Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Andspænis þeim hrikalegu atburðum sem eru að ganga yfir í Eystrasaltsríkjunum þessa dagana hljótum við að velta því fyrir okkur hvað við getum gert nákvæmlega til þess að sýna afstöðu okkar ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Ég held að öll þau atriði sem nefnd voru hér í umræðunni í síðustu viku eigi að skoðast mikið nánar og ég held að fleiri atriði eigi að koma inn í myndina, atriði sem ekki hafa verið rædd sérstaklega. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna menningarsamning Íslands og Sovétríkjanna, sem endurnýjaður hefur verið reglulega frá árinu 1961. Þessi samningur var gerður í Reykjavík 25. apríl 1961, undirritaður af þáv. sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi, A. M. Alexandrov, og fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands af þáv. utanrrh. Guðmundi Í. Guðmundssyni.
    Samningurinn hefur síðan, eins og ég sagði, verið endurnýjaður reglulega með sérstakri almennri áætlun um framkvæmd samningsins. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt í ljósi þeirra viðburða sem átt hafa sér stað undanfarna sólarhringa að við athugum það með hvaða hætti er unnt að segja upp þessum samningi.
    Ég tel að í þeim efnum eigum við að hafa samflot með öðrum Norðurlandaþjóðum og kanna hvort unnt er að ná samstöðu með þeim í þessu efni vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt að einmitt Norðurlandaþjóðirnar sýni samstöðu í þessu máli, bæði á þessum sviðum sem öðrum, sem næstu nágrannar Eystrasaltsþjóðanna sem eiga nú við að glíma ofurefli sovéskra skriðdreka og hervalds.
    Þessu vildi ég koma hér á framfæri, virðulegi forseti, um leið og ég legg áherslu á nauðsyn þess að við tökum á þessu máli á vettvangi Norðurlandasamstarfsins og sömuleiðis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með þeim hætti sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér grein fyrir áðan að hefði komið fram í okkar ályktunum um þessi mál. Ég held með öðrum orðum að staðan sé þannig að þó við tölum hér fyrir smáa þjóð þá eigum við möguleika á því, ef við höldum myndarlega á hlutunum miðað við sögu okkar og reynslu, að stilla saman strengi með mörgum öðrum þjóðum. Og það afl sem í okkur felst að þessu leyti eigum við nú að nota tafarlaust, virðulegi forseti.