Skipun í stöðu seðlabankastjóra
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur beint til mín fsp. um skipun í stöðu seðlabankastjóra. Það gefur mér tilefni til, með leyfi forseta, að lesa upp fréttatilkynningu frá viðskrn. sem send var í gær. Hún er á þessa leið: ,,Viðskrh. hefur í dag, að fenginni tillögu bankaráðs Seðlabankans, skipað Birgi Ísleif Gunnarsson alþm. seðlabankastjóra til sex ára frá 1. febr. nk. að telja. Þessi skipun er hin fyrsta til afmarkaðs tíma á grundvelli laganna um Seðlabankann frá árinu 1986, en þar eru skipunartíma seðlabankastjóra sett ákveðin mörk sem ekki voru áður.
    Auk tillögugerðar um skipan í stöðu bankastjóra samþykkti bankaráðið að beina því til viðskrh. að hann skipi nefnd til að endurskoða ákvæði laga um stjórnskipan Seðlabankans. Viðskrh. hefur, með vísan til þessarar samþykktar, ákveðið að skipa nefnd til þess að fjalla um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands og til þess að gera tillögur um breytingar í samræmi við niðurstöðu slíkrar endurskoðunar.
    Breyttar aðstæður á íslenskum fjármagnsmarkaði frá því að núgildandi lög voru samin og aukið fjölþjóðasamstarf á sviði gengis- og vaxtamála mun í vaxandi mæli setja mark sitt á efnahagslíf Íslendinga í framtíðinni. Breyttar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð og bætt stjórntæki Seðlabankans í gengis-, vaxta- og peningamálum. Það er því ástæða til að taka skipan og hlutverk bankastjórna og bankaráðs til endurskoðunar.
    Markmið endurskoðunar á lögum um Seðlabanka Íslands er að stjórnskipulag bankans tryggi sem best faglega stjórnun bankans og þátttöku hans í hagstjórn. Viðskrh. mun leita eftir tilnefningu fulltrúa frá þingflokkunum í endurskoðunarnefndina.``
    Við þessa fréttatilkynningu vil ég bæta nokkrum orðum og bendi á að í 26. gr. laga um Seðlabankann segir að ráðherra skipi bankastjóra að fengnum tillögum bankaráðs. Eftir að autt sæti var orðið í bankastjórn Seðlabankans við fráfall Geirs Hallgrímssonar seðlabankastjóra á sl. hausti átti ég viðræður við formann bankaráðs Seðlabankans, en ég minni á að nýtt ráð var kosið í byrjun desember sl. á Alþingi. Ég óskaði eftir tillögu frá bankaráðinu um skipun í stöðuna með bréfi sem er dags. 14. jan. Bankaráðið ræður því að sjálfsögðu hvernig það semur sínar tillögur. Það gæti þess vegna auglýst eftir umsóknum. Á fundi ráðsins 15. jan. hlaut tillaga um Birgi Ísleif Gunnarsson mestan stuðning ráðsmanna í starfið og ég hef farið eftir þeirri tillögu.
    Vegna þess sem hér er um spurt er það að sjálfsögðu ekkert launungarmál að þeir stjórnmálaflokkar sem lengst hafa verið við stjórn landsins hafa talið það æskilegt og hafa sóst eftir því að bankastjórn Seðlabankans skipi, a.m.k. að hluta, menn sem þeir hafi sérstakt trúnaðarsamband við. Ég þarf heldur ekki að minna á að bankaráðið er þingkjörið.
    Þetta er niðurstaðan um langt skeið. Þetta er hefðin, en ég vil leggja áherslu á tvennt í þessu máli. Nú er í fyrsta sinn skipað í embætti seðlabankastjóra,

samkvæmt lögunum frá 1986, til takmarkaðs tíma, en það var eiginlega sú ein breyting sem gerð var á þessu stjórnskipunarfyrirkomulagi með þeim lögum. Í öðru lagi, og það tel ég mjög mikils um vert, hefur náðst samstaða innan bankaráðsins, meðal allra ráðsmanna, um að taka stjórnskipun bankans til endurskoðunar í ljósi þeirrar öru þróunar sem orðið hefur á starfssviði hans, bæði innan lands og utan. Ég nefni það hér að þegar lögin voru endurskoðuð, sem lauk með lagasetningunni 1986, var lítt fjallað um stjórnkerfið sjálft og stöðu bankans í því. Seðlabankinn er mjög mikilvæg stofnun í okkar efnahagslífi og farsæl endurskoðun á stjórnskipulagi hans þarfnast breiðrar samstöðu. Ég skynja það að slík samstaða er nú að myndast og nauðsynlegar ákvarðanir hafa verið teknar til að fylgja því eftir. En þá er líka mikilvægt að ekki verði órói um bankann og að brotið við hina grónu hefð sé ekki of þvert. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að taka fram að ég tel að bankaráðið hafi unnið vel að þessu máli og óska hinum nýja bankastjóra velfarnaðar í hans mikilvæga starfi.