Lánsfjárlög 1991
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er margt óvenjulegt við afgreiðslu frv. til lánsfjárlaga að þessu sinni. Það rignir svo miklu af pappírum yfir borð þingmanna að maður áttar sig ekki á hvar þeir liggja.
    Það sem í fyrsta lagi er eftirtektarvert við afgreiðslu þessa frv. til lánsfjárlaga er það að formaður og frsm. fjh. - og viðskn., hv. þm. Guðmundur Ágústsson, skrifar undir nál. með fyrirvara. Ég minnist þess ekki að slíkt hafi komið fyrir áður þann tíma sem ég hef verið hér þingmaður eða blaðamaður. Má kannski segja að það eigi ekki að koma á óvart þar sem þessi hv. þm. hefur lýst því yfir að hann sé í stjórnarandstöðu, en á hinn bóginn mætti þó ætla að einhver hinna þingmannanna sem þykjast vera miklir stjórnarsinnar hefði kosið að taka af hv. þm. ómakið og mæla fyrir þessu nál. um frv. til lánsfjárlaga. Ég skal ekki gera mikið úr þeim fyrirvörum sem hv. þm. setti fram við umræðu málsins en í stuttu máli lýstu þeir þeirri óánægju sem er meðal stjórnarsinna vegna afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga og endurspeglar þá óöruggu stöðu sem þessir hv. þm. eru nú í.
    Annar atburður gerðist í dag sem ekki síður varpar undarlegu ljósi á þær umræður sem nú fara fram um lánsfjárlög og fjárlög og það er frv. sem tveir hv. þm. lögðu fram í Nd., hv. 1. og 2. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson og Pálmi Jónsson, þar sem þeir leggja fram frv. um að fjmrh. sé óheimilt að selja hlutabréf ríkisins í Þormóði ramma hf. í Siglufirði nema að fengnu samþykki Alþingis. Þetta bendir til að þessir hv. þm. telji að hæstv. fjmrh. hafi eitthvað það í hyggju varðandi sölu þessara hlutabréfa sem ekki samrýmist eðlilegum viðskiptaháttum en sé á hinn bóginn skylt við pólitíska misbeitingu eða misnotkun á valdi og verður eftirtektarvert að sjá hvernig þessu máli reiðir af í Nd. En greinilegt er að hér er um vantrauststillögu að ræða á hæstv. fjmrh. og sá sem skrifar undir vantraustið og er raunar 1. flm. þess er formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, þingmaður í Norðurl. v.
    Þetta er í stuttu máli, herra forseti, um tvö þau atriði sem komu upp í hugann nú þegar rætt er um formlega hlið þessara mála. Þriðja atriðið sem ég held að óhjákvæmilegt sé að minnast á er að í fyrradag kynnti meiri hl. fjh. - og viðskn. fyrir minni hl. tillögur um það að lántökuheimild skv. 1. gr. fjárlaga yrði hækkuð um 2,2 milljarða kr. og var með því gefið til kynna að heildarlánsfjárþörf A - hluta ríkisreiknings yrði á næsta ári rúmir 14 milljarðar kr. og skildum við það svo í stjórnarandstöðu að samkomulag hefði tekist meðal stjórnarflokkanna um afgreiðslu fjárlaga. Nú hefur á hinn bóginn komið í ljós að svo er ekki. Maður heyrir það á göngum hér í þinghúsinu að einstakir stjórnarsinnar eru síður en svo vissir um það að endanlegt samkomulag hafi tekist um lokaniðurstöðutölur fjárlaga og er við því að búast að frv. til lánsfjárlaga, þó afgreitt verði úr Ed. í kvöld til Nd., verði að koma aftur hingað upp í Ed. til þess að samræma

það niðurstöðutölum fjárlaga eftir afgreiðslu frv. í 3. umr. í Sþ. Ég er ekki að segja að þetta sé neitt einstakt í sögunni, þetta hefur komið fyrir áður, en þetta sýnir okkur að það er mikil lausatök á þessari afgreiðslu þegar þannig stendur á. Ekki verður það skilið öðruvísi en svo þegar afgreiðsla
frv. til lánsfjárlaga var látin dragast í Ed. fram á þennan dag en ríkisstjórnin væri að reyna og ætlaði sér að ganga frá málinu þannig að um lokaafgreiðslu yrði í raun og veru að ræða hér í hv. Ed.
