Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Karvel Pálmason (um þingsköp) :
    Hér er vissulega hafin mikilvæg umræða um mál sem skiptir velflesta máli í þessu þjóðfélagi og ég hlýt að mótmæla því að hér verði fundi frestað, umræðan slitin úr samhengi þannig að menn geti ekki fengið að ræða þessi mikilvægu mál eins og þau blasa við núna eftir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Vissulega liggur mikið fyrir í deildum hv. Alþingis en ég hygg samt að þetta mál sé miklu meira virði fyrir alla Íslendinga, að það verði rætt og frá því verði komist á skikkanlegan hátt, heldur en það sem liggur fyrir í deildum.
    Ég heyrði það áðan að hæstv. forseti bað þingmenn að stytta sitt mál og vera ekki að tefja þingstörf. Það væri kannski réttara að beina þeim tilmælum til þeirra sem stjórna þinginu í reynd að þeir greiði þannig fyrir þingmálum að þau komi fyrir með eðlilegum hætti og að mál skipist þannig bæði í deildum og sameinuðu þingi að þingmenn geti almennt rætt um þau mál.
    Ég mótmæli því harðlega að þessi umræða sé slitin úr samhengi og tel það miklu mikilvægara að hún haldi áfram og að þingmenn geti almennt tjáð sig um þetta mikilvæga mál, því þetta mál er í brennidepli núna. Og menn skulu ekki gleyma því, hvað sem kosningum líður, ég er ekki að tala um þær, menn skulu ekki gleyma því að hér er verið að fjalla um mál sem snertir velflesta einstaklinga í landinu, afkomu þeirra fjölskyldna. Það eru hrikaleg dæmi sem komið hafa upp að því er þetta varðar. Ég nánast krefst þess af hæstv. forsetum að þeir láti þessa umræðu halda áfram og fresti fundum í þingdeildum þar til þessari umræðu er lokið.