Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér er nú greitt atkvæði um hefur valdið miklum deilum og er það ekki að ófyrirsynju þar sem hér er tekist á um þau grundvallaratriði sem efnahagsstjórn tekst á við á hverjum tíma, þ.e. víxlhækkanir verðlags og launa. Með þeim bráðabirgðalögum sem samþykkt voru í sumar var komið í veg fyrir að hér skapaðist óðaverðbólga, óráðsía og að ástand mála yrði eins og segir í niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar að verðbólga mundi fara upp í þriðja eða fjórða tuginn á nýjan leik.
    Í sumar stóð ég fyrir því í mínum þingflokki að við stæðum að samningu þessara bráðabirgðalaga og við það stend ég, sem og aðrir þm. Borgfl. Við viljum koma í veg fyrir það að hér myndist þetta ástand sem ríkt hefur um árabil. Við viljum koma hér á því ástandi að hér myndist stöðugleiki til framtíðar. Það hlýtur að vera verkefni næstu ríkisstjórnar, sem tekur við í septembermánuði, að viðhalda þessum stöðugleika. Með vísun til þessa segi ég já við atkvæðagreiðslu um 1. gr. frv.