Jöfnunargjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 472 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 78 frá 23. des. 1980, um jöfnunargjald, með áorðnum breytingum.
    Eins og fram kemur er hér um að ræða meirihlutaálit því að nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meirihlutaálitið er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og mælir meiri hl. hennar með samþykkt þess.``
    Undir þetta álit rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson, Eiður Guðnason og Guðrún J. Halldórsdóttir.
    Eins og gerð var grein fyrir í gær af hálfu hæstv. fjmrh. er hér um að ræða lækkun á jöfnunargjaldi. Það lækkar um 1% núna um næstu áramót, úr 5% í 4%, og síðan lækkar það enn frekar þegar líða tekur á árið.
    Eins og ég sagði mælir meiri hl. fjh.- og viðskn. með því að frv. verði samþykkt. Hér er um að ræða skattalækkun og er það kannski nokkuð óvenjulegt á þessum tíma þegar fjárlagahalli er mikill.