Tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Fulltrúi Kvennalistans í þessari umræðu flutti býsna skondna ræðu. Síðari hluti ræðunnar var svona almenn mórölsk hugvekja um skort á löggiltum talsmönnum fjölskyldna og heimila, sennilega flutt vegna þess að hv. þm. hefur fundist svo sem þetta frv. bæri með sér umhyggju fyrir heimilum og fjölskyldum í landinu. Fyrri hluti ræðunnar gekk hins vegar út á það að styðja efnisatriði þessa frv. Og hvernig koma nú þessar tvær almennu yfirlýsingar sem lesa mátti út úr ræðu hv. þm. heim og saman?
    Þetta frv. felur í sér að það á að hækka skatt á laun sem greidd eru í landinu, í fyrstu um 500 millj. kr. en síðan á að hækka á næstu tveimur árum þar á eftir skatt á öll laun sem greidd eru í atvinnugreinum sem laus eru við launaskattheimtu í dag. Þar er um að ræða sjávarútveg og iðnað. Án þess að ég hafi hér við hendina tölur um hlutdeild kvenna í fiskvinnslu og almennum iðnaðarstörfum þá hygg ég að konur séu býsna stór hluti starfsmanna í þessum tveimur atvinnugreinum. Þessar atvinnugreinar eiga að taka á sig nýja skattheimtu í formi launaskatts. Auðvitað er hægt að auka launakostnað á marga vegu. Það er hægt að gera þetta með því að hækka laun og greiða þau út til starfsfólksins.
Það er líka hægt að gera með þeim hætti sem hér er verið að leggja til, að leggja skatta ofan á launin og færa peningana ekki frá atvinnurekstrinum yfir til launafólksins heldur frá atvinnurekstrinum yfir til ríkissjóðs. Og það er einmitt sú leið sem hér er farin.
    Ef við ætlum að stefna að varanlegum stöðugleika í verðlagsmálum á næstu árum þá má öllum vera ljóst að sýna þarf verulegt aðhald á öllum sviðum í opinberum rekstri og í rekstri atvinnufyrirtækja og í rekstri heimila. Ég hygg að launþegahreyfingin hafi sett sér það markmið að ná u.þ.b. 1% kaupmáttaraukningu á næsta ári. Hæstv. ríkisstjórn er nú að rýra þá möguleika með því að leggja þennan launaskatt á og hún mun rýra þann möguleika ef hún ætlar að fara fram með hugmyndir sýnar um að auka skattheimtu á eldsneyti bifreiða. Þó tölur í þessu efni sýnist í fljótu bragði ekki vera stórar þá skulum við hafa það í huga að skattabreytingar sem leiða til 0,3% verðlagsbreytinga taka til baka 1 / 3 af áformaðri kaupmáttaraukningu launafólksins. Þetta sýnir glöggt hvað stærðirnar í þessu skipta miklu máli og hversu tölur sem mönnum almennt finnst vera lágar geta skipt miklu máli þegar verðlagsbreyting upp á ekki stærri tölu en 0,3% tekur til baka 1 / 3 af áformaðri kaupmáttaraukningu. Það sem gerast mun þegar þessar krónur, sem hæstv. ríkisstjórn telur að atvinnufyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði geti bætt við sig í launakostnaði, renna í ríkissjóð en ekki til launþega er það að á næstu tveimur árum er verið að rýra möguleika starfsfólks í sjávarútvegi og iðnaði til þess að bæta kaupmátt sinn um 2%. Og 2% kaupmáttaraukning er býsna stór tala á næstu tveimur árum í þeirri kröppu stöðu sem við erum eftir það mikla kaupmáttarhrap sem hér hefur orðið. Og á hverjum bitnar þetta? Það bitnar að stórum hluta til á konum sem vinna í fiskiðnaði og almennum iðnaði. Það er verið að rýra svigrúm þeirra til þess að bæta kaupmátt sinn sem þessu nemur vegna þess að hæstv. ríkisstjórn telur að það fari betur á því að hún ráðstafi þeim fjármunum sem þarna kunna að vera til ráðstöfunar fremur en heimilin í landinu og það fremur en heimili fiskverkakvennanna og iðnverkakvennanna. Það á hins vegar að lækka launaskattinn í atvinnugreinum verslunar og þjónustu þar sem laun eru almennt hærri en í sjávarútvegi og iðnaði. Ýmsum kann að finnast það nokkuð skrýtin pólitík við þessar aðstæður að auka svigrúm starfsfólks í þessum atvinnugreinum til þess að bæta kaupmátt sinn en rýra svigrúm starfsfólks í iðnaði og sjávarútvegi á sama tíma. Ég er þeirrar skoðunar að það sé álit æði margra að það væri almennt séð meiri þörf á að bæta kaupmátt þess fólks sem starfar í sjávarútvegi, fiskvinnslu og almennum iðnaði. En frv. felur í sér að rýra þennan möguleika og eftir allar þær stóru yfirlýsingar sem Kvennalistinn hefur viðhaft um grundvöll stefnu sinnar, að bæta kjör kvenna og barna, þá sýnist mér að það horfi nokkuð einkennilega við þegar Kvennalistinn lýsir yfir svo áköfum stuðningi við frv. sem rýrir möguleika fiskvinnslukvenna og iðnverkakvenna til þess að bæta kaupmátt sinn.
