Skipun í stöðu seðlabankastjóra
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil láta það koma fram hér í þessari umræðu að strax sl. haust lagði ég það til á vettvangi ríkisstjórnarinnar að stjórnskipun Seðlabankans yrði breytt og þar yrðu gerðar mjög róttækar breytingar á í samræmi við nútímaviðhorf í efnahagsmálum. Ég tel að Seðlabankinn sé allt of veik stofnun í dag og að þetta gamla flokkakerfi, sem stjórnar Seðlabankanum með þeim hætti sem nú hefur verið ákveðið að eigi að framlengja, geti staðið eðlilegri efnahagsstjórn á Íslandi fyrir þrifum.
    Í fjarveru hv. þm. Geirs Gunnarssonar, sem er ekki viðstaddur þessa umræðu, vil ég síðan greina frá því, af því hæstv. viðskrh. gerði það ekki í sínu svari hér, að í bankaráðinu kom fram tillaga frá fulltrúa Alþb. á þá leið að breyting á stjórnskipan Seðlabankans hefði algeran forgang og henni yrði lokið á næstu mánuðum. Á meðan yrði til bráðabirgða einum af aðstoðarbankastjórum bankans falið að gegna bankastjórastöðunni. Því miður náði þessi tillaga ekki stuðningi. Í stað þess kom tillaga, sem kom upphaflega frá formanni Sjálfstfl., um að Birgir Ísleifur Gunnarsson yrði gerður að bankastjóra --- það er auðvitað sá maður sem ákvað þennan næsta bankastjóra samkvæmt eðli málsins, hv. formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson. Tillagan fékk tvö atkvæði. Ég vil segja það alveg skýrt, ég tel það miður. Ekki vegna þess að Birgir Ísleifur Gunnarsson sé ekki hinn mætasti maður, heldur vegna þess að nú þarf að styrkja Seðlabankann sem faglegt stjórntæki í efnahagsmálum og peningamálum. Og það er alger mótsögn í því að vera að standa fyrir endurbótum í efnahagsmálum, víðtækum breytingum í átt að nútímaefnahagsstjórn á Íslandi og aðlögun okkar að alþjóðlegri þróun í þessum efnum og viðhalda svo þessu gamla lénskerfi flokkanna á þessum vettvangi í stað þess að breyta stjórnkerfi Seðlabankans.
    Ég gæti rakið hér mjög ítarlega reynslu mína af því hve veikur Seðlabankinn er sem nútímastjórntæki í efnahagsmálum en ætla ekki að gera það við þetta tækifæri. En hitt er nauðsynlegt að komi fram að á fundi ríkisstjórnarinnar í gær lögðum við ráðherrar Alþb. fram tillögu um að þetta yrði gert með öðrum hætti og í ríkisstjórninni kom fram mjög alvarleg gagnrýni á þessa skipan. Á vettvangi ríkisstjórnarinnar var síðan greint frá því að hv. alþm. Birgir Ísleifur Gunnarsson yrði skipaður til þriggja ára. Ég vil þess vegna ekki leyna þingið því að það kom mér mjög á óvart þegar ég heyrði það í fréttum í gær að hann hefði verið skipaður til sex ára.