Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé árlegur viðburður að ég flytji brtt. við þann skatt sem hér er til umræðu og það er engin breyting á núna. Það var reyndar alveg hrikalegt að hlusta á hæstv. fjmrh., sem nú er ekki staddur í salnum, þegar hann kom hér og mælti fyrir frv. fagnandi og skælbrosandi af gleði yfir því að hann væri að mæla fyrir þessu frv. og taldi upp þá ráðherra sem áður hefðu mælt fyrir þessu frv. Nefndi hann þá alveg sérstaklega ráðherra Sjálfstfl. sem hefðu setið í stól fjmrh.
    Það skiptir mig nákvæmlega engu máli hvort ráðherrar Sjálfstfl. hafa setið í því embætti eða einhverjir aðrir. Skatturinn er jafnslæmur og nákvæmlega jafnafleitur og mismunaði atvinnugreinum allverulega, hvaða ráðherra sem setti hann á eða hvaða ráðherra sem viðhélt honum. Þennan skatt ber að leggja niður, hann er óréttlátur og mismunar eins og ég hef sagt. Það er náttúrlega hrikalegt að fá fagnandi fjmrh. hér upp þegar dreifbýlisverslunin er, eins og flestir vita, nánast að leggjast af og er að flytja sig til Reykjavíkur. Þá kemur hæstv. ráðherra hér skælbrosandi og fagnar því sérstaklega að nú geti hann sennilega veitt dreifbýlisversluninni náðarhöggið.
    Þennan skatt vildi ég helst leggja af í einu lagi, en ég fer hógværa leið í brtt. minni, ég lækka hann um 1%, úr 1,5% í 0,5 með það fyrir augum að á næsta ári, þegar vonandi verður komin hér stjórn á landið með tilkomu nýs flokks sem heitir Sjálfstfl. og vonandi þá með hreinan meiri hluta, þá verði þessi skattur niður lagður.