Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Því miður stóð þannig á að ég var rétt að koma inn í salinn og mér skilst að ég hafi misst hér af afar skemmtilegri ræðu. Sennilega verður það fáa sem ég segi hér um þetta mál að þessu sinni ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem hv. 13. þm. Reykv. sagði.
    Þetta mál, sem er allítarlegur lagabálkur, var lagt fram á þingi í gær. Hæstv. ráðherra hafði áhuga á því að taka það mál strax til umræðu en varð við eindregnum óskum að gera það ekki þannig að mönnum gæfist kostur á að skoða þetta frv. fyrir 1. umr. Það verður hins vegar að segjast eins og er að ekki hefur gefist mikill tími til þess í þeim önnum sem verið hafa síðustu daga, en ég geri auðvitað engar athugasemdir við það að 1. umr. fari fram nú þannig að mál þetta geti farið til nefndar.
    Þetta mál hefur átt nokkuð ítarlegan undirbúning. Frv. var samið af nefnd sem í áttu sæti m.a. fulltrúar þingflokkanna og fulltrúar ýmissa hagsmunasamtaka. Ég hygg að málið hafi fengið nokkuð vandaðan undirbúning. Það eru þó nokkur atriði sem ég vildi gera athugasemdir við á þessu stigi málsins og bið hv. nefnd um að taka það til athugunar en ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem um þetta fjallar.
    Ég vil í upphafi segja að ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við Íslendingar hlúum að okkar ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er jú þegar orðin allumtalsverður þáttur í okkar atvinnulífi. Bæði er það margt fólk sem hefur atvinnu af ferðaþjónustu í ýmiss konar mynd og það skapar okkur allverulegar gjaldeyristekjur. Er enginn vafi á því að þær geta farið vaxandi. Hins vegar eru auðvitað takmörk fyrir því hversu mikið landið þolir af ferðamönnum. Við erum þegar farin að sjá þess merki í óbyggðum landsins og á ýmsum viðkvæmum stöðum að staðirnir eru farnir að spillast, náttúran og umhverfið eru farin að spillast vegna þess að troðið er á landinu og illa með það farið. Jafnvel þótt menn reyni að skipuleggja umferð og aðstöðu á hinum viðkvæmustu stöðum og þeim sem eru mest eftirsóttir, þá er enginn vafi á því að það eru takmörk fyrir því hvað viðkvæmustu hlutar landsins þola. Ég held hins vegar að við eigum að beina sjónum okkar að því að reyna að gera Ísland að vettvangi fyrir fundi og ráðstefnur og lengja þannig ferðamannatímann í báðar áttir til þess að nýta hótel og aðra aðstöðu betur heldur en nú er gert.
    Athugasemdirnar sem ég hef fram að færa nú lúta fyrst og fremst að stjórn ferðamála, þ.e. að II. kafla þessa frv. Þar er gert ráð fyrir því að svokallað ferðaþing verði haldið árlega, það er í 3. gr. frv. Það á að vera ráðgefandi samkoma um málefni ferðaþjónustunnar, gera tillögur um breytingar á opinberri ferðamálastefnu og annað er lýtur að þróun ferðamála. Þetta árlega ferðaþing sitja fulltrúar frá hagsmunasamtökum, fyrirtækjum, samtökum neytenda og samtökum launafólks í ferðaþjónustu. Einnig hafa seturétt fulltrúar opinberra aðila sem tengjast ferðaþjónustu, umhverfisvernd, menntunarmálum og rannsóknum á sviði

ferðamála. Síðan er öðrum heimilt að fylgjast með störfum þingsins sem áheyrnarfulltrúar. Ráðherra á síðan að setja reglugerð þar sem kveður á um rétt aðila til að tilnefna fulltrúa á þingið. Síðan á þetta ferðaþing að kjósa verulegan hluta af svokölluðu Ferðamálaráði. Það eiga að skipa níu menn. Ráðherra skipar formann, fjórir eru síðan kosnir óhlutbundinni kosningu á þessu ferðaþingi, en síðan eru fjórir tilnefndir af ákveðnum, þar tilgreindum aðilum sem ég ætla ekki að telja upp hér, en um það er ákvæði í 4. gr.