    Ef horft er á yfirbragð þessara lánsfjárlaga þá er það öldungis rétt sem hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir sagði hér fyrr í dag. Þessi lánsfjárlög byggja á því að ríkisbúskapurinn er rekinn með þeim hætti að heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs fer mjög vaxandi og er talið að á næsta ári muni hún nema um 35 milljörðum kr. en nettólánsfjárþörf verði um 22 milljarðar kr.
    Ég skal ekki tefja deildina, hæstv. forseti, þó hæstv. fjmrh. fari í símann, það er að mörgu leyti viðkunnanlegra að hafa hann þar heldur en rápandi hér um þingsalinn reynandi að finna sér tilefni til að tala við hvern einn sem hann sér og væri kannski viðkunnanlegra að loka dyrunum þannig að hæstv. fjmrh. hafi frið og næði.
    Samkvæmt þessu mun nettólánsfjárþörf á næsta ári verða sem næst 22 milljarðar sem er um 6% af landsframleiðslu og hækkar um 10% eða raunar meira, hækkar um 15% frá þessu ári, úr 5,2% í 6% sem er auðvitað mjög veruleg hækkun.
    Það sem er alvarlegast í þessu máli er að þessi mikla lánsfjárþörf ríkisins veldur því að fyrirsjáanlegt má telja að raunvextir fari hér hækkandi. Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar er búist við því að raunvextir verði 8,5% á næsta ári, voru 7,9% fyrir ári, verða auðvitað enn þá hærri ef höfð er hliðsjón af því að atvinnuleysi varð landlægt eftir að þessi ríkisstjórn settist að völdum og mikill hægagangur er í fjárfestingu atvinnufyrirtækja sem lýtur að aukinni hagræðingu, vöruþróun og nýsköpun í atvinnulífi. Því er auðvitað augljóst að þessi peningamálastefna dýpkar enn þá atvinnukreppu sem við búum nú við.
    Í löndum eins og Bandaríkjunum þar sem menn þykjast sjá fram á lægð í atvinnulífinu er kappkostað að gera ráðstafanir sem draga úr hækkun vaxta. Þar er nú svo komið að vextir t.d. af húsnæðislánum til langs tíma eru um 2% raunvextir en þegar tekið er tillit til verðbólgu og skattaafsláttar þar í landi, vextir eru þar frádráttarbærir víðast hvar, kemur í ljós að raunvextir eru öfugir eða neikvæðir í Bandaríkjunum. Svipaða sögu er að segja frá Bretlandi og ég hygg Danmörku. Hér á landi hafa vextir af húsnæðislánum hins vegar hækkað mjög mikið á þessu ári. Það er búið að leggja niður þá lágu vexti sem voru á lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins, 3,5% raunvextir, það er búið að hækka þá með húsbréfum í 7,25% raunvexti eða eitthvað þaðan af meira. Þegar tekið er tillit til lánskjaranna í heild, þeirra affalla sem húsbréfin hafa í för með sér, ef við horfum á þá kosti sem húsbyggjendur standa nú frammi fyrir --- og þá skulum við hafa í huga að vaxtaafslátturinn nýtist ekki þeim

sem eru með hærri tekjurnar --- þá kemur í ljós að sá hluti þjóðarinnar, sem verður að sætta sig við 4,5% vexti í kaupleiguíbúðum, þarf að þéna um 400 þús. kr. meira á ári en hinn sem býr við 1% vextina og ef við förum upp í húsbréfin þá erum við að tala um 700 þús. kr. tekjumun til þess að standa jafnfætis, 60 þús. kr. á mánuði. Þá er gengið út frá 6 millj. kr. láni, annars vegar með 1% vöxtum til 50 ára, við erum að tala um 4,5% vexti til 50 ára og í hinum síðasta samanburði erum við að tala um 7,25% vexti.
