Lánsviðskipti
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á því að svo virðist sem flest þau frv. og tillögur til bóta í efnahagslífi þjóðarinnar þegar kemur að fjölskyldunum í landinu séu yfirleitt flutt af konum hér á hinu háa Alþingi. Nægir að nefna till. hv. 9. þm. Reykn., sem hér var minnst á áðan, og ég leyfi mér að minna á fjölmargar tillögur mínar varðandi greiðslukortaviðskipti og annað slíkt.
    Það frv. sem hér liggur nú fyrir um grundvöll lánsviðskipta, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna og fleira er hið athyglisverðasta mál sem full ástæða er til að skoða vandlega. Það væri góð breyting í þjóðfélagi okkar að bankar og bankastofnanir gerðu sér grein fyrir því að þær eiga fyrst og fremst að vera þjónustustofnanir. Allt annað hefur verið uppi á teningnum eins og við öll vitum og bankar landsins, og þá ekkert síður ríkisbankarnir, hafa verið reknir sem hreinar gróðastofnanir. Ég vil jafnvel leyfa mér að segja okurstofnanir fullkomlega á borð við aðrar slíkar. Öll vitum við að undirstaða heilbrigðs efnahagslífs í hverju landi er heilbrigt efnahagslíf hinna einstöku fjölskyldna. Grundvöllurinn undir að svo megi vera er auðvitað, eins og hér er tekið fram, gagnkvæmt traust lánastofnana og lántakenda.
    Sannleikurinn er sá að allflest lán sem fjölskyldur í landinu taka eru lán sem tekin eru í neyð. Það eru ekki bankarnir sem lána peninga vegna vorkunnsemi og kunningsskapar, eins og hér var sagt áðan, heldur er skrifað upp á þessi lán af vorkunnsemi og vegna kunningsskapar.
    Auðvitað eiga vinir og ættingjar erfitt með að neita fólki sem er að missa híbýli sín og allt fjölskyldulíf er í uppnámi vegna greiðsluerfiðleika um að ábyrgjast skuldir þó jafnvel að fólk viti innst inni að hvorki það sjálft eða fólkið sem lánið er að taka eru borgunarmenn fyrir því.
    Það væri kannski full ástæða til að rekja dálítið sögu þeirra greiðsluerfiðleika sem tröllríða nú allt of mörgum fjölskyldum í landinu. Ég minnist þess að hér stóð ég alein árið 1984 og mótmælti þegar vextir voru gefnir frjálsir. Menn höfðu nú ekki miklar áhyggjur af því. Við erum hins vegar allmörg sem aldrei höfum komist út úr þeim vandræðum og verður þess langt að bíða. Um árabil borguðu menn af skuldum sínum og þær hækkuðu því meira sem menn borguðu. Er stundum hlálegt að heyra þá sem að því stóðu tala hér af miklu mannviti um efnahagsmál. Við sem urðum fyrir þessu vitum betur. Sannleikurinn er sá að bankarnir hafa skilað stórgróða ár eftir ár. Hvaðan skyldi sá gróði aðallega vera kominn? Hann er nefnilega kominn fyrir dráttarvexti sem lagðir eru á það fólk sem getur ekki greitt. Þess vegna eru bankarnir auðvitað ekkert á móti því að lána fólki peninga, einkum ef það getur ekki borgað því þeim mun hærri verða dráttarvextirnir. Bankastarfsemi á borð við þetta er auðvitað hreint hneyksli, að ég ekki tali um þegar hið sama á við um banka sem við rekum saman, þ.e. ríkisbankana. Mönnum er samviskulaust att á foraðið og

fólki lánað þótt ljóst sé að það geti engan veginn borgað þær upphæðir, sem það er að taka að láni, á svo stuttum tíma sem kostur er gefinn á.
    Ef við færum almennt út í þessi mál þá er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að við þyrftum enga Húsnæðisstofnun ríkisins. Bankarnir eiga auðvitað að sjá um það að lána fólki peninga. Allt fólk verður að fá lánaða peninga og ekki síst í okkar landi þar sem allur þorri manna verður að eiga sín eigin híbýli. Nú erum við öll búin að samþykkja að gefin verði út ný tegund af húsbréfum fyrir fólk sem er í greiðsluerfiðleikum og maður getur auðvitað spurt: Þurfti þess virkilega? Hvers vegna getur þetta sama fólk ekki farið með lausaskuldir sínar í viðskiptabankann sinn og samið við bankann um einhverjar skynsamlegar afborganir af þessum skuldum til lengri tíma? Nei, við kjósum heldur að hafa stóra og mikla og dýra stofnun til að taka við því fólki sem bankarnir eru búnir að fara illa með. Þetta er nú bara sannleikurinn í málinu. Og það vantar stundum á að við tökum á málum sem þessum.
    Ég get ekki komist hjá því að segja litla sögu af viðskiptum mínum við banka erlendis. Ég dvaldist í Bretlandi í þrjú ár á yngri árum. Þá voru ekki einu sinni námslán, stúdentar fengu ekki einu sinni regluleg námslán. Við fengum peninga frá vinum og vandamönnum mjög svo óreglulega, lögðum inn í bankann í hverfinu og fengum þá peninga sem við þurftum hvort sem eitthvað var inni á reikningnum eða ekki. Við fengum meira að segja að yfirgefa landið án þess að vera búin að gera upp við bankann og það var ekkert vandamál. Menn geta hins vegar gert sér í hugarlund hvaða skuldir við borguðum fyrst þegar heim var komið. Einmitt þannig á að ríkja traust milli viðskiptastofnunar hverrar fjölskyldu og fjölskyldunnar sjálfrar. Hirðuleysi margra, sem vissulega er líka fyrir hendi, um að greiða skuldir sínar til bankanna stafa ekki síst af því að milli þessara aðila ríkir ekkert traust. Hvor um sig fyrirlítur hinn og slíkt er aldrei gott í neinum viðskiptum.
    Þetta held ég nú að allflestir hv. þm. viti innst inni en einhvern veginn hefur það verið svo að það hefur verið afar erfitt að fá setta löggjöf um hin ýmsu form viðskipta sem sífellt er verið að bæta á þjóðarbúið. Ég minnist áralangrar baráttu minnar við hið háa Alþingi fyrir því að það setji lög um greiðslukortaviðskipti. Loksins núna er frv. hér í þinginu, ekki er nú að sjá að það sé á neinni hraðferð í gegnum þingið og yrði ég ekki hissa þótt það dagaði uppi á þessu þingi sem og öðrum.
    Eins og réttilega segir í grg. þá eru engin almenn lög um skuldabréf hérlendis. Það er auðvitað fullkomlega fráleitt þar sem næstum hver einasti Íslendingur sem er sjálfum sér ráðandi og fjárráða hefur einhver afskipti af skuldabréfaviðskiptum. Ég fór einmitt að hugsa þegar ég las þetta frv. hvers vegna þetta hefði ekki verið sett sem brtt. við lög um viðskiptabanka og sparisjóði. Það kann vel að vera rétt sem hér segir að ástæðan fyrir því sé að auðvitað láni fleiri fé en þær stofnanir. Öll þessi nýju verðbréfaþjónustufyrirtæki