    Hversu mjög sem menn tala um mikilvægi samræmingar í skattheimtu þá verður þessi veruleiki ekki umflúinn. Menn taka þá hagsmuni starfsfólksins í þessum atvinnugreinum og setja þá til hliðar og meta hagsmuni skattheimtunnar meira og hinna tæknilegu, almennu sjónarmiða við skattheimtu. Þau geta verið góð og gild um margt en það er athygli vert að afstaða hæstv. ríkisstjórnar til þessara atvinnugreina, atvinnufyrirtækjanna og starfsfólksins sem hjá þeim býr, kemur mjög skýrt fram í stefnumörkun þessa frv. Það á að létta undir með verslun og þjónustu, og ég ætla ekki að gagnrýna það, á sama tíma og verið er að íþyngja framleiðslugreinum sjávarútvegs og iðnaðar. Ég efast hins vegar um að það sé skynsamlegt út frá almennum markmiðum um það að auka hér framleiðni og verðmætasköpun að íþyngja með þessum hætti sérstaklega þessum atvinnugreinum í landinu. Og ég efast um að það sé skynsamleg pólitík að þrengja kosti þess starfsfólks sem hjá þessum atvinnufyrirtækjum vinnur umfram kosti starfsfólks sem vinnur í öðrum atvinnugreinum.
    Það kemur mér ekki á óvart að vinstri ríkisstjórn eins og sú sem hér situr skuli kynna pólitík af þessu tagi sem bitnar á þessum atvinnufyrirtækjum og bitnar á þessu starfsfólki því að sú umhyggja sem þeir á stundum hafa lýst í orðum fyrir því launafólki sem hér á í hlut hefur fyrir löngu gufað upp og ummæli þeirra og stefnuyfirlýsingar borið merki skinhelginnar einnar saman. En því meiri furðu vekur að Kvennalistinn skuli taka undir pólitíska stefnumörkun af þessu tagi sem augljóslega bitnar á launafólki sem sá stjórnmálaflokkur hefur í orði kveðnu borið nokkuð fyrir brjósti á undanförnum árum. Ég ætla ekki að gera því skóna að óreyndu að Kvennalistinn hafi bæst í skinhelgisflokk núv. ríkisstjórnarliðs og vona satt best að

segja að þessi stefnumörkun byggist fremur á ónógri íhugun á þeirri raunverulegu stefnumörkun sem í frv. felst.
    Um þetta frv. mætti fara mörgum orðum. Það hefur komið fram hér mörgum sinnum í dag að innan hæstv. ríkisstjórnar er ekki samstaða um þetta frv. og því nokkuð sérstætt að vera að ræða hér við 1. umr. stjfrv. þar sem stjórnarflokkana greinir á í höfuðatriðum um það hvernig að skattlagningunni skuli staðið. Frv. ber sem sagt með sér hvers konar verklag og hvers konar verkstjórn á sér stað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Frv. ber í annan stað með sér að hæstv. ríkisstjórn hefur heykst á öllum áformum sem hún hafði uppi um takmarkaðan halla á ríkissjóði. Hún hefur gefist upp í þeirri baráttu með eindæmum. Þetta eru megineinkenni þess frv. sem hér liggur fyrir og þess vegna gefur það tilefni til almennrar umræðu um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, áhrif þeirrar uppgjafar á þróun peningamála og verðlags og verðbólguhorfur á næstu árum. Ljóst má vera að sú uppgjafarstefna í ríkisfjármálum sem þetta frv. ber vott um hlýtur að leiða til þess að þensla verður meiri á peningamarkaði á næsta ári og vextir, sem hafa vegna ónógrar festu í ríkisfjármálum verið að hækka á þessu ári, munu enn hækka á næsta ári. Þetta frv. er þess vegna staðfesting á þeirri alvarlegu aðvörun sem fram kom í skýrslu Seðlabankans í byrjun þessa mánaðar að ástandið á peningamarkaðnum að undanförnu hefði verið svikalogn og alvarlegri tíðindi væru þar í vændum. Hér liggur á borðinu í dag fyrsta óræka sönnunarmerkið um afleiðingar þess skipbrots sem stjórnarstefnan er við þessar aðstæður.
