Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Hér fara fram umræður um frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Þetta frv. er sjálfsagt borið fram af fullri nauðsyn. Ég get þó ekki látið undir höfuð leggjast að vekja athygli á mjög glöggum athugasemdum frá hv. 3. þm. Reykv. um þetta frv. Í upphafi athugasemda með frv. segir: ,,Talið er nauðsynlegt að gera breytingar á hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra sem báðar eru þess eðlis að þær rýmka hlutverk hans.`` Og að sjálfsögðu liggur í því að ef hlutverkið er rýmkað en ekki jafnframt gætt að því að tekjustofnar aukist þá þarf að hafa augun hjá sér.
    Hæstv. heilbrrh. orðaði það svo að hér væri verið að breyta áherslum og er það að sjálfsögðu nokkuð gott orðalag og sjálfsagt gert af nauðsyn. Hitt er svo rétt að taka fram að fyrir nokkuð mörgum árum, jafnvel áratugum, var lögð mikil áhersla á að útrýma öllum mörkuðum tekjustofnum, þ.e. að safna öllum tekjum ríkisins í einn pott og úthluta úr honum, stundum eftir geðþótta og eftir þörfum líðandi stundar.
    Hér er um tekjustofn að ræða sem er afskaplega þýðingarmikill og honum varið til mikilvægra mála. Ég man eftir því að Gísli Sigurbjörnsson, sá maður sem allra mest og best hefur sinnt málefnum aldraðra, sagði við mig eitt sinn þegar bygging dvalar- og elliheimilis var á döfinni á ákveðnum stað vestanlands, að sérhvert dvalar- og elliheimili þyrfti að starfa í samvinnu við sjúkrahús til þess að þangað gætu þeir farið sem þyrftu á meiri og nákvæmari hjúkrun að halda. Og hygg ég að hann hafi mælt þar af langri reynslu.
    Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um þetta þarfa málefni. Ég gat þó ekki látið undir höfuð leggjast að vekja athygli á þessu. Að sjálfsögðu verðum við alltaf að leggja áherslu á hagræðingu í þessum efnum, en þó ævinlega með hagsmuni hinna öldruðu fyrir augum.