Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Ég hafði reyndar vænst þess að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu. Ég hafði hugsað mér að spyrja hann nokkurra spurninga. Ég get reyndar gert það í lok máls míns ef hann er vant við látinn þessa stundina. ( Forsrh.: Ég er hræddur um að hann sé mjög bundinn í neðri deild.) Ég mun taka tillit til þess eins og ég sagði og fresta þá þeim fsp. þar til hæstv. fjmrh. kemur. ( HBl: Fjmrh. ætti að vera við. Hann gerði samningana.) ( Forsrh.: Hann kemur eflaust.) ( HBl: Það er nú ekki kurteisi að hlusta ekki á forsrh., en hlusta á mál óbreyttra þingmanna.) ( Forsrh.: Ég ætla að hlusta.) ( HBl: Ég sagði að maðurinn sem gerði samningana ætti kannski að hlusta á mál óbreyttra þingmanna.) Eins og ég gat um er ég reiðubúin til að hefja mál mitt þó hæstv. fjmrh. sé ekki hér þessa stundina.
    Við höfum nú fengið þennan óheillagjörning hæstv. ríkisstjórnar á dagskrá hér í hv. Ed. Þingheimi öllum er kunnugt um afstöðu okkar kvennalistakvenna til þessara bráðabirgðalaga sem nú eru komin til umfjöllunar. Sömuleiðis hefur afstaða okkar til bráðabirgðalaga sem sett eru eða til lagasetningar á frjálsa kjarasamninga þráfaldlega komið í ljós. Samningar sem gerðir eru eru gerðir í ljósi þeirra mannréttinda og lýðréttinda sem gilda í þessu þjóðfélagi --- eða eiga að gilda öllu heldur. Ég minni á að einmitt af þeim ástæðum að ríkisstjórnir hafa stöðugt sett bráðabirgðalög á samninga hefur Kvennalistinn hafnað aðild að þeim ríkisstjórnum sem setið hafa á þessu kjörtímabili.
    Eins og hv. þm. er kunnugt um hafa ríkisstjórnir ein af annarri ekki skirrst við að notfæra sér þessa heimild í stjórnarskránni, hvort sem er í nafni frjálshyggju eða félagshyggju svokallaðrar. Þeir tveir flokkar, Alþfl. og Alþb., sem hingað til hafa talið sig hvað nátengdasta verkalýðshreyfingunni sáu ekkert athugavert við ýmist að taka þátt í lagasetningunni eins og Alþfl. gerði sumarið 1988 og Alþb. lagði blessun sína yfir framlengingu þeirra með inngöngu í stjórnina haustið 1988 þegar ný ríkisstjórn var mynduð. Við kvennalistakonur gátum með engu móti lagt blessun okkar yfir þá gjörð þannig að aðild að ríkisstjórn kom ekki til greina. Þetta hafa margir kosið að túlka á þann veg að við þjáumst af kjarkleysi og þorum ekki að axla ábyrgð. Í mínum huga birtist einkennilegt siðgæðismat í því að telja það kjarkleysi að standa við skoðanir sínar en telja það kjark að skipta um skoðun eftir því sem henta þykir.
    Stjórnarskráin kveður á um að þingmenn séu ekki bundnir af öðru en sannfæringu sinni og um það sverjum við eið að stjórnarskránni þegar við hefjum hér störf. Ekki vil ég trúa því að óreyndu að sannfæring hv. þm. segi þeim að ekkert sé athugavert við að ganga á bak orða sinna og gerðra samninga.
    Með því að nota heimild 28. gr. stjórnarskrárinnar svo oft sem raun ber vitni, ekki síst til þess að fjötra frjálsa kjarasamninga, er jafnt og þétt grafið undan lýðræði og mannréttindum í þjóðfélaginu. Það

var ekki síst sú bráðabirgðalagasetning sem nú er á dagskrá sem varð okkur kvennalistakonum tilefni til að flytja frv. í Nd. um afnám heimildar til útgáfu bráðabirgðalaga. Eins og ég gat um áðan verður fjöldi bráðabirgðalaga frá stofnun lýðveldisins að teljast óeðlilegur. En frá þeim tíma til dagsins í dag hafa verið gefin úr tæplega 260 bráðabirgðalög. Það er svo einn annar þáttur sem má minna á og undirstrikar hve frjálslega stjórnvöld hafa farið með þetta vald, en alkunna er að ríkisstjórnir hafa oft gefið út bráðabirgðalög skömmu áður en Alþingi er kallað saman, stuttu eftir þingslit að vori eða jafnvel í jólaleyfi þingmanna.
