Opinber réttaraðstoð
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. á þskj. 310 um frv. til laga um opinbera réttaraðstoð.
    Í nál. segir svo: ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Umsagnir bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands, auk þess sem gögn bárust frá dómsmrn. Á fund nefndarinnar komu Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, Sigurður Jónsson, aðstoðarmaður dómsmrh., og Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri þjóðskrár.
    Við athugun á frv. kom í ljós að nokkrum veigamiklum efnisþáttum átti að skipa með reglugerð, þar á meðal tekjumörkum þeirra sem rétt eiga á aðstoð í einstökum málum samkvæmt III. kafla frv. og þeirra sem eiga rétt á gjafsókn. Einnig var í frv. gert ráð fyrir því að þessar viðmiðunarfjárhæðir, sem ákveða skyldi með reglugerð, ættu að hækka árlega til samræmis við almennar verðhækkanir. Þykir nefndinni nauðsynlegt að skipa þessum málum með skýrum hætti og leggur því til að eftirtaldar breytingar verði gerðar á frv.
    Í fyrsta lagi að 8. gr. sé breytt þannig að kveðið sé á um það í lögunum hverjir eigi rétt til aðstoðar í einstökum málum. Miðað er við að tekjuskattsstofn einstaklings sé 850.000 kr. eða lægri samkvæmt skattframtali síðasta árs en tekjustofn hjóna eða sambúðarfólks sé samanlagt 1.275.000 kr.
    Í öðru lagi er lagt til að sama viðmiðun verði notuð í 15. gr. um gjafsóknarleyfi.
    Í þriðja lagi er lagt til að 19. gr. verði breytt þannig að með skýrum hætti sé kveðið á um hvernig viðmiðunarfjárhæðir skuli hækka. Er miðað við breytingar á lánskjaravísitölu á ársgrundvelli frá 1. okt. til sama tíma á næsta ári. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir hækki 1. des. á hverju ári.
    Í fjórða lagi er lagt til að lögin öðlist gildi 1. apríl 1991. III. kaflinn öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. júlí 1992, þegar lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds taka gildi.
    Í fimmta lagi eru lagðar til lagfæringar á 6., 7. og 9. gr. frv. en þær eru ekki efnislegar.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.`` Þessar brtt. eru á þskj. 311. Undir þetta nál. rita allir nefndarmenn í allshn.
    Eins og fram kemur í nál. taldi nefndin rétt að Alþingi ákvæði sjálft hver viðmiðunarmörk ættu að vera, en framselja það vald ekki til ráðherra, þannig að það sé skýrt í lögum hverjir eigi rétt á opinberri lögfræðiaðstoð en það sé ekki undir duttlungum ráðherra komið hverju sinni hverjir eigi að njóta slíkrar aðstoðar.
    Það kom einmitt mikið til umræðu í nefndinni hvaða viðmiðunarmörk ætti að hafa. Upphaflega hugmyndin frá fulltrúum dómsmrn. var að miða við 50 -- 60 þús. kr., aðrir töldu það of lágt. Það var tekin afstaða til þess í nefndinni að miða við 850 þús. kr., eða um 70 þús. kr. mánaðartekjur. Er þetta eitthvað hærra en miðað er við í Danmörku en þó mjög sambærilegt enda er frv. að meginstofni til, eftir því

sem mér hefur skilist, sambærilegt við það sem er í Danmörku og varðar almennu ráðgjöfina, en varðandi gjafsóknarleyfi er þetta töluvert þrengra hér á landi.