    Nú var það svo þegar gengið var til kjarasamninga hinn 1. febr. sl. að ríkisstjórnin lýsti því yfir í fyrsta lagi að hún mundi beita sér fyrir ráðstöfunum sem leiddu til þess að raunvextir lækkuðu. Við þetta hefur ekki verið staðið. Það er auðvitað ámælisvert að bæði ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins skyldu fyrst í stað hafa verið að reyna að gefa það til kynna að lækkun á nafnvöxtum hefði samsvarað raunlækkun vaxta. Sannleikurinn er auðvitað sá að þegar kauphækkanir hafa legið jafnmikið niðri eins og þær hafa gert á þessu ári, þá hefur auðvitað greiðslubyrði lánanna verið mjög þung vegna þess að raunvextirnir hafa ekki farið niður. Það er auðvelt að sýna fram á þetta og auðvitað ábyrgðarlaust af öllum sem nálægt þessum málum hafa komið að reyna að varpa röngu ljósi á vaxtaþróun í landinu. Nú dugir það ekki lengur. Nú liggur það fyrir bæði frá Þjóðhagsstofnun og frá Seðlabankanum og m.a.s. stimplað af bankastjóra Seðlabankans, við gættum þess í fjh.- og viðskn. að taka ekki á móti mönnum frá Seðlabankanum nema bankastjórar væru við til þess að hæstv. forsrh. þyrfti ekki að hringja á eftir og biðja Seðlabankann að biðjast afsökunar á sínum mönnum, þannig að þetta er allt saman klárt og kvitt ( Gripið fram í: Og stimplað.) og stimplað. Og þar hefur komið í ljós að raunvextir eru nú hærri en áður var. Það er talað um að raunvaxtastigið sé í kringum 8,3%. Og bæði fulltrúar Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka voru sammála um að hin mikla lánsfjárþörf ríkissjóðs á næsta ári ásamt með hinum gífurlega hallarekstri sem er á ríkissjóði ylli því að raunvextir hækkuðu. Forsendan fyrir því að þessi lánsfjáráætlun gengur fram er sú að atvinnulífið verði áfram í sömu lægðinni og það er núna, að þau lán sem atvinnureksturinn tekur miðist fyrst og fremst við skuldbreytingu eða fjárhagslega endurskipulagningu eins og verið hefur á þessu ári en ekki verði um eiginlega fjárfestingu í framleiðslusköpun að ræða. Þetta er í stuttu máli sagt ytri rammi þessarar lánsfjáráætlunar.
    Ef horft er til þjóðhagsáætlunar kemur líka í ljós að við munum verða áfram í sömu lægðinni og verið hefur og getum engan veginn haldið í við þær þjóðir sem við berum okkur saman við og okkur standa næst.
    Ef vikið er að einstökum greinum þessa frv. þá vil ég taka það fram varðandi þá opinberu sjóði sem fjallað er um í I. kafla frv. að lántökubeiðni þeirra eða greinargerð þeirra fyrir starfseminni á næsta ári ber keim af þessu sama, að lítið verður um nýfjárfestingu að ræða á næsta ári. Á hinn bóginn liggur fyrir að

Byggðasjóður stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum og hefur það mál sérstaklega verið tekið upp við ríkisstjórnina og hlýtur að koma til afgreiðslu við 3. umr. fjárlaga.