    Það er líka fróðlegt að líta á þetta frv. í ljósi nýlegra stefnuyfirlýsinga frá hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki langt síðan hæstv. menntmrh. taldi að óhjákvæmilegt væri að hækka skatta til viðbótar þeim 15 milljörðum sem þegar eru komnir í skattahækkunum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um 9 milljarða. Menn minnast þess þegar hæstv. forsrh. fyrir fáum vikum lýsti því að fram undan væru miklar skattahækkanir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og fram kom á flokksþingi Framsfl. að meginstefnumið framsóknarmanna í næstu kosningum væri boðorðið um verulegar skattahækkanir. Í reynd ætlaði Framsfl. ekki að fara með annan boðskap til kjósenda en kröfuna um meiri skatta. Og að undanförnu hefur komið æ betur í ljós að það er áform ríkisstjórnarflokkanna þriggja að ganga sameiginlega til kosninga, leita sameiginlega eftir endurnýjuðu umboði og sjálfsagt ætla þeir að freista þess að fá Kvennalistann með til áframhaldandi samstarfs þegar Borgfl. hefur fengið dánarvottorð sitt útgefið í næstu kosningum. Ég minnist þess að það er ekki langt síðan að Kvennalistinn gaf út yfirlýsignu um það að hann ætlaði nú loks í ríkisstjórn. Þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið af hálfu Kvennalistans í dag benda til þess að hann stefni þráðbeint í þetta nýja skattahækkunarsamstarf. Vafalaust munu kosningarnar í vor fyrst og fremst snúast um þá sameiginlegu ákvörðun vinstri flokkanna að hækka hér skatta mjög verulega á næsta ári. En þeir heykjast á að koma

þeim áformum fram nú í aðdraganda kosninganna. Þeir þora ekki að sýna á spilin fyrir kosningar og því stendur hæstv. fjmrh. í þessum skelfilegu sporum, sem hann stendur hér í í dag, að geta ekki einu sinni flutt þau frv. sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir og eftir að hafa þurft að gefa meiri hluta þeirra eftir stendur hann frammi fyrir því að forustuflokkurinn í ríkisstjórn segist ekki vera sammála frv. eins og það liggur hér fyrir. Þetta er nú það ástand sem við blasir í þessu efni.
    Það er ærin ástæða til að skoða ítarlega ýmis atriði þessa frv. þegar það kemur til formlegrar meðferðar í nefnd. Þetta frv. kallar á mjög vandaða málsmeðferð í hv. fjh.- og viðskn. því að það tengist ekki aðeins tæknilegum breytingum á sköttum, það tengist afkomu atvinnugreina, það tengist mismunandi möguleikum launafólks til þess að bæta kaupmátt sinn á næstu árum og það tengist ýmiss konar annarri löggjöf í þjóðfélaginu og breytingar í sumum efnum að því er það varðar þurfa að liggja fyrir áður en þetta frv. verður samþykkt frá Alþingi.
    Í tveimur atriðum a.m.k. er verið að gera ráð fyrir gjaldtöku af aðilum sem ekki njóta þjónustu eða réttinda í samræmi við þá gjaldheimtu. Af augljósum ástæðum þarf að taka þessi atriði til skoðunar. Hér er gert ráð fyrir því að útvegsmenn til að mynda greiði sérstakt gjald til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir njóta ekki þjónustu Vinnueftirlitsins heldur er það Siglingamálastofnun sem annast sambærilegt eftirlit og sambærilega þjónustu í fiskiskipunum. Með þessu er verið að tvískatta útgerðina fyrir sambærilega þjónustu. Þetta atriði þarf að taka til rækilegrar skoðunar og sömuleiðis þau atriði sem þegar hefur verið bent á í þessari umræðu að því er varðar skattheimtu af aðilum til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ekki njóta þar réttinda. En það er rétt að vekja á því athygli enn einu sinni að um Atvinnuleysistryggingasjóð gilda nú lagareglur sem að mínum dómi stríða gegn stjórnarskrá Íslands og alveg augljóslega stríða gegn þeim mannréttindayfirlýsingum sem við erum aðilar að með því að réttur til atvinnuleysisbóta er bundinn við aðild að stéttarfélögum. Þessi atriði og fjölmörg fleiri þarf að taka hér til skoðunar við meðferð frv. í hv. nefnd og þá löggjöf sem þessum þáttum tengjast. Hér þarf einnig að horfa á lífeyris- og slysatryggingar Tryggingastofnunar ríkisins.
    Það er athygli vert að sú skattahækkun sem koma á til framkvæmda í fyrsta þrepi þessara breytinga felur í sér að til að mynda bændur, sem að undanförnu hafa lagt sig verulega fram um að halda hér niðri verðlagi, m.a. með því að gefa eftir í sjálfvirkum útreikningi á launalið bóndans í vísitölugrundvelli búvörunnar, þurfa nú að sæta því að um leið og hæstv. ríkisstjórn hefur beitt áhrifum sínum í þá veru þá kemur hún og ætlar að leggja á þá 74 millj. kr. í nýjum launaskatti. Allt stangast hér hvað á annars horn í málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar frá einni vikunni til annarrar eða frá einum deginum til annars. Frv. ber þess glögg merki að engin samfella eða heildarstefna kemur fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara

fleiri orðum um þetta frv. á þessu stigi máls. Það á eftir að fá mjög rækilega umfjöllun í hv. nefnd. Hæstv. ríkisstjórn á eftir að koma sér saman um hvað hún ætlar að leggja til í þessu efni og af þeim ástæðum er ekki tilefni til að eyða löngum tíma hér í lokaönnum Alþingis fyrir jól í umræður um þetta frv.