Almannatryggingar
Föstudaginn 14. desember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingu sem flutt er á þskj. 324 og er 228. mál Nd.
    Hér er um að ræða lítið frv. Einu sinni enn hefur þurft að grípa til þess að gera smávægilega leiðréttingu eða breytingu á lögum um almannatryggingar án þess að heildarendurskoðun á þeim mikilvæga lagabálki nái fram hér í þingsölum.
    Eins og hv. þm. vita hefur verið unnið mikið starf við endurskoðun laganna í heild sinni. Því nefndarstarfi er nú lokið og er það nefndarálit, sem er reyndar í frumvarpsformi, til athugunar hjá stjórnarflokkunum.
    Ljóst er hins vegar að það mun ekki héðan af verða lagt fram fyrir jólahlé þingsins en ég vænti þess hins vegar að geta lagt það fram fljótt eftir að þing kemur saman á nýju ári.
    Við gerð kjarasamninga á sl. vetri var Farmanna - og fiskimannasambandi Íslands gefið fyrirheit um það að reynt yrði að leiðrétta ósamræmi í bótagreiðslum almannatrygginga hvað varðar töku ellilífeyris sjómanna. Þetta ósamræmi er fólgið í því að þeir sjómenn, sem sigla á skipum sem leigð eru af íslenskum skipafélögum eða íslenskum aðilum en eru ekki í eigu Íslendinga, njóta ekki sömu réttinda og sjómenn sem sigla á íslenskum skipum eða skipum sem eru í eigu íslenskra aðila. Þetta hefur skapað mikið ósamræmi og auðvitað óréttlæti milli þessara einstaklinga. Þetta munu ekki vera mjög margir einstaklingar sem hér er um að ræða, a.m.k. ekki enn sem komið er, hvað sem framtíðin kann að leiða í ljós í því sambandi, en Farmanna - og fiskimannasambandið hefur margítrekað farið fram á það að þetta ósamræmi verði leiðrétt og sú breyting gerð á lögum um almannatryggingar að þarna sitji sjómennirnir við sama borð, þ.e. íslenskir sjómenn sem sigla á skipum sem íslenskir aðilar gera út, hvort heldur sem skipið er í eigu þeirra eða ekki.
    Þetta er efni þessa frv., hæstv. forseti, og ég tel ekki ástæðu til að gera ítarlegri grein fyrir því. Það skýrir sig mjög vel sjálft og er í sjálfu sér einfalt og ég vænti þess að þó að frv. sé seint fram komið, þá afgreiði þingið það fyrir áramótin þannig að hægt sé að verða við þessum óskum og reyndar þeim fyrirheitum sem Farmanna - og fiskimannasambandinu hafa verið gefin.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr. - og trn.