Iðnlánasjóður
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir
frv. til laga um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð, eins og það kemur frá hv. Nd. Þetta frv. er flutt sem fylgifrv. með frv. til laga um Útflutningsráð Íslands sem er hér síðar á dagskrá. Í því frv. er gert ráð fyrir að framlag iðnaðarins til Útflutningsráðs verði ákveðið sem hundraðhluti af aðstöðugjaldsstofni iðnfyrirtækja en ekki eins og nú er sem 2 / 7 hlutar af álagningu iðnlánasjóðsgjalds. Þess vegna er í þessu frv., sem ég mæli nú fyrir, gert ráð fyrir að brott falli úr lögunum um Iðnlánasjóð það ákvæði þeirra að 2 / 7 hlutar af álagningu renni til Útflutningsráðsins og því lækki álagningarstuðull gjaldsins í samræmi við þetta um 2 / 7 af 1 / 4 úr prósenti, þ.e. í 0,18%.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn. og verði þar skoðað með hliðsjón af því sem hv. deild kann að samþykkja varðandi frv. um Útflutningsráð.