Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég sé að hæstv. forsrh. hefur skrifað samviskusamlega niður þær spurningar sem ég lagði fyrir hann hér í dag og þakka ég honum fyrir það. En ég get að sama skapi ekki þakkað fyrir þau svör sem ég fékk vegna þess að mér sýnist að þar hjakki allt í sama farinu.
    Ég vil benda á það að margvíslegar afleiðingar geta hlotist af setningu þessara bráðabirgðalaga. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan í ræðu sinni að auðveldasta leiðin til þess að glata lýðræðinu sé að glata efnahagslegu sjálfstæði. Ég óttast að einmitt það gæti gerst ef svo fer að háskólamenntað fólk sér þann kost vænstan, ekki síst ef samið verður um evrópskt efnahagssvæði, þá muni opnast möguleikar fyrir háskólamenntaða menn að hverfa til starfa erlendis. Þetta nefndi hæstv. forsrh. einmitt í stefnuræðu sinni hér í haust og hafði af því töluverðar áhyggjur að hafinn væri atgervisflótti af landinu.
    Mér er kunnugt um að við þrjá stóra framhaldsskóla hér á landi hefur núna nokkrar vikur árangurslaust verið auglýst eftir íslenskukennurum. Ég hef heimildir fyrir því að það hafa engin viðbrögð orðið við þeim auglýsingum. Það horfir svo í einum þessara skóla að hugsanlega verða kenndir sex tímar á viku í íslensku á vorönninni sem hefst núna eftir áramótin ef ekki rætist úr. Hef ég grun um að þetta sé ein afleiðing þess sem hefur verið að gerast í málefnum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna á undanförnum árum en fyrir 6 -- 7 árum var frekar offramboð á íslenskukennurum en hitt.
    Ég undraðist margt af því sem fram kom í máli hæstv. umhvrh. í umræðunni fyrr í dag. Mér sýndist hann helst vilja taka þá stefnu að viðhalda því neðanjarðarkerfi sem hefur því miður viðgengist innan ríkisgeirans undanfarin ár með alls kyns aukagreiðslum og samningum um ferðir, dagpeninga, ómælda yfirvinnu og eitthvað því um líkt. Ég tel öruggt að eina leiðin til að koma á réttlæti og jöfnuði sé einmitt að samið sé um grunnlaun og reynt að ná bættum kjörum með því að ganga út frá grunnlaununum. Hann sagði líka að það væri orðið bærilegt fyrir launafólk að lifa í landinu. Það finnst mér sýna tengslaleysi hans við raunveruleika fólks sem þarf að framfleyta sér á launum undir skattleysismörkum.
    Vegna orða hæstv. forsrh. um athugasemd 18. þm. Reykv. um lífeyrissjóðinn vil ég taka fram að hún talaði um áhyggjur sínar af framtíðinni með Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna ef áfram héldi sú óheillaþróun sem birtist í fjárlagafrv. sem nú er til umfjöllunar. Hún lýsti áhyggjum sínum af því hvernig sjóðnum tækist að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni ef svo héldi áfram sem nú er lagt til.
    Ég spurði hæstv. forsrh. fyrr í dag um röskun á launakerfinu. Það er ljóst að það þarf að raska launakerfinu til þess að laga laun þeirra sem lægst launin fá og þar minntist ég sérstaklega á laun kvenna. Ég var svo sem ekki að spyrja hvaða hugmyndir væru uppi núna. Það er ljóst að allt situr fast núna þangað

til þjóðarsátt lýkur. Ég var eiginlega frekar að inna hæstv. forsrh. eftir hugmyndum hans um hvernig leysa mætti það vandamál í framtíðinni.
    Hann minntist á að laun kvenna hefðu lagast í ráðuneytum með aukinni menntun og frama, eins og hann orðaði það. Það eru ef til vill ekki endilega launin þar sem mestum áhyggjum valda heldur lægstu launin, þ.e. launin sem enn eru undir skattleysismörkum.
