Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Guðmundur Ágústsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að ég standi hér upp aftur til þess að svara þeim ásökunum sem fram hafa komið. Ég tel að í þessu máli hafi verið viðhöfð mjög eðlileg vinnubrögð. Þegar mál af þessu tagi eru fyrir þinginu þá vill oft þannig vera að menn fái ekki nema hálfan eða einn dag til þess að skila nál. Hér er um tæpa viku að ræða, frá fimmtudegi og til miðvikudags, og ég verð að segja eins og er að ég taldi og raunar flestir sem hér eru inni mættu telja það vera nokkuð rúman tíma til þess að skrifa álit.
    Varðandi þær upplýsingar sem hv. 2. þm. Norðurl. e. minntist á hér áðan, þá tilkynnti hann mér nú rétt fyrir kl. 2 að hann hefði ekki fengið fullnægjandi upplýsingar frá fjmrn. Það var í fyrsta skiptið sem ég heyrði um það að þær upplýsingar lægju ekki fyrir. Hins vegar voru honum afhent gögn sem hann bað um á fundinum. Hins vegar skildist mér á þeim upplýsingum sem ég fékk frá fjmrn. að hann hefði verið að biðja um viðbótargögn frá því sem áður hafði verið beðið um. Ég hef gert ráðstafanir núna til þess að athuga hvort hægt sé að fá þau gögn sem hv. þm. hefur farið fram á að honum verði veitt og ég vonast eftir því að hér á eftir komi þessar upplýsingar.
    En eins og hann sjálfur benti á ætti það ekki að trufla það að málið verði tekið
hér á dagskrá því að þær upplýsingar eru kannski til enn frekari fyllingar en skipta ekki máli varðandi efnisafgreiðslu málsins og hvernig málið allt liggur fyrir, heldur eru þetta frekar staðfestingar á því sem haldið hefur verið fram þannig að það ætti ekki að vera nægileg ástæða til að fresta málinu þó að þessar upplýsingar lægju ekki fyrir.
    Að sjálfsögðu væru það mjög góð og heppileg vinnubrögð hér í Ed. sem Nd. að nál. lægju alltaf fyrir þegar mál væru tekin fyrir, en þannig vill nú oft verða að það eru annir í þinginu og nál. oft skilað á síðustu stundu. Eins og raunin hefur orðið hér, þá hefur nú öllum nál. verið dreift og ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að málið verði tekið á dagskrá.