    Miðað við þann stuðning sem frv. okkar um afnám þessarar heimildar hlaut meðal þingmanna í Nd. í umræðunni sem þar fór fram þegar frv. var lagt fram og mælt fyrir því og ekki síst með hliðsjón af því hörmulega dæmi um valdníðslu ríkisstjórnar sem við ræðum hér í dag, tel ég ástæðu til að ætla að frv. okkar hljóti afgreiðslu sem lög á þessu þingi.
    Þingkonur Kvennalistans telja að með þeim bráðabirgðalögum sem sett voru 3. ágúst sl. hafi ríkisstjórnin beitt fádæma ólýðræðislegum vinnubrögðum auk þess að virða að vettugi samningsrétt viðsemjenda sinna. Enn alvarlegra er að fullvíst má telja að þar hafi ríkisstjórnin einnig sett lög á dóm, en Félagsdómur hafði kveðið upp sinn dóm í þessu máli og ríkisstjórnin ógilti þann úrskurð.
    Í umræðum utan dagskrár í Sþ. 18. okt. sl. beindi ég nokkrum spurningum til hæstv. forsrh. varðandi þau vafaatriði sem hljóta að sækja á huga hans eins og annarra í þessu máli. Hann lenti auðvitað í þeim tilvistarvanda sem hver siðmenntaður maður hlýtur að lenda í sem misbeitir valdi sínu á þann hátt sem hann hefur gert. Hann reyndi að sleppa frá málinu með því að segja að ekki hafi verið sett lög á dóm heldur lög sem breyttu forsendum dómsins. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forsrh.: Hvers vegna var málið ekki tekið upp á ný fyrst forsendur dómsins voru brostnar? Hvers vegna var það ekki sent til dómsins aftur með nýjum forsendum?
    Hæstv. ríkisstjórn reynir að verja sig með því að lögin hafi verið sett í nafni þjóðarsáttar. Hvenær var gerð sátt um að taka af kjarabætur sem samið var um í frjálsum samningum? Launafólk í öðrum stéttarfélögum hefur ekki fengið tækifæri til að svara þessari spurningu. Hins vegar efast ég ekki um hvert svar þess hefði verið. Það hefði að sjálfsögðu verið neitandi. Það eru hagsmunir allra að kjarasamningar séu virtir.
    Ef til vill blasir líka við okkur sú dapurlega staðreynd að alveg hafi verið ljóst frá upphafi að ekki yrði staðið við þennan samning. Það virðist hafa verið þannig þegar samningur var gerður við ASÍ, BSRB, VSÍ og VMSÍ og ríkið að ríkið hafi aldrei ætlað sér að standa við samning sinn sem gerður var við BHMR 18. maí 1989. Langar mig, með leyfi forseta, að fá að vitna hér í viðtal sem birtist í aðalfréttatíma Sjónvarpsins 29. nóv. sl., við formann Vinnuveitendasambands Íslands, Einar Odd Kristjánsson. Þar spyr

fréttamaður hann á þessa leið: ,,Aðilar vinnumarkaðarins, aðstandendur þjóðarsáttarinnnar, Alþýðusambandið, BSRB og samtök vinnuveitenda lögðu mikinn þrýsting á stjórnvöld í sumar um að þau næmu kjarasamning fjmrh. við BHMR úr gildi með lagasetningu eftir að Félagsdómur hafði dæmt einhliða uppsögn ríkisins á samningnum ógilda. En gátu þeir ekki allan tímann búist við því að meiri hluti Alþingis snerist öndverður gegn slíkri lagasetningu sem að ýmissa dómi var í blóra við eðlilegar leikreglur lýðræðis?`` Svar formanns Vinnuveitendasambands Íslands er á þessa leið. ,,Sko, það skiptir ekki máli hvernig menn vilja túlka það. Það lá fyrir í upphafi þegar þessi samningur var gerður við BHMR að engir aðrir launþegar mundu nokkurn tímann líða það að afmarkaður hópur manna mundi alltaf fá sömu hækkanir og aðrir en auk þess næstu fimm árin viðbótarhækkun. Þetta máttu allir vita. Þessu var lýst yfir í upphafi þegar samningurinn var gerður. Það var líka vitað þegar við gengum frá febrúarsamningnum við ASÍ og BSRB að það væri grundvallarskilyrði að aðrir launahópar fengju það sama og þarna var samið um. Það má kalla það ofbeldi ef menn vilja en þetta var lykillinn að því að þetta samkomulag náðist. Þetta var leiðin til að keyra þessa verðbólgu niður, að fá alla til að taka þátt í því.