Launamál
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh. - og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsrh. sér sér fært að vera á þessum fundi. Hér fer fram 3. umr. um það mál sem menn hafa rætt nokkuð ítarlega að undanförnu og er ekki ástæða fyrir mig að flytja hér langa ræðu. En ekki verður hjá því komist að ræða í stuttu máli það sem fram hefur komið frá því að 2. umr. lauk.
    Í fyrsta lagi vil ég skýra frá því að í morgun var haldinn sérstakur fundur í fjh. - og viðskn. Nd. Til voru kallaðir þrír aðilar, Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Bjarni Bragi Jónsson. Sá fyrstnefndi komst ekki til fundarins þar sem hann var ekki staddur í bænum. Mér finnst við hæfi, vegna þess að nokkuð hefur verið rætt um þátt þeirra tveggja manna sem komu á fundinn, að skýra frá í stuttu máli hvað þeir höfðu að segja nefndinni.
    Í fyrsta lagi kom það fram hjá Eiríki Tómassyni hæstaréttarlögmanni að hann hefði verið kvaddur á fund hæstv. forsrh. Hann telur sig hafa komið til þess fundar ekki sem lögmaður heldur sem einstaklingur í sama flokki og forsrh. en síðar hafi hann gefið hæstv. ríkisstjórn álit sem hann telur sig geta staðið að fullu við. Það sem kannski skiptir mjög miklu máli er að til Eiríks Tómassonar var ekki leitað fyrr en dómur Félagsdóms hafði fallið. Sýnir þetta enn á ný að hæstv. ríkisstjórn getur engu svarað þegar hún er spurð hvort leitað hafi verið lögfræðilegra álitsgerða á tímabilinu 1. febr. til 12. júní þegar þáv. starfandi forsrh., hæstv. sjútvrh., boðaði BHMR það að þeir fengju ekki laun greidd um næstu mánaðamót á grundvelli kjarasamninga. Með öðrum orðum var ekki leitað til ríkislögmanns. Það hefur komið skýrt fram að greinargerð ríkislögmanns, sem fyrir hönd verjanda í því máli sem nú er til meðferðar hjá bæjarþingi Reykjavíkur, er engin álitsgerð heldur greinargerð. Á því er verulegur munur. Eini maðurinn, fyrir utan aðstoðarmann forsrh., sem nefndur hefur verið sem ráðunautur hæstv. ríkisstjórnar er Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður og það er upplýst að til hans var ekki leitað fyrr en dómur var fallinn í Félagsdómi.
    Með öðrum orðum sá hæstv. ríkisstjórn ekki ástæðu til þess, þrátt fyrir allar þær aðvaranir sem fyrir lágu, að afla álits lögfróðra manna um það hvernig hún ætti að fara að því að tryggja að BHMR mundi fylgja þjóðarsáttinni. Þetta hefur hæstv. ríkisstjórn látið undir höfuð leggjast. Það eina sem hefur komið fram er að hæstv. utanrrh. lagði trúnað á það sem hæstv. forsrh. sagði og hæstv. forsrh. lagði trúnað á það sem hæstv. fjmrh. sagði. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Allir benda á hæstv. fjmrh. en hann hefur enn ekki greint frá því svo ótvírætt sé að hann hafi leitað álits hjá mönnum sem til þekktu og hefðu getað gefið hæstv. ríkisstjórn ráð í tíma.
    Eiríkur Tómasson sagðist persónulega vera lítið hrifinn af þeirri leið sem farin var þegar bráðabirgðalögin voru sett. Ég tel skylt að það komi fram sem hann sagði á nefndarfundi í morgun að hann hefði í

lögfræðilegu áliti um fyrstu gerð bráðabirgðalaganna sagt að hann teldi að þau stæðust ákvæði stjórnarskrárinnar. Hins vegar hefði hann ekki kannað hvort þau brytu í bága við skuldbindingar sem Íslendingar hefðu skrifað undir. Var þá átt við sáttmála sem ríkisstjórn á sínum tíma skrifaði undir og Ísland er aðili að.
    Þegar Eiríkur Tómasson, sem helst er nefndur til sögunnar sem ráðunautur hæstv. ríkisstjórnar og þá einkum og sér í lagi hæstv. forsrh., var spurður hvort hann teldi það samrýmast þingræðisreglunni og ákvæðum stjórnarskrár um bráðabirgðalög að rjúfa þing eftir að lög falla og setja síðan bráðabirgðalög um efnislega sömu atriðin sagði hann --- og var ómyrkur í máli, að það væri mjög gróft dæmi og hann teldi það stríða gegn báðum þessum réttarreglum. Ég held að ég hafi þetta alveg rétt eftir hæstaréttarlögmanninum, sem er ráðunautur hæstv. forsrh., að hann telur að báðar þessar réttarreglur væru brotnar ef þannig hefði verið farið að.
