Lánsfjárlög 1991
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 sem hér er til umræðu er að mínu mati gagnslaust plagg. Það er raunverulega ekki til neins að vera að leggja fram frv. til lánsfjárlaga sem menn vita að á ekkert að fara eftir fyrir svo utan það að það er ekki byggt á réttum forsendum. Ég tel, hæstv. forseti, að það sé alveg fráleitt að afgreiða þetta hér frá þessu þingi, sérstaklega þar sem það er ekki úr garði gert eins og það á að vera og ég ætla að leyfa mér að vitna hérna í lög um stjórn efnahagsmála og fleira frá 1979, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,IV. kafli. Um fjárfestingar og lánsfjáráætlanir ríkisstjórnarinnar.
    14. gr. Ríkisstjórnin skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar - og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn, og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs, sem fjárlagafrv. tekur til. Markmið áætlananna er að tryggja, að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum.``
    Hæstv. forseti. Þjóðhagsleg markmið um þessar mundir er svokölluð þjóðarsátt og með því að leggja hér ekki fram greiðsluáætlun a.m.k. til eins árs, svo að maður tali nú ekki um að það sé farið að lögum þannig að þetta sé til þriggja ára, og gert ráð fyrir því hvernig fjárstreymi ríkissjóðs á að vera þannig að það samrýmist þjóðhagslegum markmiðum í heildarumsvifum hvað varðar fjárfestingu og lánamál í landinu, með því að þetta er ekki sett upp eins og á að gera það, þá veit raunverulega enginn hvað hann er að samþykkja hér í þessari hv. deild.
    Fjmrh. er búinn að fara langt fram úr þeim útgjöldum sem honum eru heimil á þessu ári og næsta mál hér á undan þessu var frv. til aukaheimilda fyrir fjármuni sem hæstv. fjmrh. er þegar búinn að eyða. Hann er þegar búinn að taka þessi lán og nú er hann að biðja þingið um leyfi, löngu eftir á.
    Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að það sé spurt að því hér í hinu hv. Alþingi hvort ekki sé kominn tími til að innsigla fjmrn. eins og hæstv. fjmrh. innsiglar fyrirtæki sem ekki fara að lögum. Hæstv. fjmrh. hefur staðið sig þokkalega vel í því, svo ekki sé nú meira sagt, að innsigla fyrirtæki og gengið fram á sinn alkunna, hógværa hátt í þeim efnum. En hvað á að gera við fjmrh. sem ekki virðir lánsfjáráætlanir og ekki virðir fjárlög og ekki virðir nokkurn skapaðan hlut í lögum um ríkisbókhald eða lögum um hvernig lánsfjáráætlun á að vera? Hvað á að gera við slíkan fjmrh.? Á að láta hann ganga lausan eða á að reyna að koma böndum á hann?
    Það er hlutverk Alþingis að skammta fjármagn, bæði lánsfé og fjárlög, og hér skeður það ár eftir ár að þetta er samþykkt og síðan er ekkert farið eftir þessu. Fjmrh. er látinn ganga laus og eyða eins og honum sýnist, taka lán eins og honum sýnist, fara á yfirdrátt í Seðlabankanum eins og honum sýnist og haga sér eins og honum sýnist.

    Þrátt fyrir góða viðleitni Ríkisendurskoðunar til að reyna að bremsa af og koma reglu á þessa hluti --- og var nú hér í hv. Alþingi í fyrra ágætis umræða um að reyna að koma þessum hlutum í skikkanlegra horf og var lagt fram hér frv. af hv. fjvn. sem lofaði góðu og ég vonaði svo sannarlega að það mundi verða að lögum, en þessi hæstv. ríkisstjórn sá til þess að það gat ekki orðið. Málið var svæft í nefnd og síðan vísað til ríkisstjórnar og þar er málið einhvers staðar í skúffu, mikilvægasta mál í sambandi við fjárgreiðslur úr ríkissjóði sem hefur verið lagt fram í þessu þingi í áratugi. Svona fór um sjóferð þá.
    Það er óþolandi, hæstv. forseti, að það skuli ekki vera farið eftir þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt. Það eru lög um það hvernig á að leggja þessar lánsfjáráætlanir fram. Það á að fylgja þeim stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til og ég spyr því hæstv. fjmrh.: Af hverju hefur hann ekki látið vinna slíkt plagg? Hann hélt því fram hér við fjárlagaumræðuna á síðasta ári að hann ætlaði að gera einhverjar stórar áætlanir, þriggja ára áætlanir, og þá var ég að benda honum á að þessi lög væru til. Þetta var allt saman til. Það þurfti ekki að fara að gefa út yfirlýsingar um að það ætti að fara að gera einhverja nýja hluti. Þetta er allt saman í lögum, hvernig þetta á að vera. Fyrir utan það að þessi lánsfjárlög, hæstv. forseti, eru orðin notuð til þess að falsa fjárlögin. Lánsfjárlögin eru orðin notuð í ríkari mæli, og aldrei meira en nú, til þess að falsa fjárlögin og falsa ríkisbókhaldið. Hlutir sem raunverulega er búið að borga og hlutir sem raunverulega er búið að framkvæma, opinberar framkvæmdir, eru sett inn á lánsfjárlög til þess að það sjáist ekki hvað hallinn er mikill á ríkissjóði. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. gæti örugglega --- ef hann mundi setja þetta allt inn á fjárlög, þá er ég hræddur um að fjárlögin mundu hækka ansi mikið. Hvað skyldi nú hallinn aukast mikið? Það yrðu nokkrir milljarðar. Hvað munar um einn kepp í sláturtíðinni, hæstv. fjmrh.? Af hverju er ekki best að setja þetta allt saman á fjárlög þar sem það á að vera? Þú getur fengið lánsfjárlögin eigi að síður.
    Það þýðir lítið að vera að tala hér um breytta vinnutilhögun og tímamótaaðgerðir og tala voðalega fallega um þetta allt saman en framkvæma síðan allt í þveröfuga átt. Það eru bara tvö orð sem geta lýst umgengni hæstv. fjmrh. við peninga og það er sukk og svínarí.
    Það er ekki hlutverk hæstv. fjmrh., eins og ég sagði við hann hér í haust, að vera eins konar yfirjólasveinn í fjármálum ríkisins. Það er ekki hlutverk fjmrh. ( Fjmrh.: Það eru nú að koma jól.) Þó það séu að koma jól, hæstv. fjmrh. Það er náttúrlega fallegt að gefa litlu börnunum í skóinn og fuglunum fræ, en það er þjóðarsátt og það er verið að tala um að framfylgja markmiðum þjóðarsáttar og engin ríkisstjórn síðari ára hefur fengið annað eins tækifæri og þessi stjórn og þess vegna átti að nota tækifærið og reyna að koma reglu á í alvörunni í ríkisbókhaldi og ríkisreikningi og lánsfjárlögum.

    Því miður bendir allt til að tal manna um svikalogn sé akkúrat rétta lýsingin og dagblaðið Tíminn lýsti í þessari viku á forsíðufrétt að þetta væri nokkurs konar rörasprengja. Líkti þessu við rörasprengju.
    En ég vil þá segja það að lokum við hæstv. forseta þessarar deildar og hæstv. fjmrh. Menn ættu að huga að því í sambandi við meðferð á eldfimum efnum að það getur orðið sjálfsíkveikja.