Matvælaaðstoð við Sovétríkin
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég er nú búinn að vera hér í 23 ár og ég er í fyrsta skipti vitni að því að hv. þm. sem flytur þáltill. leggur til að vísa henni frá, og m.a.s. án þess að fara eftir þingsköpum því hann þyrfti þá að koma með skriflega tillögu um það að næsta mál yrði tekið á dagskrá. Það er ekki nóg að segja það hér að hann leggi þetta til. Þannig að þetta er í raun og veru allt með ólíkindum. Hann talaði um stalínisma, og að hann vilji ekki styðja þá, en þarf það að vera það fólk sem sveltur? Spurningin er auðvitað þessi: Er hægt að koma þarna matvælum og dreifa þeim til þeirra sem þurfa, hvert sem stjórnarfarið er? Eða fer það í huga hv. þm. bara eftir því hvaða stjórnmálaskoðanir menn hafa hvort hann vilji seðja hungur þeirra? Ef hægt er að tryggja úthlutunina þá er náttúrlega þessi málflutningur alveg út í hött. Og einstakur.
    Og svo er hann að tala um hæstv. landbrh. í sambandi við það frumhlaup sem hæstv. viðskrh. gerði, að leyfa innflutning á svokölluðu ostlíki. Mér varð nú að orði þegar ég heyrði ummæli hans um að þetta væri nú ekki landbúnaðarafurð, að sojaolía væri ekki landbúnaðarafurð, ég veit ekki hvað hún er. Ég veit ekki hvað hún er. Ég held að það hefði verið betra að hæstv. iðnrh. hefði lært náttúrufræði heldur en hagfræði og hefði komið þjóðinni að meira gagni. Þetta er auðvitað landbúnaðarafurð og kemur í staðinn fyrir innlenda framleiðslu. Það er staðreynd. Ég ætla ekki að fara með þetta hér, en vegna þess að hv. þm., sem var að flytja sitt einkennilega mál, kom inn á þetta í leiðinni, þá get ég ekki stillt mig um að segja þetta um það mál. Hins vegar verður ekki alveg þagað yfir þessu máli. Það er algjör stefnubreyting í þessum málum en ég ætla ekki hér og nú að fara að ræða það frekar.
    En ég vil í fullri vinsemd biðja hv. þm. að hugleiða betur sinn málflutning í sambandi við þessa tillögu því hafi hún átt rétt á sér á annað borð, þá er ekki hægt að vísa henni frá á þessum forsendum. Ef á annað borð er hægt að koma matnum til þeirra sem þjást og þurfa.