Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. sem hér er rædd lýsir inn í mjög stórt mál, sem er til meðferðar hjá stjórnvöldum, hugsanlegir samningar um svokallað evrópskt efnahagssvæði. Eins og við heyrum á máli hæstv. ráðherra og mér er vissulega fullkunnugt um, þá er hluti af þessu máli hugmyndir um það að falla frá varanlegum undanþágum, þ.e. eins og málum er nú komið, frá því að íslenskar auðlindir eins og land séu hluti og skilyrði af hugsanlegum samningi.
    Þetta mál hefur ekki verið til meðferðar í þingflokki Alþb. þannig að það hafi verið beðið um afstöðu til þess. Það hafa ekki verið undirtektir við það sjónarmið, sem nú virðist vera tekið upp í þessum umræðum, að í staðinn fyrir varanlegar undanþágur komi einhver öryggisákvæði eða breyting á íslenskri löggjöf eins og hæstv. ráðherra lét hér að liggja. Ég hef ekki heyrt það frá hæstv. landbrh. að hann telji hér skynsamlega að verki verið eða líklegt sé að það verði stuðningur af hans hálfu við breytingu á lögum inn í þetta samhengi sem hér er rætt, þ.e. að sú leið verði valin í sambandi við þessi samningamál sem hæstv. utanrrh. og samningamaður hans virðast hafa lagt inn á.
    Í rauninni er allt þetta mál þannig vaxið að það er mikið áhyggjuefni hvernig þar er á málum haldið af hálfu EFTA og Ísland er eitt af sex ríkjum sem þar eiga hlut að máli. Hér er ekki tími til að ræða um þetta frekar en það er gott að dæmi af þessu tagi skuli bera hér á góma.