    Í II. kafla frv. er eins og áður að finna ýmis skerðingarákvæði. Í 13. gr. er fjallað um Stofnlánadeild og Lífeyrissjóð bænda. Fram hefur komið að Lífeyrissjóður bænda --- hæstv. forseti, er ekki hægt að biðja ráðherrana að loka að sér þarna inni en standa ekki í dyrunum svo maður heyrir ekki í sjálfum sér. Ég er hás í dag og viðkunnanlegra að þeir loki að sér, svo maður fái frið fyrir þeim. --- Lífeyrissjóður bænda, þannig er ástandið þar að einungis er hægt að standa við 60% af skuldbindingum sjóðsins. Ef horft er á Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna kemur í ljós að ríkissjóður stendur ekki við þær skuldbindingar sem gerðar voru við aðila vinnumarkaðarins í febrúarsamningunum 1986, þar sem talað var um að einstakir lífeyrissjóðir greiddu 55% af ráðstöfunarfé sínu og ef ég man rétt þá vantar um 600 millj. kr. til þess að hann standi við þær skuldbindingar. Þetta er þriðja árið í röð. Þessi ríkisstjórn er búin að afgreiða núna þrenn fjárlög og þetta er þriðja árið í röð sem hún hefur stolið þessum peningum. Þetta þýðir auðvitað það að þessi lánsfjárþörf fellur með meiri þunga á aðra lífeyrissjóði.
    Ég þarf ekki að minna á það að þegar ríkisstjórnin settist að völdum var búið að semja frv. um samræmingu á lífeyrisréttindum launamanna. Það frv. hefur sofnað svefninum langa í skrifborðsskúffum þessarar ríkisstjórnar.
    Í 15. gr. er talað um Bjargráðasjóð. Sá sjóður er gjaldþrota í stuttu máli sagt og liggur nú fyrir að verulegt tjón hefur orðið vegna sjúkdóma og ótíðar, aðallega í Þykkvabæ. Það tjón nemur um 60 millj. kr. ef ég man rétt og engir peningar fyrir hendi til þess að snara því fjármagni út og ekki fengust upplýsingar um það hjá fulltrúa ríkisstjórnarinnar sem mættur var á fundi fjh.- og viðskn. hvernig við yrði brugðist.
    Í sambandi við Hafnabótasjóð, ja, ég ætla nú að taka það mál nánar þegar ríkisstjórnarfundi er lokið, spyrja hæstv. fjmrh. nokkurra spurninga, það þarf ekki að ná í hann strax.
    Ef horft er til Ferðamálasjóðs og Ferðamálaráðs í 19. gr. kemur í ljós að þar er auðvitað brýn þörf en lítill skilningur hjá ráðamönnum.
    Í sambandi við Kvikmyndasjóð vil ég aðeins taka það fram að þegar við stóðum að lagasetningunni um Kvikmyndasjóð á árinu 1984 vorum við ýmsir áhugamenn um það málefni sem lögðum ríka áherslu á að við skyldum nú reyna að stilla okkur, setja okkur ekki svo rúmar skorður að við treystum okkur ekki til að fylla upp í þær síðar meir, enda hefur svo farið að misjafnlega hefur tekist að standa við þau ákvæði sem felast í lögunum um Kvikmyndasjóð. Nú liggur fyrir að samningur getur tekist um gerð kvikmyndar í norrænni samvinnu og er ekki um verulegar fjárhæðir að ræða til þess að við getum þar notið sameiginlegs framlags til gerðar kvikmyndar, um 15 -- 20 millj. eða

svo, sem mundi valda því að hér væri hægt að ráðast í gerð tveggja kvikmynda á næsta ári sem yrði auðvitað mjög ákjósanlegt og eftirsóknarvert vil ég segja.