`` Og enn spyr fréttamaðurinn: ,,Nú voruð þið mjög hvetjandi þess að þessi lög yrðu sett en getið þið ekki búist við að næst bitni það á ykkur ef ekki fæst samþykki á Alþingi fyrir svona aðgerð ríkisvaldsins?`` Formaður Vinnuveitendasambands Íslands svarar: ,,Við vorum mjög hvetjandi þess, reyndar kröfðumst við þess vegna þess að ríkisstjórnin hafði gefið okkur fyrirheit, ófrávíkjanleg fyrirheit, um það að BHMR-samningurinn tæki ekki gildi. Það voru loforð þeirra. Það voru handsöl þeirra og við gengum mjög stíft eftir því að við þau loforð yrði staðið. Það er alveg rétt. En við gerðum það vegna þess að þetta var, eins og ég sagði áðan, að þetta var lykillinn að því að aðrir gætu sætt sig við það að svona gengi þetta fram. Þannig var að þetta voru okkar viðbrögð, voru í beinu samhengi við það sem við höfðum áður heitist undir og lofað.``
    Ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. í framhaldi af þessu viðtali hvort það sé rétt, sem hér hefur komið fram í viðtali við formann Vinnuveitendasambands Íslands, að það hafi verið handsalað samkomulag um það að samningur BHMR tæki ekki gildi. Öll framganga ríkisstjórnarinnar er með þvílíkum eindæmum að ég tel rétt að rifja hér örlítið upp atburðarásina. Eins og kom fram í máli hæstv. forsrh. áðan hefur það verið gagnrýnt töluvert að ekki skyldi vera rætt strax við BHMR þegar samningar um þessa svokölluðu þjóðarsátt voru gerðir. Það er auðvitað mikil spurning hvers vegna ekki var rætt við BHMR og hreinlega gert ljóst að ekki var ætlunin að standa við samninginn. Ég hlýt að ítreka og endurtaka þessa spurningu varðandi handsal ríkisstjórnarinnar og VSÍ í þessu máli.
    Það er einkennilegt og lýsandi fyrir þessa ríkisstjórn hvernig hún ber sig að þar sem hún virðist telja

það færa leið til að hafa góða samvinnu og halda frið í þjóðfélaginu að umgangast, hvort sem er stéttarfélög eða einstaklinga, á þann hátt að gefa út einhliða yfirlýsingar um ákvarðanir sínar. Í því sambandi nægir að minna á bréf það sem ríkisstjórnin hæstv. sendi BHMR 12. júní sl. og hæstv. forsrh. gat reyndar um áðan. Heyrðist mér á honum að hann hefði að einhverju leyti séð eftir á að þar var heldur harkalega fram gengið. Í þessu bréfi kemur einmitt fram einhliða yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að hún muni ekki standa við þennan samning.
    Í verkfallinu langa sem BHMR háði vorið 1989, áður en þessi kjarasamningur var gerður, var hæstv. fjmrh. gagnrýndur mjög fyrir vinnubrögð sem einkenndust af álíka hroka og yfirgangi og fram koma í bréfi þessu sem ég nefndi áðan. Í bréfinu er engin tilraun gerð til þess að ná sáttum heldur aðeins tilkynnt um einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar í málinu. Í framhaldi af þessu bréfi ríkisstjórnarinnar sendu kvennalistakonur frá sér ályktun 14. júní sl. Með leyfi forseta langar mig að lesa hana. Þar segir: ,,Í lýðræðisþjóðfélagi telst frjáls samningsréttur til grundvallarmannréttinda. Þegar ríkisstjórn Íslands sýnir nú sitt rétta andlit og grípur til þess ráðs að tilkynna BHMR formálalaust að ríkisvaldið hyggist ekki standa við sinn hlut í löglega gerðum og undirrituðum kjarasamningi hlýtur það að vekja ugg í brjósti og margar spurningar. Ekki síst þegar þess er gætt að þetta er ekki í fyrsta sinn sem samningsréttur íslenskra launþega er fótum troðinn og einskis virtur. Aðferðin er ný en innihaldið ekki. Þetta mannréttindabrot ríkisstjórnarinnar er því einungis tilbrigði við stef sem allir launþegar ættu nú að kunna.
