Húsnæðislánastofnanir og húsbankar
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Í raun er allt of lítil umræða sem á sér stað innan veggja hins háa Alþingis um jafnmikilvægt mál og húsnæðismálin. Reyndar voru á því kjörtímabili sem nú er að ljúka allheitar umræður um þessi mál, ef ég man rétt veturinn 1987 -- 1988, og svo reyndar aftur á þinginu 1988 -- 1989, en síðan hefur verið frekar hljótt um húsnæðismálin og ekki mikið verið fjallað um þau hér í sölum hins háa Alþingis.
    Raunar mætti fara fram hér málefnaleg umræða um alla þætti húsnæðislánamála og sérstaklega finnst mér rétt að rætt sé um nýjar hugmyndir þegar þær koma fram. Ég leyni því ekkert að ég átti sjálfur þátt í því að móta það frv. sem hér hefur verið lagt fram og mælt fyrir af hálfu hv. þm. Guðmundar Ágústssonar, en margt hefur gerst síðan það var lagt fram í fyrsta sinn veturinn 1987 -- 1988 og ýmsar breytingar verið gerðar á húsnæðislánamálum þjóðarinnar, sumar í rétta átt og aðrar hafa kannski valdið glundroða og ýmsum ruglingi eins og gengur. En við erum öll að leita að leiðum til þess að ná því höfuðmarkmiði að tryggja öllum landsmönnum aðgang að heppilegum og hagstæðum húsnæðislánum til þess að auðvelda þeim það verkefni að koma sér þaki yfir höfuðið. Að því marki erum við öll að leita með ýmsum aðferðum og ýmsum leiðum og það er skylda okkar að leggja höfuðið í bleyti og reyna sameiginlega að finna skynsamlega lausn á þessum erfiðu málum.
    Ég hef svolítið velt því fyrir mér hvað verður ef Íslendingar mundu nú innan fárra ára verða aðilar eða vera með í hinum svokallaða innri markaði Evrópuþjóðanna, þ.e. í hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði, og gangast undir það atriði m.a. að húsnæðislán eins og önnur fjármálabankastarfsemi verði algjörlega frjáls innan efnahagssvæðisins. Það þýddi væntanlega að íslenskir þegnar mundu eiga aðgang að húsnæðislánum frá öllum löndum hins innra markaðar eða löndum sem væru aðilar að hinu evópska efnahagssvæði. Ég hef svolítið reynt að gera mér í hugarlund hvernig það gæti nú virkað ef fjölskylda eða einstaklingur sem hygði á íbúðarbyggingu eða íbúðarkaup gæti þar með sótt um húsnæðislán hjá einhverri stofnun á Ítalíu eða í Portúgal eða hvar annars sem væri. Það er væntanlega það kerfi sem við eigum eftir að sjá ef við gerumst aðilar að þessu efnahagssvæði. Þess vegna finnst mér skynsamlegt að það fari fram veruleg umræða bæði hér á hinu háa Alþingi og í þingflokkunum, almennt um húsnæðismál, og allar leiðir verði skoðaðar.
    Það er eitt sem ég hef velt mikið fyrir mér að undanförnu og það er þáttur lífeyrissjóðanna. Mér virðist að sú breyting sem varð vorið 1986 þegar samkomulag náðist meðal aðila vinnumarkaðarins um að taka upp það húsnæðislánakerfi, sem hefur verið kennt við ártalið 1986, hafi orðið til þess að lífeyrissjóðirnir drógu sig nánast í hlé. Þeir hættu að hafa bein afskipti af húsnæðislánamálum og það má segja að fyrir þeim sé komið eins og manninum sem kaupir sér syndaaflausn hjá páfanum. Þeir kaupa sig lausa frá

þeim kaleik, að tryggja sjóðfélögum sínum hagstæð húsnæðislán, með því að undirgangast að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins og þar með er þeirra verkefni lokið. Þeir hafa ekkert frumkvæði haft í húsnæðislánamálum síðan og þeir hafa ekkert gert til að stuðla að því að sjóðfélagar þeirra eigi aðgang að hagstæðum íbúðarlánum né heldur neitt frumkvæði í þeim efnum að móta húsnæðisstefnu og húsnæðislánastefnu landsmanna. Það er miður vegna þess að hér er um að ræða geysilega sterka og öfluga sjóði og stofnanir í þjóðfélaginu sem ég mundi í raun treysta að mörgu leyti mun betur til þess að sýna frumkvæði í þessum málum en ríkinu. Ég hef aldrei verið trúaður á það að ríkisvaldið leysi málin betur en einkaaðilar þegar þeir taka höndum saman. Þess vegna, af því að ég veit að hér inni í þingdeildinni er hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem hefur geysilega reynslu og þekkingu á málefnum lífeyrissjóða, væri gaman að heyra hans álit á þessum málum. Ég leyfi mér nú að varpa þeirri spurningu fram til þessa ágæta þingmanns, hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar: Er það skoðun hans eins og mín að ef lífeyrissjóðirnir virkilega gengju í þetta mál mundu þeir finna heppilegri og betri leiðir og kannski geta sýnt meira frumkvæði heldur en ríkisvaldið hefur gert í þessum málum hingað til? Því miður virðist mér að það sem ríkisvaldið hefur haft til málanna að leggja hafi leitt til æ meiri glundroða á húsnæðislánasviðinu og því fleiri og meiri lög sem hið háa Alþingi hefur afgreitt sem tengist málefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins, því meiri hefur ruglingurinn orðið. Þess vegna er sú leið, sem er bent á í frv., að fela lífeyrissjóðunum það verkefni að koma upp og reka húsnæðislánastofnun með stefnumótun í húsnæðismálum afar athyglisverð. Það kunna að vera á þessari leið ýmsir gallar og ýmis atriði sem auðvitað þarf að lagfæra því að hér er um geysilega flókið og stórt mál að ræða. En það meginatriði, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum þetta frv., er aðalatriðið, að lífeyrissjóðirnir taki þessi mál í sínar hendur og taki eitthvert frumkvæði í húsnæðismálum en láti ekki ríkisvaldinu einu eftir að sjá um húsnæðislánamál landsmanna.