    Í 23. gr. er þessi venjulega skerðing á aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum. Þau skulu ekki renna í fjárfestingarsjóð Ríkisútvarpsins. Mér finnst þessi grein eiginlega mjög dæmigerð fyrir vinstri flokkana, hæstv. forseti. Þegar við stóðum að nýju útvarpslögunum vorum við sjálfstæðismenn mjög efins um að rétt væri að setja þetta ákvæði inn, að aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum skyldu renna í þennan sérstaka fjárfestingarsjóð Ríkisútvarpsins. En það var ekki við það komandi að haga málum öðruvísi. Ég man það áreiðanlega rétt að alþýðuflokksmenn voru mjög áfjáðir í þetta fyrirkomulag, hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson og fleiri. Nú sitjum við uppi með vinstri stjórn og það er hennar fyrsta verk á hverju einasta ári að skerða þessa tekjupósta Ríkisútvarpsins. Þó stendur svo á nú að ekki er vansalaust, annars vegar er gamli fjarskiptabúnaðurinn uppi á Vatnsendahæð að þrotum kominn fyrir ryði og málmtæringu, þannig að gamla Ríkisútvarpið, sem sumir kalla ,,Gömlu gufuna``, getur hvenær sem er stöðvast. Þar er um verulegar framkvæmdir að ræða sem óhjákvæmilegt er að ráðast í af öryggisástæðum og líka til þess að tryggja sjófarendum það að þeir geti fylgst með veðurfregnum og Ríkisútvarpi og öðru slíku.
    Í annan stað hefur verið sýnt fram á það að af því er rekstrarlegt hagræði að flytja Ríkissjónvarpið í Útvarpshúsið sem hv. 8. þm. Reykv. hefur að vísu bent á að væri betur notað til annarra þarfa.
    Ég hef aldrei verið talsmaður þess að hafa 22. og 23. gr. útvarpslaganna með þeim hætti að aðflutningsgjöldin skyldu renna í framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að tryggja Ríkisútvarpinu fjármagn til þess að ráðast í þær óhjákvæmilegu framkvæmdir sem nú blasa við.
    Um 28. og 29. gr. vil ég einungis segja að ég álít þær hugmyndir margar hverjar sem uppi eru um Framkvæmdasjóð aldraðra meira en lítið hæpnar, vil leggja áherslu á að ekki verði skert framlag, hvorki til Framkvæmdasjóðs aldraðra né fatlaðra. Loks vil ég aðeins víkja að því, þó svo hæstv. aðalforseti sé ekki í stólnum, að ég tel rétt að kirkjan haldi sínu. Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til annars en að skila sóknargjöldunum en ég held að ríkissjóður ætti líka að láta kirkjugarðana fá það sem þeim ber.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þetta mikið lengra. Það er auðvitað gaman að ræða um lánsfjárlögin yfir nokkrum stjórnarandstæðingum en það væri mér kærkomið ef hæstv. fjmrh. mætti vera að að hlusta í svona eina mínútu. Það mætti e.t.v. opna dyrnar og spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann megi vera að að koma aðeins, þá væri hann kannski hér við í eina mínútu.
    Já, hæstv. fjmrh. Ég veit ekki hvaða Alþb. þeir eru í þeir ágætu bræður sem skrifuðu leikrit um það að

gott gæti verið að fresta jólunum, en ég býst við að hæstv. fjmrh. velti því nú mjög fyrir sér hvort ekki væri rétt að koma því í verk. Spurning mín lýtur að hafnamálum. Hæstv. samgrh. kom á fund fjh. - og viðskn. Þar vakti ég athygli á því að skv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að 240 millj. kr. renni til að fjármagna hafnarmannvirki í Sandgerði. Gert er ráð fyrir 80 millj. kr. vegna hafnarmannvirkja í Höfn í Hornafirði. Ég þarf auðvitað ekki að taka fram hvaða neyðarástand er í Höfn í Hornafirði eftir þær miklu náttúruhamfarir sem þar hafa verið, land rís úr sæ og spurning um það hvernig eigi að halda rennunni þar opinni. Þar hafa menn áhyggjur yfir því ástandi og síður en svo að ég sjái eftir því að þar sé brugðist hraustlega við. Skv. 1. gr., með brtt. og nánari skýringum, eiga 320 millj. kr. að renna til þessara tveggja hafna á næsta ári. Skv. fjárlagafrv. eru 315 millj. kr. til allra annarra hafna í landinu.