Fyrir rúmu ári, eftir langt og harðvítugt verkfall, gerðu BHMR og ríkið með sér samning um að endurskoða launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins í því augnamiði að þeir nytu sambærilegra kjara og fyrir sambærileg störf á almennum vinnumarkaði. Í kjölfar þessarar endurskoðunar sem ljúka átti á fyrra missiri ársins 1990 skyldu tillögur um breytingar á launakerfi BHMR framkvæmdar á þremur árum. Fyrsta skref átti að stíga 1. júlí 1990. En þá gerist það að ríkisstjórn Íslands tilkynnir BHMR með bréfi, dags. 12. júní 1990, að hún hafi ákveðið að fresta framkvæmd nýs launakerfis háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Sama dag er tilkynnt hækkun á áfengi og tóbaki og sú skýring gefin að hækkunin sé í samræmi við fjárlög. Var hækkunin til háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem samið var um fyrir ári ekki inni í fjárlögum? Ætlaði ríkisstjórnin sér aldrei að standa við samninginn?
    Í bréfi ríkisstjórnarinnar er vísað til þjóðarsáttarinnar og að framkvæmd umsaminnar endurskoðunar á launakerfi BHMR muni spilla árangri hennar. Því til stuðnings er minnt á að ein af forsendum kjarasamnings ASÍ og VSÍ, sem aðrir kjarasamningar hafi tekið mið af, sé að launaþróun annarra verði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum``, þ.e. samningi ASÍ og VSÍ, hér er beint vitnað til hans.
    Og áfram heldur ályktunin:

    ,,BHMR átti ekki aðild að þjóðarsáttinni svokölluðu. Samningur þess við ríkisvaldið var gerður tæpu ári fyrr. Hvorki ASÍ, VSÍ eða nokkur annar getur gert kjarasamninga sem breyta þegar gerðum samningum annarra. Frestun er réttlætt með því að vitna til eftirfarandi setningar í BHMR-samningnum: ,,Standa skal að umræddum breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu.`` Þessi setning staðfestir að launakerfi BHMR skuli breytt eins og 1. gr. samningsins kveður á um. Hún er ekki um það að ekki eigi að framkvæma umsamdar breytingar heldur um leiðir til þeirra breytinga.
    Með því að fresta leiðréttingunni einhliða gefur ríkisstjórnin til kynna að ekki megi hrófla við ríkjandi launakerfi. Þýðir þetta að hópar sem hér eftir semja um leiðréttingu launa geti ekki fengið hana vegna þess að ekki megi breyta launakerfinu? Er þá launakerfið sem nú er við lýði eitthvert náttúrulögmál?
    Kvennalistakonur telja núverandi launakerfi óréttlátt og vilja raska því, ekki síst til þess að bæta hag kvenna á vinnumarkaðnum. Ríkisvald sem opinberar virðingarleysi sitt fyrir lýðræði og mannréttindum með þeim hætti sem nú er orðið er til alls víst. Það er því áríðandi að allt launafólk skilji mikilvægi þess að undirritaðir samningar haldi, hver svo sem í hlut á, minnugt þess að þau spjót sem beinast að einum í dag geta fyrr en varir snúist að öðrum á morgun.``
    Lýkur þar lestri mínum á þessari ályktun Kvennalistans frá 14. júní. Ég vil í framhaldi af henni beina spurningu til hæstv. forsrh. um það hvort hann líti svo á að það launakerfi sem við búum við nú sé fast og því megi ekki breyta eða raska á einn eða annan hátt. Þá hlýt ég einnig að spyrja hvernig hann sjái fyrir sér að gera megi þær breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðnum, þ.e. í launalegu tilliti, á ég við, hvernig hann hugsi sér að ná fram jafnrétti kvenna og karla til launa, en eins og fram kemur í mörgum skýrslum sem út hafa verið gefnar á undanförnum árum eru konur rétt um hálfdrættingar á við karlmenn, og hvaða hugmyndir hann hafi um hvernig megi breyta þessu.
    Allir þekkja söguna í framhaldi af þessu bréfi frá þá starfandi forsrh., 12. júní sl., að BHMR skýtur máli sínu til Félagsdóms sem 23. júlí sl. kvað upp samhljóma dóm þar sem segir orðrétt að stefnda, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, sé frá 1. júlí 1990 skylt að greiða félagsmönnum stefnanda, Félags íslenskra náttúrufræðinga, sem starfa hjá stefnda og taka laun samkvæmt kjarasamningi aðila frá 18. maí 1989, fjárhæð sem nemur einum og hálfum launaflokki til viðbótar launum viðkomandi félagsmanns samkvæmt 10. gr. kjarasamnings aðila. Auk þessa er stefnda, þ.e. fjármálaráðherra, gert að greiða málskostnað og dráttarvexti.
