Heilbrigðisþjónusta
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér nál. frá heilbr. - og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.
    Nefndin fjallaði um frv. og fékk á sinn fund Finn Ingólfsson, aðstoðarmann heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúa, Davíð Á. Gunnarsson, forstjóra ríkisspítala, og Árna Björnsson yfirlækni.
    Í meðförum efri deildar var gerð breyting á skipan samstarfsráðs sjúkrahúsanna, sbr. nál. á þskj. 306 frá Ed. Nefndin telur nauðsynlegt að breyta enn frekar skipan ráðsins til þess að tryggt sé að þetta frv. nái markmiði sínu ef það verður að lögum. Nefndin leggur til á þskj. 396 að fjölgað verði um tvo fulltrúa í ráðinu þannig að þeir verði sjö í stað fimm. Þrír fulltrúanna verði skipaðir skv. tilnefningu stóru sjúkrahúsanna þriggja eins og frv. gerir ráð fyrir. Fjölgunin felst í því að heilbr.- og trmrh. skipi fjóra menn í ráðið í stað tveggja. Lagt er til að tveir verði skipaðir án tilnefningar, einn tilnefndur af stjórnarnefnd ríkisspítala, og annar af borgarstjórn Reykjavíkur. Einnig er lagt til að allur vafi verði tekinn af um skipunartíma fulltrúa ráðherra í samstarfsráðinu. Aðrar breytingar eru ekki efnislegar.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Undir nál. rita Anna Ólafsdóttir Björnsson, Geir H. Haarde, Geir Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.