Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ef þessi brtt. verður samþykkt eiga bændur og aðrir sem búa í sveitahreppum ekki kost á að fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins til viðhalds og endurbóta á heilsuspillandi húsnæði. Slíkar heimildir er ekki að finna í lagaákvæðum um Byggingarsjóð verkamanna. Með því að segja já við þessari till. er þess vegna verið að þrengja hag þess fólks í sveitum landsins sem býr í heilsuspillandi húsnæði og svipta þetta fólk möguleikum til þess að laga til hjá sér öðruvísi en í gegnum húsbréfakerfið sem þýðir um 12,33% afföll sem lenda að fullu á viðkomandi auk þess sem það þýðir um 7 -- 7,5% raunvexti af lánum. Hér er auðvitað um grófa mismunun að ræða, einkum þegar höfð er hliðsjón af því að það fólk sem býr í heilsuspillandi húsnæði hefur að öllu jöfnu lítil efni.
    Ég get að sjálfsögðu ekki tekið þátt í slíku og segi nei.