    Eftir að niðurstaða Félagsdóms varð ljós fóru að heyrast raddir um að hugsanlega yrðu sett bráðabirgðalög þvert ofan í dóminn. Eitthvað virtust hæstv. ráðherrar hikandi í fyrstu, en í DV 24. júlí sl. er haft orðrétt eftir hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: ,,Það kemur ekki til greina að setja bráðabirgðalög á niðurstöður dóms.`` Og í sama viðtali segir hann: ,,Það verður ekki farið út í neinar aðgerðir nema þær standist 100%. Það eru engar líkur á að ríkisstjórnin afnemi þá 4,5% hækkun sem Félagsdómur hefur úrskurðað háskólamönnum. Slík aðgerð er einfaldlega of hæpin lögfræðilega. Það eru miklar líkur til þess að dómstólar muni hnekkja henni við fyrsta tækifæri.`` Þar með lýkur tilvitnun í svar hæstv. fjmrh. og hafði ég hugsað mér að spyrja hann beint vegna þessa tilvitnaða viðtals við hann en mun þá geyma mér það þangað til hann hefur tök á því að koma hingað.
    Þegar leið að mánaðamótum júlí/ágúst fóru reyndar að heyrast ýmsar athugasemdir, t.d. þau orð hæstv. fjmrh. að Félagsdómur lifði í efnahagslegu tómarúmi. Það hlýtur að vera spurning um stöðu dómstóla, hver þeirra staða er í þjóðfélaginu, ef þeim er gert að dæma út frá einhverjum ákveðnum forsendum. Er dómstólum þá skylt að taka tillit til t.d. efnahags- og heimilisaðstæðna sakamanna sem þeir dæma?
    Tíu dögum eftir að hæstv. fjmrh. hafði gefið afdráttarlaust svar um það að bráðabirgðalög yrðu ekki sett segir hann í Morgunblaðinu, 3. ágúst sl., með leyfi forseta: ,,Bráðabirgðalögin eru í þeirri mynd sem við viljum hafa þau. Almennur samningsréttur og lýðréttindi eru ekki skert með þessum lögum.``
    Hæstv. forsrh. sagði áðan að bráðabirgðalögin væru almenn fyrir alla kjarasamninga. Mér sýnist því á þessu að hæstv. fjmrh. og forsrh. hafi ekki sama skilning á þeim lögum sem þarna voru sett, en eitt af því sem sérstaklega hefur verið gagnrýnt varðandi þessi bráðabirgðalög er að þau taka til tiltekins lítils hóps í þjóðfélaginu, en venjulega er það svo að bráðabirgðalög eru sett af brýnni nauðsyn og ná til þjóðfélagsins alls.
    Auðvitað hljóta að vakna spurningar eins og þær hvað hafi sannfært hæstv. fjmrh., hvaða nýja lögfræði hann uppgötvaði á þessum tíu dögum og hvort hann hafi fengið óyggjandi vissu fyrir því að dómstólar mundu ekki hnekkja þessum lögum þegar þar að kæmi.
    Nú í haust var haldið þing Alþjóðasambands kennara en kennarar eru eins og þingheimi er kunnugt um félagar í BHMR, þ.e. hluti kennara. Þingið ályktaði um bráðabirgðalögin og þar kemur fram mjög einarður stuðningur þeirra við baráttu kennara og annarra félaga í BHMR við að ná fram sjálfsögðum mannréttindum sínum. Það liggur líka fyrir að Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hefur nú lagt þetta mál sitt fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina, ILO.
    Íslenskir ráðamenn, ekki síst hæstv. ráðherrar, hafa verið ötulir við það á erlendum vettvangi að gera sig gildandi sem boðbera lýðræðis og frelsis og það er þýður ómur í setningunni sem oft heyrist um að við Íslendingar verðum að gera okkur gildandi í samfélagi þjóðanna. Við viljum gjarnan gefa þá mynd af Íslandi að hér ríki fyrirmyndarþjóðfélag með fyrirmyndarlýðræði. Það verður fróðlegt að fylgjast með hæstv. ráðherrum hvernig þeir ætla að svara fyrir lýðræðið á Íslandi ef það á stöðugt að verða hlutskipti íslenskra stéttarfélaga að þurfa að leita réttar síns í útlöndum og

þegar í ljós kemur að setning þessara bráðabirgðalaga brýtur e.t.v. í bága við marga erlenda samninga sem íslenska lýðveldið á aðild að og hefur skrifað undir, að ekki sé talað um íslensku stjórnarskrána. Það gæti orðið erfitt hlutverk að leika lýðræðispostulann á erlendum vettvangi þegar þeir dómar hafa verið birtir.
    Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. hérna áðan ræddi hann um nauðsyn þess að takast á við þessa kjarasamninga BHMR eftir 1. sept. Nú er það líklega svo að eftir þann tíma hefur hæstv. forsrh. e.t.v. ekkert um þá kjarasamninga að segja þar sem trúlega verður sest önnur ríkisstjórn að völdum hér á Íslandi. Það sem félagar í BHMR hljóta auðvitað helst að vilja ræða núna er það hvernig megi komast frá þessum ólögum. Þess má geta hér að það er í mínum huga ekki undarlegt að traustið skuli ekki vera allt of mikið vegna þess að gerðir hafa verið margir kjarasamingar undanfarin ár einmitt við þetta félag og þeim hefur verið rift einum af öðrum með ýmsum hætti. Saga þessa félags er alveg ótrúleg og það er í raun og veru saga samskipta þess við ríkisvaldið.
    BHMR-félögin fengu samnings- og verkfallsrétt 1. jan. 1987. Það er skemmst frá því að segja að varla hefur ríkt friður um nokkurn samning þeirra síðan. Tæplega helming þess tíma hafa samningar verið í gildi og í friði en samningar hafa verið útrunnir og lausir í yfir hundrað daga án þess að nýir samningar lægju fyrir. Verkföll ýmissa BHMR-félaga hafa staðið í 88 daga og samningar hafa verið ónýttir með bráðabirgðalögum í 699 daga. Þetta eru ótrúlegar tölur og segja sína sögu en þess má líka geta að sá sem nú situr á stóli forsætisráðherra hefur áður komið að málum BHMR-félaga og það hafa verið undirritaðir margir samningar og yfirlýsingar um kjarasamanburð og það liggja fyrir skýrslur, ég man t.d. eftir þremur skýrslum um málefni kennara, og það er skemmst frá því að segja að engin þeirra tillagna sem þar koma fram um úrbætur í kjaramálunum hefur verið framkvæmd. Það er því e.t.v. ekki að undra að trúnaðartraustið sé ekki mjög mikið og menn séu ekki reiðubúnir til að fara að ákveða hvað gerist eftir 1. sept. því að fram undan er auðvitað algjör óvissa og enginn veit hvað gerist þegar þessu þjóðarsáttartímabili lýkur. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég mun halda áfram máli mínu. Ég var að fjalla um vinnubrögðin í kringum þetta mál allt saman. Ég minnist þess að við 1. umr. um þetta mál í hv. Nd. svaraði hæstv. forsrh. spurningum um það hvort ekki hefði verið rétt að kalla saman þing í sumar vegna þessa máls á þann veg að það hefði verið alveg óþarfi því meiri hluti hefði verið fyrir setningu þessara laga. Mér heyrðist hins vegar áðan hæstv. forsrh. segja eitthvað allt annað þar sem hann tilkynnti að hann hefði hugleitt það mjög að kalla saman þing. Það var hins vegar ekki að heyra á honum við 1. umr. málsins í Nd. Svarið sem hann gaf þar er eitt dæmi um hroka og yfirgang núverandi ríkisstjórnar og viðhorf hæstvirtra ráðherra í garð Alþingis Íslendinga.
    Það er nú einu sinni svo að Alþingi á hverjum

tíma er samansett af meiri hluta og minni hluta. Þar er líka stjórnarandstaða og hún á sama rétt og þeir sem meiri hluta mynda á því að fá mál til umfjöllunar, og það er einkennilegt ef meiri hluti getur gefið sér það fyrir fram að hann hafi svo rétt fyrir sér, og honum skeiki hvergi, að óþarfi sé að kalla aðra til. Þetta vekur auðvitað spurningar um hvort það sé álit hæstvirtra ráðherra í ríkisstjórninni að útilokað sé að minni hluti eða stjórnarandstaða kunni að geta bent á einhverja agnúa eða einhver atriði sem betur mættu fara í hinum ýmsu málum. Þá á ég ekki eingöngu við bráðabirgðalögin. Þetta vekur auðvitað líka upp spurningu um það hvort nefndir þingsins séu óþarfar vegna hins alvitra meiri hluta á hverjum tíma.
    Ég held að sé svo ætti hæstv. ríkisstjórn að endurskoða afstöðu sína til löggjafarsamkundu þjóðarinnar, ekki síst eftir þá atburði sem urðu á dögunum þegar í ljós kom að hugsanlega var enginn meiri hluti í Nd. fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga og nú síðustu vikurnar hafa komið fram nýir fletir á þessu máli sem hljóta að vekja upp efasemdir með hæstv. forsrh. um lögmæti aðgerðarinnar.
