu í útgjaldamálum hér innan lands til þess að hamla gegn þenslu og auknum viðskiptahalla.
    Þannig er sjálfsagt hægt að velta vöngum endalaust. Síðan er reynt að láta allt líta sæmilega út á yfirborðinu og sópa erfiðum vandamálum undir teppið, eins og sagt er.
    Í nál. frá 1. minni hl. fjvn. á þskj. 294 kemur glöggt fram hvað við blasir þegar skyggnst er á bak við tjöldin í herbúðum stjórnarliðsins. Þar er því lýst á fyrstu blaðsíðu hvernig aðilar vinnumarkaðarins tóku málin í sínar hendur þegar þeim ofbauð efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Við kjarasamningana í febrúar mótuðu þeir nýjan efnahagsgrundvöll er hlaut nafnið þjóðarsátt sem sneri öllu á betri veg fyrir ríkisstjórnina og alla þjóðina. Þetta var sannkallaður hvalreki fyrir stjórnendur landsins. Þegar þess er gætt að jafnframt hefur orðið stórhækkun á flestum útflutningsafurðum okkar mætti ætla að brýnasti vandinn hefði verið leystur. En þar hefur margt farið á annan veg, sbr. þau atriði sem rakin eru í tíu töluliðum á bls. 2 í þskj. 294. Ég skal ekki rekja það nánar nú þar sem það var rakið allskilmerkilega af hv. 2. þm. Norðurl. v. í ræðu hans hér áðan.
    Á bls. 3 í þskj. 294 er rifjað upp að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi lagt fram þrenn fjárlagafrv. Jafnan hefur þeim verið lýst svo að þau væru reist á traustum hornsteinum eða eitthvað á þá leið. En í nál. er sýnt fram á að mjög séu hornsteinar fjmrh. ólíkir þeim sem Jónas kvað um forðum, segir þar og mun auðvelt að finna þeim orðum stað.
    Á bls. 4 í margnefndu nál. er nokkur lýsing á fjárlagafrv. fyrir árið 1991. Þar er megineinkennum frv. lýst í tíu töluliðum og er það mjög skýrt og greinilegt og ættu hv. alþm. að lesa þá blaðsíðu vel og vandlega. Í nál. 2. minni hl. fjvn. á þskj. 295 kveður mjög við sama tón. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp tvær málsgreinar eða svo úr því nál. in fine. Þar segir svo:

    ,,Uppsafnaður halli á ríkisrekstri síðustu þrjú ár er um það bil 23 milljarðar kr. Viðskilnaður núverandi fjmrh. verður trúlega á þann veg að hallinn frá hans fjármálastjórn nær 30 milljörðum kr. þrátt fyrir öll tímamótafjárlögin og hornsteinana undir efnahagslífið.
    Þessi niðurstaða um ríkisfjármálin leggur þær kvaðir á framtíðina að leysa úr þessum málum. Stórkostlegur vandi blasir við þeim sem eftir koma. Greiða verður á næstu árum og áratugum þessa 30 milljarða kr. í viðbót við fyrri skuldir. Það verða fjáraukalög framtíðarinnar.`` Þannig tekur til máls hv. 7. þm. Norðurl. e., frsm. 2. minni hl. fjvn.
    Brtt. frá fjvn. í heild á þskj. 293 hafa verið gerð góð skil af formanni fjvn. og ætla ég ekki að fara fleiri orðum um þær. Það má auðvitað benda á fjöldamörg efni þar sem framlög af hálfu ríkisins eru skorin mjög við nögl. Hér áðan var minnst á framlög til Byggðastofnunar sem á þó að gegna mikilvægu hlutverki í sambandi við þróun byggðar í landinu.
    Formaður fjvn. gerði í framsöguræðu sinni grein fyrir brtt. nefndarinnar á skilmerkilegan hátt eins og ég sagði áðan. Fjöldamörg málefni og erindi bíða 3. umr. Þau eru mjög stór í sniðum og mikilvæg. Þar má nefna heilbrigðismál, sjúkrahúsin, eins og hv. 2. þm. Vesturl. minntist hér áðan, m.a. K - byggingu Landspítalans, málefni sveitarfélaga í mörgum greinum. Hér var minnst áðan á sýsluvegasjóðina og skuld ríkissjóðs við þá og þá breyttu skipan sem á þeim málum var gerð. Skuldir þar eru litlar 74 millj. kr. Kannski munar um minna. Til 3. umr. er einnig frestað hafnamálum, sjóvarnargörðum og málum um þetta nýja hafnargjald sem á að setja með lögum, vegamálum og ýmsum öðrum þáttum byggðamála og landbúnaðarmála, orkumálum og fleiri og fleiri stórmálum.
    Hv. 2. þm. Vesturl. gerði landbúnaðarmálin nokkuð að umræðuefni. Satt að segja er full þörf á því að ræða þau mál í mörgum liðum. Manni ofbýður hreinlega hvað ráðamenn þjóðarinnar taka á þeim erindum og málum af miklu skeytingarleysi og kæruleysi þannig að það er fyrir löngu orðið undrunarefni.
Ég ætla aðeins að minnast á eitt. Nú fyrir skömmu var gerð sú breyting á aðflutningsgjöldum á svína- og alifuglafóðri. Standi hún til frambúðar án þess að eitthvað verði gert á móti þá leggur hún í rúst íslenska fóðurframleiðslu, m.a. graskögglaframleiðslu sem þó er nú í höndum tiltölulega fárra aðila.
    Ég minntist á þessi mál við hæstv. landbrh. hér í dag. Hann gat þess að á þessu máli yrði þreifað á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn kemur. Þetta er auðvitað miklu meira en ógnun við graskögglaframleiðendur. Þetta er líka ógnun við alla sauðfjárrækt í landinu og verður ekki öllu lengur þagað í þeim málum. Ég sé fyllstu ástæðu til þess að taki hæstv. ríkisstjórnin ekki með viðeigandi hætti á þessum málum þá verði það a.m.k. gert að umræðuefni utan dagskrár fyrir hátíðar. En látum þessu nú lokið að mestu. Ég bendi aðeins á það að á síðustu árum hefur ýmsum stærri málum úr fjárlagapakkanum sem áður voru afgreidd við 2. umr. fjárlaga verið frestað til 3. umr.

    3. umr. er að verða mikilvægari og stærri og er full ástæða til að búa sig vel undir hana og gefa þeim erindum góðan gaum sem þar verður fjallað um og kryfja þau til mergjar.
    Brtt. þá frá forseta hæstv. Sþ. sem hér er á þskj. 107 og gerð var grein fyrir áðan finnst mér alveg sjálfsagt að samþykkja, tillöguna um Hið íslenska þjóðvinafélag.
    Þá er líklega aðeins eftir að láta máli sínu lokið. Ég vil færa bestu þakkir hv. formanni fjvn., 5. þm. Vestf., nefndarmönnum öllum og öllu starfsfólki og öðrum sem hafa unnið með okkur í fjvn. Einnig vil ég þakka þeim gestum sem komið hafa í heimsókn þó margir þeirra hafa orðið að ganga bónleiðir til búðar.
    Ég vil nú svona í lokin, þrátt fyrir allt, vara við allt of mikilli svartsýni í skammdeginu. Við verðum að vona það besta bæði fram til 3. umr. og svo áfram því að vonin verður alltaf að lifa og þrátt fyrir allt kemur sólin alltaf upp aftur.