Sala á veiðiheimildum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hér er ekki um neitt ósamræmi að ræða og ég vitna til þess sem ég hef áður sagt. Málið stendur einfaldlega um það hvort aflaréttindi eigi að fylgja fiskiskipum og hvort það eigi að vera heimilt að sameina aflaréttindi. Mér heyrist á mörgum þingmönnum að þeir séu andvígir því og það er skoðun út af fyrir sig að vera andvígur því og reyna að hafa útgerðina með þeim hætti óhagkvæma.
    Það hefur hins vegar alltaf verið svo í íslensku samfélagi að upp hafa komið vandamál af fjárhagsástæðum hjá ýmsum byggðarlögum og þau lent í vandræðum. Það er ekkert nýtt. Það eru hins vegar þau ákvæði í núgildandi lögum að viðkomandi sveitarfélög hafa forkaupsrétt á skipum sem stendur til að selja úr viðkomandi byggðarlögum og þannig gefst ráðrúm og tækifæri til að reyna að taka á þeim vanda. En að ætla sér að leysa þann vanda með því annaðhvort að taka veiðiheimildirnar af fiskiskipunum og setja þær til annarra, fiskvinnslustöðvanna, sveitarfélaganna, eða banna að sameina veiðiheimildir, mun verða til þess að lífskjör í landinu munu rýrna mjög verulega. Það er mín skoðun.
    Ég heyri að hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur aðra skoðun í þeim efnum. Ég minni hann á að það hafa orðið allverulegar tilfærslur á veiðiheimildum, það er rétt. Þær hafa einkum orðið frá Reykjavíkur - og Reykjanessvæðinu ekki síst til kjördæmis hans, Norðurl. e. Því er haldið fram að þessi tilflutningur sé andstæður byggðastefnu. Ég veit ekki hvernig byggðastefna er skilgreind af hverjum einum þingmanni. Ég tel þetta ekki vera andstætt þeirri byggðastefnu sem er í mínum kolli, svo mikið veit ég.