    Ég bendi á það hér að margir af færustu og lögfróðustu mönnum landsins hafa á undanförnum vikum birt greinar í dagblöðum. Álit þeirra á setningu þessara bráðabirgðalaga er á þann veg að þau brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég vil með leyfi forseta vitna í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður skrifaði í Morgunblaðið 9. des. 1990 þar sem hann segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Spuringin um það hvort heimilt er að setja bráðabirgðalög byggist á túlkuninni á því hvað teljist brýn nauðsyn enda sitji þing ekki. Ég tel að það hafi ekki verið heimilt að setja þessi bráðabirgðalög af því að þessi skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Öll málsatvik lágu fyrir löngu áður en þingi var slitið í vor. Það fær því ekki staðist að ríkisstjórn geti beðið með lagasetningu þar til þingi hefur verið slitið til að bregðast við brýnni nauðsyn. Ég tel reyndar að ekki einungis form bráðabirgðalaganna heldur einnig og ekki síður efni brjóti í bága við stjórnarskrána. Með lögunum er réttur félagsmanna BHMR til launa samkvæmt kjarasamningum tekinn af þeim. Þetta eru eignarréttindi sem ég tel að njóti verndar samkvæmt stjórnarskránni.``
    Í sömu vikunni skrifar annar virtur lögfræðingur, Árni Grétar Finnsson, grein í Morgunblaðinu þar sem yfirskriftin er, með leyfi forseta: ,,Setning bráðabirgðalaganna er andstæð stjórnarskránni.`` Þar rekur hann í stuttu máli þá skoðun sína að setning þessara bráðabirgðalaga fái ekki staðist stjórnarskrána.
Hér segir á einum stað í grein hans, með leyfi forseta: ,,Ákvæði stjórnarskrárinnar um að dómendur fari með dómsvald þýðir að niðurstaða þeirra er endanleg í hverju einstöku máli sem þeir úrskurða. Henni er ekki hægt að breyta hvorki af löggjafar- né framkvæmdavaldi.`` Og í þessum orðum hans beinist kastljósið einmitt að kjarna þessa máls, þ.e. því að sett voru lög á úrskurð dómstóla. Ég vitna einnig í lokaorðin í grein hans þar sem segir: ,,Setning bráðabirgðalaganna undir þessum kringumstæðum hefur í för með sér mjög alvarlegt fordæmi ef samþykkt yrði. Þar með gætu ríkisstjórnir í framtíðinni með bráðabirgðalögum eða Alþingi með venjulegum lögum breytt efnislega eftir á dómum sem féllu ríkinu í óhag. Menn sem ættu kröfur á ríkið og fengju þær staðfestar með dómi yrðu þá að sæta því að þær yrðu efnislega ógiltar með lögum eftir að dómur væri genginn. Allir sjá til hvílíks ófarnaðar slíkt mundi leiða en hvar eru mörkin eftir að fordæmið hefur verið gefið?``
    Auk þeirra lögfræðilegu vankanta sem á þessu máli eru birtist 30. nóv. 1990 mat hagfræðideildar Seðlabanka Íslands þar sem tekin eru þrjú dæmi um forsendur sem hægt væri að hugsa sér varðandi framvindu mála ef staðið yrði við kjarasamninginn við BHMR. Og það er kannski enn og aftur merki um vinnubrögðin öll í þessu máli að um leið og álit hagfræðideildar Seðlabankans er gefið út þykir það ekki vera stjórnvöldum í hag og þá er farið og pantað nýtt álit, og reyndar var Þjóðhagsstofnun búin að gefa út álit á sínum tíma eins og fram kom hér áðan í máli hæstv. forsrh. Í því áliti sem hagfræðideild Seðlabankans gefur út eru, eins og ég sagði, tekin þrjú dæmi um þær forsendur sem hægt væri að hugsa sér varðandi framvindu mála ef staðið yrði við samninginn. Ég ætla aðeins að fá að vitna í það hér. Ég hirði ekki um að rekja dæmin þrjú sem hér eru en bendi á þskj. 245. Það er nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. neðri deildar. Í niðurstöðum segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er vissulega hægt að hugsa sér mörg önnur tilbrigði, misjafnlega háskaleg, við þá atburðarás sem hér er dregin fram. Til þess að hækkun verðlags nái 20% yfir árið þyrfti t.d. víxlhækkun launa um 4,5% annan hvern mánuð fram yfir mitt ár að viðbættu mánaðarlegu gengissigi upp á u.þ.b. 1,5% á mánuði. Að VSÍ mundi gangast inn á slíkt er að mati hagfræðideildar algerlega óhugsandi þar sem engin afdráttarlaus ákvæði eru um það í kjarasamningum VSÍ/ASÍ að svo þurfi að vera. Gildi þess að halda í þjóðarsáttina væri þá að engu orðið og allt til þess vinnandi að láta hana springa. Svo algert fyrirstöðuleysi af hálfu VSÍ samræmist því tæpast þeirri grundvallarforsendu allra hagvísinda að efnahagseiningarnar stjórnist af skynsamlegri ákvarðanatöku. Það er því mat hagfræðideildar að skynsamleg túlkun kjarasamninga ASÍ/VSÍ feli ekki í sér vá óðaverðbólgu.``
    Þetta álit stendur enn þó að gagnrýni kæmi á það á þeim tíma sem það var gefið út. Það er auðvitað spurning fyrir okkur sem ekki reiknum slíkar stærðir hvað er hægt að draga sannleikann fram á margan hátt með því að gefa sér tilteknar forsendur, þannig að ég get ekki séð að álit Seðlabankans sé að þessu leyti neitt verra eða óáreiðanlegra en álit Þjóðhagsstofnunar. Kjarni málsins er auðvitað sá að það ber að standa við gerða samninga og þeir sem slíka samninga gera verða að sjálfsögðu að taka afleiðingum þeirra.
