Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Um nokkurt skeið hafa verið til umræðu málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra og fyrir nokkrum missirum var skipuð nefnd á vegum menntmrn., félmrn. og heilbrrn. til að fjalla sérstaklega um þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að eðlilegt væri að komið yrði upp sérstakri þjónustumiðstöð, samskiptamiðstöð, þar sem m.a. væri tekið á táknmáli og táknmálsrannsóknum. Ætlun okkar var sú að ákvæði um þetta efni yrðu sett inn í reglugerð á grundvelli laganna um þjónustu við fatlaða. Það var hins vegar afstaða hagsmunaaðila í þessu máli að það væri eðilegt að miðstöð þessi heyrði undir menntmrn. þar sem hún ætti að sinna táknmáli og rannsóknum á táknmáli og fleiri þáttum sem tengjast menntunarmálum heyrnarlausra, auk þess sem það er svo að samkvæmt gildandi lögum eru ekki nein sérstök ákvæði um heyrnarlausa í framhaldsskólakerfinu og að nokkru leyti mun þessi stofnun, ef til hennar kemur, verða til þess að þjóna fólki á þeim aldri sem gjarnan er í framhaldsskólum og auk þess fullorðnum. Enn fremur mundi stofnunin veita margvíslega aðstoð og ráðgjöf sem snertir heyrnarlausa.
    Þess vegna varð niðurstaðan sú að um málið yrði að flytja sérstakt lagafrv. til að treysta grunn þess. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. snemma á þessu þingi og hefur nú hlotið þar samhljóða afgreiðslu.
    Við meðferð málsins í Ed. komu fram ýmsar athugasemdir, m.a. um stjórn þessarar stofnunar og fleira. Niðurstaða nefndarinnar í Ed. varð engu að síður sú að fallast á tillögur frv. eins og þær liggja hér fyrir.
    Mér er kunnugt um það að fjöldi hv. þm. hefur sinnt þessum málum, bæði innan þings og utan, af skörungsskap á undanförnum árum, m.a. með flutningi fsp. og till. hér í þessari virðulegu stofnun og það má segja að þetta frv. sé að nokkru leyti niðurstaðan af umræðum sem hafa farið fram hér aftur og aftur að frumkvæði margra þingmanna, m.a. hv. 12. þm. Reykv., hv. þm. Helga Seljans meðan hann sat hér á Alþingi og fleiri hv. þm.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að um þetta mál geti náðst góð samstaða hér í þessari deild og þætti vænt um ef það tækist að ljúka því fyrir hátíðirnar. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.