koma svo til hvert af öðru og eftir því sem ég las í helgarblöðunum er enn eitt að bætast við. Þau taka við enn einum hópi af fólki sem er í vandræðum, fyrirtækjum sem eru í vandræðum, maka krókinn á vandræðunum og öll höfum við séð hvaða afleiðingar það hefur haft, jafnt fyrir fjölskyldur sem fyrirtæki. Það er satt að segja vítavert fyrir hið háa Alþingi að hafa látið þessa þróun mála yfir sig ganga nær athugasemdalaust um árabil án þess að taka á þessum vandamálum.
    Menn eru sífellt að tala um að laun hækki og eins og ástand mála er í þjóðfélaginu þá verða þau að hækka. Þau eru allt of lág hjá allt of stórum hópi manna. Hitt er svo annað mál að það mætti spyrja sig: Af hverju eru þau of lág? Það skyldi nú aldrei vera að fólk gæti hugsanlega lifað á laununum sínum ef það væri ekki með skuldir sem krefjast jafnvel allra launanna í afborganir hvern einasta mánuð. Slíkt efnahagslíf er auðvitað fullkomlega út í hött og árangurinn sjáum við allt í kringum okkur. Fólk sem er örþrota, er að missa heimili sín og jafnvel fjölskyldur sínar og allt það sem því fylgir, þeir harmleikir sem þar eiga sér stað og svo sannarlega hafa endað á skelfilegasta hátt og eru mörg dæmi um það.
    Það er þess vegna svo sannarlega mál til komið að reynt sé að taka á þessum málum og ég vil þess vegna lýsa eindregnum stuðningi mínum við þetta frv. Ég hef ekki svo farið í gegnum það að ég fullyrði að á því séu engir annmarkar. Það kann vel að vera að þeir séu og ég vænti þess að hv. fjh.- og viðskn. fari gaumgæfilega í gegnum það og þetta mál verði vel unnið í nefnd. En ég held að sú meginhugsun sem í því felst sé meira en tímabær og mikil nauðsyn að þetta þing líði ekki án þess að á þessum málum sé tekið.
    Hitt er svo annað mál að eftir stendur að taka á bankamálum landsmanna. Allflestir Íslendingar fá núorðið laun sín inn á bankareikning og eru þar með fastir viðskiptavinir hver síns banka. Sá banki á auðvitað að hafa skyldur við það fólk og vera fær um að gera sér grein fyrir því hvað það fólk þolir af mánaðarlegum greiðslum og haga sér samkvæmt því. Það kynni þá að vera að við gætum sparað okkur rekstur stórra stofnana sem eru í raun og veru ekki að gera neitt annað en að taka við því fólki sem ekki hefur neitt traust í bönkum landsins né neitt traust á sínum eigin banka og er þess vegna í vandræðum. Við þekkjum erlendis og í næstu nágrannalöndum að þegar fólk hyggur á íbúðarkaup fer það til síns banka. Þar er farið ofan í það hvað maðurinn er líklegur til að geta greitt á mánuði og síðan lánar bankinn það sem maðurinn þarf. Menn eru ekki í þessu uppnámi með fjármál sín eins og allflestir Íslendingar eru, því miður.
    Þetta vildi ég nú leggja inn í þessa umræðu og treysti því að hv. alþm., sem augljóslega hafa ekki mikla trú á því að þetta frv. sé einhvers virði þar sem hér eru aðeins örfáir til að hlýða á mál okkar, þeir fáu sem hér sitja inni, veiti þessu frv. athygli og vinni að því að það fái góða meðferð í þeirri nefnd sem því

verður vísað til.