    Nú er það svo í sumum höfnum, tek ég sem dæmi Húsavíkurhöfn, að flutningatækni hefur breyst, bæði á landi og eins hafa þau flutningaskip sem þangað sigla og ná í afurðir Kísiliðjunnar stækkað, þannig að óhjákvæmilegt er að ráðast í mikla dýpkun í Húsavíkurhöfn og ganga frá norðurgarði svonefndum, sem er vöruhöfnin, en það kostar mjög verulega fjármuni. Þessa framkvæmd þyrfti að gera í einum áfanga. Ég vil benda á að frá Húsavík til Akureyrar eru 90 km. Að vetrarlagi er auðvitað alveg óvíst hvort hægt sé að komast á milli og alls ekki á það að treysta með þunga og mikla vagna. Ég þykist vita að vegna uppruna síns á Ísafirði þekki hæstv. ráðherra til á norðurslóðum og geri sér grein fyrir því að landflutningar eru auðvitað miklu torveldari norður þar en hér á Reykjanesi þannig að ekki er hægt að hugsa sér það að vöruhöfn á Akureyri dugi fyrir Húsavík eða Kísiliðjuna.
    Nú spurði ég hæstv. samgrh. að því hvort ekki væri skynsamlegt að fara þessa sömu leið víðar en í Sandgerði --- ég tel Höfn í Hornafirði alveg sérstakt mál --- ef þeir Húsvíkingar telja skynsamlegt að ráðast í þennan áfanga á næsta ári, dýpkunina og norðurgarðinn. Þá yrði tekin inn heimild fyrir því í lánsfjárlögum og þess vegna eftir áramót með sérstökum lögum ef sú staðreynd kynni að koma upp. Hæstv. samgrh. tók þessu elskulega í nefndinni, talaði að vísu um þann fjármagnskostnað sem slíku fylgir og ræddi um að slíkt ætti kannski að einhverju leyti að vera á valdi kjördæmisþingmanna. Hvað sem um það má segja er hitt aðalatriðið að víðar en í Sandgerði eru miklir erfiðleikar vegna þess hversu framkvæmdafé til hafnamála er skorið við nögl. Ég vil taka það fram að samkvæmt nýjum hugmyndum sem uppi eru um aukið fé til hafna og ég hef séð er ekki um þvílíkt fé að ræða að það breyti efnislega neinu af því sem ég hef sagt. En ég vil spyrja um skoðun hæstv. fjmrh. á þessu atriði.
    Ég sé svo ekki ástæðu, hæstv. forseti, til þess að gera þetta frekar að umræðuefni. Forsendur fyrir lánsfjárlögum breytast frá einum klukkutíma til annars. Grundvallaratriðin eru að þetta frv. er svo losaralegt

að hvergi er hönd á festandi. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu mikill hallinn á A - hluta verður á næsta ári. Það liggur fyrir, og er samhljóða álit allra sem að þessum málum koma, að þessi afgreiðsla á ríkisfjármálunum þýðir hækkun á raunvöxtum á næsta ári, sem er auðvitað brot á því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins. Enn fremur liggur það fyrir að ákveðið er að hækka ýmis þjónustugjöld og skatta hins opinbera sem einnig er brot á því samkomulagi sem gert var við aðila vinnumarkaðarins.
    Við í Sjálfstfl. sjáum ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að hafa á móti því að þetta frv. gangi til Nd. Við vitum að nauðsynlegt verður að senda það hingað upp aftur. Ríkisstjórnin hefur þá skyldu á höndum að afgreiða fjárlög. Þótt hún sé ekki öfundsverð af framkvæmdinni á þeirri afgreiðslu núna þá verður það að hafa sinn gang. En við munum ekki treysta okkur til þess að bera ábyrgð á þeirri afgreiðslu.