    Ég ætlaði síðan, virðulegi forseti, að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. og vona að hann heyri til mín. Ég vitnaði í ræðu minni fyrr í dag til viðtala sem fóru fram við hann, annars vegar í DV 24. júlí þar sem hann sagði afdráttarlaust að ekki kæmi til greina að setja bráðabirgðalög á niðurstöðu dóms og í sama viðtali talaði hann um að sú aðgerð að setja bráðabirgðalög væri lögfræðilega hæpin og miklar líkur til þess að dómstólar muni hnekkja henni við fyrsta tækifæri ef sú ákvörðun yrði tekin að setja bráðabirgðalög. Tíu dögum seinna segir sami hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu: ,,Bráðabirgðalögin eru í þeirri mynd sem við viljum hafa þau. Almennur samningsréttur og lýðréttindi eru ekki skert með þessum lögum.`` Þarna greinir hæstv. fjmrh. og forsrh. augljóslega á um túlkun þessara laga. Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað það var sem breytti skoðun hans á þessum tíu dögum og hvað það var sem sannfærði hann um að setning bráðabirgðalaga væri ekki hæpin lögfræðilega og hvaða vissu hann hefði á þeirri stundu haft fyrir því að dómstólar mundu ekki hnekkja þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
    Í tilefni af bréfi sem hv. þm. barst í gær frá launamálaráði BHMR þar sem BHMR hefur ýmsar athugasemdir við ræðu þá sem hæstv. fjmrh. flutti í Nd. Alþingis við umræður þar um bráðabirgðalögin, þá finnst mér undarlegt hversu mikill misskilningur virðist vera þar á ferðinni á milli aðila varðandi stöðu málsins nú í dag. Mig langar þess vegna, með leyfi forseta, að lesa það bréf sem okkur barst hér í gær og biðja hæstv. fjmrh. að svara þeim fullyrðingum sem þar koma fram af hálfu BHMR um stöðu mála. Þar segir fyrst:
    ,,Alþingi fjallar nú um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar á eigin kjarasamning við stéttarfélög innan BHMR. Ýmsar villandi upplýsingar hafa komið fram í þessum umræðum um stöðu mála. Stjórn og aðildarfélög BHMR hafa ekki reynt að leiðrétta allar rangfærslur en með vísan til ræðu fjmrh. þriðjudaginn 11. des. er
nauðsynlegt að taka eftirfarandi fram:
    1. Rangt er að viðræður í starfsnefndum vegna kjarasamninga félaganna frá 1989 gangi vel. Fulltrúar fjmrh. í nefnd um ábyrgðarmat hafa t.d. algerlega kastað til þess verks höndum. Í júnílok skiluðu þeir að undirlagi fjmrh. svokallaðri lokaskýrslu þar sem lýst er yfir að verkið væri svo snúið að ekki væri unnt að vinna það frekar. Samtímis skiluðu fulltrúar fjmrh. í kjarasamanburðarnefnd einnig svonefndri lokaskýrslu þar sem sömu röksemdir voru viðhafðar. Það var gert í því skyni að hafa af félagsmönnum BHMR réttmæta 4,5% hækkun launa 1. júlí sl. skv. ákvæði 5. gr. kjarasamningsins.
    2. Rangt er að nú standi yfir samningaviðræður milli fjmrh. og einstakra samflotsfélaga BHMR. Fjmrh. óskaði með bréfi, dags. 30. ágúst sl., eftir fundum með félögunum. Í bréfi ráðherrans var setning bráðabirgðalaga hörmuð. Af þeirri ástæðu var ljáð máls á fundum með honum. Á þessum fundum hefur fjmrh. hins vegar hvorki viljað ræða bráðabirgðalögin né framkvæmd kjarasamningsins. Hins vegar hefur fjmrh. viljað ræða kjarasamninga eftir gildistíma þjóðarsáttar í því skyni að skuldbinda fjmrh. í næstu ríkisstjórnum. Aðildarfélögin telja að verkefnið nú sé að framkvæma þann samning sem fjmrh. undirritaði en í framhaldi af því taka við viðræður um næstu samninga.
    3. Fjmrh. hefur lýst því yfir að hann sé að bjóða aðildarfélögum BHMR eitthvað í samningaviðræðum. Þetta er rangt. Hið sanna er að fjmrh. er að reyna að hagnýta sér vilja félaganna til viðræðna í því skyni að setja á svið að hann sé ávallt tilbúinn til að leysa mál með samningum. Þetta er ekki trúverðugt eftir setningu bráðabirgðalaga á kjarasamning félaganna.