    Mér finnst það satt að segja afar laust í reipunum hverjir eiga að sitja ferðaþing, skv. ákvæðum laganna. Það er lagt í vald ráðherra að ákveða það. Ég held að reynslan sé sú að þegar ákveðið er með reglugerð hverjir eiga seturétt á slíkum þingum er stöðugur þrýstingur á ráðherra að bæta við og auka félögum og alls konar samtökum sem telja sig, og geta vafalaust með réttu talið sig hafa áhuga á viðkomandi málaflokki. En að láta síðan jafntilviljanakennda samkomu kjósa svona stóran hluta í Ferðamálaráð finnst mér ekki ganga. Ég vek athygli á því að Ferðamálaráðið á að hafa töluverð völd samkvæmt þessu frv. Það á m.a., svo að ég taki nú 1. tölul. í 5. gr. ,,að gera árlega tillögur til ráðherra um ráðstöfun fjár til helstu málaflokka og ákvarða síðan skiptingu þess til einstakra verkefna.`` Þarna er það Ferðamálaráð sem hreinlega ákvarðar hvernig fé eigi að skiptast á ákveðin verkefni. Ferðamálaráð hefur síðan ýmis önnur verkefni sem talin eru upp í 11 töluliðum sem ég ætla ekki að telja nánar upp hér en fær sem sagt töluverð völd.
    Í 9. gr. er Ferðamálaráði heimilað að gerast meðeigandi og taka þátt í rekstri ferða - og upplýsingamiðstöðva. Í því er auðvitað fólgið verulegt vald líka.
    Nú veit ég að vísu ekki hvaðan fyrirmyndin er en mig grunar að hún gæti verið komin frá Náttúruverndarráði vegna þess að náttúruverndarþing kýs Náttúruverndarráð sem síðan hefur mjög mikil völd. Þau lög eru nú til endurskoðunar. Ég minnist þess þegar ég sat í menntmrn. að þá fékk ég mjög margar heimsóknir frá forsvarsmönnum Náttúruverndarráðs þar sem þeir létu mjög illa af þessu stjórnunarfyrirkomulagi. Náttúruverndarþing var stækkað. Það voru alltaf að koma fleiri og fleiri félög sem sögðu: Við höfum áhuga á náttúruverndarmálum, við viljum geta setið náttúruverndarþing. Síðan óx það og óx og síðan kaus þetta þing Náttúruverndarráð sem hefur gríðarleg völd í náttúruverndarmálum. Og mig grunar að þessi fyrirmynd sé sótt þangað en ég vara við þessu fyrirkomulagi af því að þarna er ekki nægileg festa í hvernig ferðaþing á að skipa. Þess vegna tel ég að þennan þátt málsins eigi að taka til endurskoðunar og athugunar í nefndinni. Ég hef ekki ákveðnar tillögur um það hverjir eigi þar að koma við sögu, en ég hefði þó talið að það væri eðlilegra þegar um jafnvaldamikla stofnun og Ferðamálaráð er að ræða að Alþingi kysi hreinlega þá aðila sem ekki eru tilnefndir sérstaklega af þar til greindum samtökum.
    Ég vil vekja athygli á því að í III. kafla er fjallað um fjármögnun ferðamála. Þar segir: ,,Starfsemi

Ferðamálaráðs skal m.a. fjármögnuð með sérstöku gjaldi, er nemur eigi minna en 10% af árlegri vörusölu fríhafna í landinu. Fríhafnir skulu greiða gjald þetta beint til Ferðamálaráðs af sölu hvers mánaðar og fellur það í gjalddaga eigi síðar en 15 dögum eftir lok mánaðarins.`` Þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að Ferðamálaráð verði innheimtuaðili þessa gjalds. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga en vek athygli á að þar með minnka verulega líkur á því að Alþingi geti, eins og það gerir á hverju ári, skert fjárveitingar til Ferðamálaráðs. Ég hygg að fyrirmyndin sé sótt í þau gjöld sem greidd eru til framkvæmda í flugmálum en þau gjöld koma aldrei í ríkissjóð heldur eru þau innheimt sérstaklega beint af Flugmálastjórn frá flugfélögunum og reyndar frá olíufélögunum sem selja flugvélabensín eða flugvélaeldsneyti. Á þessu vil ég vekja athygli og væri svo fróðlegt að heyra hvaða skoðanir hæstv. fjmrh. eða fjmrn. hefði á þessu fyrirkomulagi. En ég tel auðvitað að með þessu sé mun tryggara um hnútana búið að þessar tekjur fari þá gagngert til þess sem þær eru ætlaðar samkvæmt þessu lagafrv.
    Ég vildi, virðulegi forseti, láta þessar athugasemdir koma fram nú við 1. umr. þessa máls og vænti þess að hv. nefnd hugleiði það þegar hún tekur málið til meðferðar.