    Ég vil, virðulegi forseti, aðeins að lokum minna á að allt athæfi ríkisstjórnarinnar verður að teljast ámælisvert. Aldrei var reynt að fara samningaleið og fátt eða ekkert getur réttlætt aðferðir ríkisstjórnarinnar,

enda hefur BHMR ekki viljað hlíta þessu og hefur verið lögð inn stefna fyrir bæjarþingi Reykjavíkur vegna eins félagsmanna aðildarfélaga BHMR til kröfu á þeim 4,5% sem afnumin voru með bráðabirgðalögunum. Lagarök eru m.a. þau að BHMR telur að bráðabirgðalögin brjóti í bága við stjórnarskrána í fjórum greinum. Jafnframt hefur BHMR kært til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Kvennalistinn telur að ríkisstjórnin hafi með vinnubrögðum sínum unnið ómældan skaða, grafið undan trausti dómstóla, rýrt álit Íslands á alþjóðavettvangi auk þess óheillaverknaðar sem setning bráðabirgðalaganna var. Sá skaði verður seint bættur sem unninn hefur verið. Þjóðarsátt er engin afsökun fyrir þessari gjörð. Á aðrar leiðir var aldrei látið reyna. Það getur ekki verið réttlátt að hluti verkalýðshreyfingarinnar þurfi að gjalda fyrir samninga sem aðrir gera. Það eru ákvæði um samningsrétt í landinu. Kjarasamningur BHMR og ríkisins er gerður tæpu ári fyrir þjóðarsátt. Hún var ekki gerð við BHMR og er ekki á þess ábyrgð. Ábyrgðin er þeirra sem hana gerðu. Við gerða kjarasamninga á að standa og þá sérstaklega þeir sem aðild eiga að þeim eins og er í þessu tilviki.
    Ríkisstjórnin segir að allt verði til að vinna svo að þjóðarsátt haldi, annars blasi við óðaverðbólga. Engin svör hafa hins vegar fengist við því hvað gerist 15. sept. þegar þjóðarsátt lýkur. Voru bráðabirgðalögin e.t.v. aðeins forsmekkur þess sem koma skal? Er e.t.v. ætlunin að ríkisstjórn geti einhliða tekið sér það vald að ákvarða launakjör fólksins í landinu og gera þar með alla samninga óþarfa og ómerka? Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur þegar sýnt það í verki að hún skirrist ekki við að taka sér þetta vald. Og ég vil minna á það að ríkisstjórn sem með þessum hætti opinberar virðingarleysi sitt fyrir lýðræði og mannréttindum er til alls vís.
    Ég hafði hugsað mér, virðulegur forseti, að bera fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. eins og ég hef áður getið. Þær tengjast upplýsingum sem þingmönnum bárust í gær frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vegna ummæla hæstv. fjmrh. í neðri deild Alþingis um bráðabirgðalögin og þær beinast að því starfi sem hann talaði um að væri í gangi í starfsnefndum sem skipaðar voru vegna kjarasamninganna. Ég held að þar sem hæstv. fjmrh. er ekki hér í bili fresti ég því að bera þær spurningar formlega fram þangað til hann getur komið hingað og mun þá fara fram á að fá að komast á mælendaskrá aftur.