Ferðakostnaður sjúklinga
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr. - og trmrh. greinargóð svör hans og fagna því ef af verður að þessar reglur taki gildi um áramót. Hvað varðar fjáveitingar og það sem beint var til mín í því efni, þá gera menn auðvitað tillögur um þá fjármuni sem til þarf í samræmi við þær reglur sem eru í gildi eða eiga að taka gildi og verða þá að liggja frammi upplýsingar ráðuneytis þar um.
    En eins og ég sagði áðan hefur þessi þriggja ferða regla valdið verulegri mismunun og skapað óánægju og búið er að leggja mikla vinnu í þá reglugerð sem nú liggur inni í ráðuneytinu og bíður þess að hljóta þar staðfestingu ráðherra. Þegar tryggingaráð tók þessa afstöðu var það vissulega ljóst að um einhvern kostnaðarauka yrði að ræða. Ef það hefur ekki legið fyrir í ráðuneyti við gerð frv. til fjárlaga í haust, þá hefur tíminn vissulega ekki verið notaður rétt í ráðuneytinu því að tryggingaráð sendi þessa reglugerð í júní sl.