    Nú er ég ekki að segja að hæstv. forsrh. hafi hótað því að fara svona að en ég staðhæfi að hæstv. utanrrh. sagði að svona ætti að fara að. Þetta finnst mér nokkuð merkilegt atriði sem full ástæða er til að láta koma fram við þessa umræðu vegna þess að það var ljóst að hæstv. ríkisstjórn gældi við þessa hugmynd. Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstjórn gældi við þá hugmynd að fótum troða grundvallarreglur lýðræðisins hér á landi og sjálfa þingræðisregluna. Og af því að ég heyri að hæstv. forsrh. ætlar að taka til máls, væntanlega um þetta atriði, skal það tekið fram að Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður sagði að þetta gilti þó ekki væri verið að setja nákvæmlega sömu lögin heldur efnislega sömu lögin. En jafnframt, það skal tekið fram, taldi hann að hæstv. forsrh. hefði aldrei orðað hugsanir sínar á þennan veg. Hins vegar kom fram í nefndinni að hæstv. utanrrh. hefði gert það.
    Þá kom á fundinn Bjarni Bragi Jónsson sem er forstöðumaður hagdeildar Seðlabankans. Hann staðfesti það, sem reyndar flestir vissu, að það skiptir auðvitað öllu máli hverjar forsendur eru þegar menn spá um verðbólguna. Og það á við þegar um það er rætt hvað hefði gerst þegar og ef bráðabirgðalögin hefðu fallið. Ég held að flestum sé ljóst að það þarf að vera verulegur vilji hjá hæstv. ríkisstjórn og Vinnuveitendasambandinu til þess að magna verðbólguna ef hún hefði átt að komast í það sem Þjóðhagsstofnun spáði. Ef niðurstöður Þjóðhagsstofnunar eru réttar með öðrum orðum, sem enginn getur auðvitað sagt fyrir um, er það einungis vegna þess að í landinu hefði setið ríkisstjórn sem ekkert hefði aðhafst og Vinnuveitendasamband sem hefði nánast hvatt til slíkra aðgerða, eins og að láta undan öllum ýtrustu kröfum sem komið hefðu fram frá launþegasamtökum.
    Bjarni Bragi tók undir
þau meginsjónarmið sem komu fram hjá dr. Guðmundi Magnússyni varðandi það að aukið peningamagn í umferð gæti leitt til meiri verðbólgu. Hann staðfesti það, sem haldið hefur verið fram, að þetta

gilti erlendis og hefði verið kannað með rannsóknum þar. Að vísu væri lítið til um rannsóknir hér á landi en líklegast væri að þetta hefði sömu afleiðingar.
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur látið undir höfuð leggjast að fara þannig að í þessu máli sem eðlilegt hefði verið. Það er rangt að farið. Það liggur jafnframt fyrir að hugmyndir um að rjúfa þing og setja bráðabirgðalög, efnislega þau sömu og fyrir þinginu lágu, hefðu verið brot á grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar. Að mínu áliti og margra annarra var hér um siðlausa aðgerð að ræða. Reyndar hefur m.a. Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður sagt í ræðu að þetta væri eitt dæmið enn um siðferðisbrest stjórnvalda þegar um beitingu bráðabirgðalöggjafarvaldsins væri að ræða.
    Það er athygli vert, virðulegi forseti, að allir þeir sem sátu hjá við 2. umr. málsins en tóku til máls og fluttu grg. með atkvæði sínu voru sömu skoðunar og hinir sem greiddu atkvæði gegn bráðabirgðalögunum, voru misjafnlega þungorðir en flestir álitu að hjásetan væri í sjálfu sér aðgerð til þess að leggja áherslu á að hæstv. ríkisstjórn ætti ein að bera ábyrgð á þeirri skömm sem sú aðferð er sem beitt var við setningu bráðabirgðalaganna. Ég vek athygli á þessu vegna þess að mér hefur sýnst hæstv. forsrh. hrósa sigri yfir útkomunni sem hann fékk við 2. umr. málsins. En ég bendi á að ef hann óskar eftir því að dómur þeirra manna sem ekki greiddu atkvæði við 2. umr. verði dómur yfir verkum hans, þá verður hann litlu feginn. Því slíkir dómar voru felldir af þeim sem sátu hjá við 2. umr. málsins að ég hélt að hæstv. forsrh. hefði önnur orð að mæla en hann virtist hafa þegar hann leit yfir farinn veg að lokinni atkvæðagreiðslu.