    4. Fjmrh. hefur mælt sérstaklega með því að félögin hverfi frá samningi sínum og geri sérsamninga við fjmrh. Í rökstuðningi sínum segir fjmrh. að félag dýralækna hafi einmitt gert sérstakan kjarasamning með góðum árangri. Þetta eru rangfærslur. Dýralæknafélag Íslands gerði kjarasamning með öðrum samflotsfélögum BHMR. Eitt af skilyrðum samflotsfélaganna fyrir því að þau gengu frá samningum sínum í maí 1989 var að gerður yrði samningur við dýralækna um vaktafyrirkomulag þeirra. Sá árangur náðist vegna samstöðu félaganna en ekki með sérstökum samningi dýralækna.
    5. Fjmrh. gerir mikið úr starfi í samstarfsnefndum samflotsfélaganna. Þessar nefndir starfa skv. ákvæðum 11. kafla í eldri kjarasamningum og er ætlað að koma á sáttum í ágreiningsmálum sem kunna að rísa á milli aðila. Um þetta atriði er það að segja að sjaldan í sögu þessara ungu samtaka hafa mál verið meðhöndluð í þessari nefnd á jafn hægvirkan og jafnvel neikvæðan hátt og nú.
    6. Fjmrh. segir að forusta BHMR hafi kvartað við hann yfir fyrirrennurum hans í starfi. Staðreyndin er sú að þegar Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti hafði hann með sérstökum hætti biðlað til háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og heitið þeim breyttum starfsháttum í samningum og öllum samskiptum. Þegar fulltrúar BHMR hittu hann fyrst að máli sem fjmrh. lögðu þeir til að nýr maður tæki við formennsku í samninganefnd ríkisins til að marka þessi tímamót.
    7. Í ljósi reynslunnar er nú hægt að fullyrða að fullkominn trúnaðarbrestur ríki milli fjmrh. og stéttarfélaga innan BHMR vegna setningar bráðabirgðalaga og erfiðra samskipta.``
    Ég vil fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann lýsi því hér á eftir hvernig þessi mál horfa út frá hans bæjardyrum því mér sýnist bera þarna margt á milli í samskiptum hans við þetta tiltekna stéttarfélag.

    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu hér við 1. umr. en til þess að draga saman það sem ég hef sagt hér í dag vil ég lesa ályktun frá Kvennalistanum, sem birt var 3. ágúst 1990, í tilefni setningar þessara bráðabirgðalaga. Þar segir, með leyfi forseta:
     ,,Kvennalistakonur átelja harðlega að enn einu sinni skuli íslensk ríkisstjórn setja bráðabirgðalög á launafólk. Þannig er jafnt og þétt grafið undan lýðræði og mannréttindum í þjóðfélaginu. Núv. ríkisstjórn hóf feril sinn með því að framlengja bann á kjarasamninga sem var meginástæða þess að Kvennalistinn hafnaði aðild að henni. Ríkisstjórnin setur nú lög á eigin samninga og beitir valdi sínu þannig til að hnekkja dómi Félagsdóms. Nú eru það samtök háskólamanna sem beitt eru lögþvingunum til að sveigja þau undir vilja stjórnvalda. Hverjir verða næstir?
    Í rauninni felst í nýsettum bráðabirgðalögum afnám réttar alls launafólks til að semja um laun sín því ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er tilbúin til lögþvingunar á hvað sem er, jafnvel þvert á uppkveðna dóma. Þáttur forustumanna ASÍ og BSRB vekur furðu þar sem þeir hafa tekið undir þann áróður að laun almenns launafólks séu meginvaldur verðbólgu og berjast nú jafnvel harðar gegn öðru launafólki en atvinnurekendum.
    Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir almenning í landinu. Á hvaða leið er samfélag þar sem stjórnvöld, atvinnurekendur og stærstu samtök launafólks sameinast um að svipta hluta launafólks samningsrétti? Hvernig er lýðræðinu háttað þar sem stjórnvöld óvirða mannréttindi og dómstóla? Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru forkastanleg og bera vott um siðblindu. Ríkisstjórn sem setur lög á eigin gerðir er ekki hæf til að stjórna landinu og á að segja af sér.``
    Ég hlýt að ljúka máli mínu með því að skora á hv. deildarmenn í þessari deild að fella þessi ólög.