    Það er ljóst, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn er sá aðili að þjóðarsáttinni sem hefur ekki staðið við sitt. Það kemur fram m.a. í aukinni skattlagningu sem hlýtur að lenda á fólki og fyrirtækjum. Það kemur í ljós vegna bullandi halla á fjárlögum íslenska ríkisins ár eftir ár, eins og allir vita og við höfum nýlega kynnst. Það er vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekist að halda peningamagni í skefjum. Allt þetta hefur þá þýðingu að upp er að hlaðast stífla sem brestur fyrr eða síðar. Þá má segja að það tímabil sem hæstv. ríkisstjórn hafði til þess að nýta sér, þetta þjóðarsáttartímabil, hafi verið til lítils. Ég er fullviss um það að allir þeir sem komu að þjóðarsáttinni, Vinnuveitendasambandið, launþegasamtökin og bændasamtökin, hafa lagt sitt fram í trausti þess að hæstv. ríkisstjórn vildi verða þátttakandi í fullri alvöru. Því miður situr það nú eftir að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við sinn hluta í þessu mikilvæga verki, hefur ekki notað tækifærið, hefur ekki undirbúið það að árangur megi nást í efnahagsmálum þjóðarinnar í kjölfar þess tímabils sem við köllum þjóðarsáttartímabilið og lýkur 1. sept. á næsta ári. Þetta er sú staðreynd sem við blasir og virðist nú vera almennt viðurkennd.
    Ég nefni það til viðbótar að ýmsir þeir sem standa að þjóðarsáttinni hafa að undanförnu bent á að þeir hafi eignast innstæðu. Síðast í dag var dreift hér á borð þingmanna BSRB-tíðindum, 6. tölubl., þar sem

formaður BSRB skrifar grein undir fyrirsögninni ,,Við eigum innstæðu``. Í lok greinarinnar segir hann orðrétt, með leyfi forseta: ,,Viðurkenning á því að launafólk eigi innstæðu fyrir stórauknum kaupmætti er geymd en ekki gleymd, sá tími er að renna upp að við viljum fá þá innstæðu leysta út.``
    Hér talar einn þeirra sem stóðu að þjóðarsáttinni. Ég held að flestir átti sig á hvert hann er að fara. Hann er að segja: Við gerðum hlé. Við gáfum eftir um tímabundið skeið. Sá tími kemur að við viljum heimta það aftur sem við höfum gefið eftir.
    Maður hlýtur að spyrja: Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn verið að gera til að geta efnt sín loforð, sem reyndar vísa í tvær ólíkar áttir? Annars vegar loforðið við BHMR um að þeir hækki umfram aðra og hins vegar loforðið gagnvart öðrum um það að enginn hækki meira en þeir.
    Hæstv. ríkisstjórn er í þeirri klípu að geta ekki efnt sín loforð en það sem alvarlegra er er að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að nota það hlé, það logn sem nú er orðið til þess að undirbúa framhaldið.
    Það er kannski, virðulegi forseti, aðeins eitt gott sem getur hlotist af þessum umræðum öllum, þessari hrikalegu aðgerð ríkisstjórnarinnar í sumar, og það er að þingmenn og þjóð skilja nú betur en áður að breyta þarf stjórnarskránni með þeim hætti að takmarka verulega bráðabirgðalöggjafarvald forseta Íslands sem í raun er í höndum ríkisstjórnar.
    Þetta er lexían sem við getum lært. Þetta er sá lærdómur sem við getum dregið af þessari aðgerð. Loks kom að því að siðleysið varð svo mikið að almennt verður álitið að full samstaða takist um að breyta bráðabirgðalagaákvæðinu.
    Það má segja að þessi aðgerð ein hafi þannig komið í stað Estrup - tímabilsins í danskri stjórnmálasögu, þess svarta tímabils þegar ríkisstjórnirnar þar stjórnuðu landinu með bráðabirgðalögum, sem endaði með því að bráðabirgðalöggjafarvaldinu var kippt af dönsku stjórninni. Kannski verður þetta dæmi, um það hvernig hæstv. ríkisstjórn fór að við setningu þessara bráðabirgðalaga, til þess að það sama gerist hér, að ríkisstjórn verði ekki treyst fyrir bráðabirgðalöggjafarvaldinu og verði skylt að kalla saman þing og megi ekki gefa út bráðabirgðalög nema slíkt sé ómögulegt.