Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög tímabært að ræða um aðalatvinnuveg þjóðarinnar hér á hv. Alþingi, ekki síst í ljósi þeirrar stefnu sem verið hefur í þeim málum allt of lengi, þ.e. þeirrar fiskveiðistefnu sem við höfum búið við núna allt frá 1984, muni ég rétt, og hefur farið versnandi. Og ég er ekkert hissa á því þó að ýmsir vilji láta í sér heyra að því er þetta varðar.
    Það er auðvitað ekki ástæða til í þessari umræðu að halda langa tölu þó það væri ákjósanlegt um svo mikilvægt mál. 1. flm. að þeirri tillögu sem hér er nú til umræðu hefur gert málinu það góð skil og á trúlega eftir að bæta enn betur við að ekki er mikil ástæða til þess að vera mjög langorður nema þá eitthvað sérstakt komi upp sem kann að verða.
    Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. sagði þá þingmenn dæmalausa sem leyfðu sér að skrifa upp á svona tillögu, dæmalausa í neikvæðri merkingu að mér fannst. ( Sjútvrh.: Að greinargerðin væri dæmalaus.) Hún fylgir tillögunni, hæstv. ráðherra. ( Gripið fram í: Er hún hluti af þingmönnunum?) Greinargerðin? Tillagan og greinargerðin er flutt í nafni þeirra sem flytja tillöguna. Það ætti hæstv. ráðherra að vita, svo lengi er hann búinn að sitja á þingi. Og hverjir eru þessir dæmalausu menn? Við skulum taka eitthvað af þeim. Það er hv. þm. Geir Gunnarsson. Er hann í augum alþingismanna svo dæmalaus í neikvæðri merkingu að menn þurfi um það að tala? Það er Ólafur Þ. Þórðarson, flokksbróðir hæstv. ráðherra. Er hann svo dæmalaus að það þurfi að hafa orð á því í ræðustól á hv. Alþingi að hann skuli leyfa sér að gera slíkt? ( Gripið fram í: Í jákvæðri merkingu.) Var hann jákvæðari? (Gripið fram í.) Já, hv. þm. skilur þá betur en við, enda er þetta innanflokksmein hjá þeim framsóknarmönnum sem menn eru að tala um. Pálmi Jónsson. Er hann einn af þessum dæmalausu þingmönnum í neikvæðri merkingu sem þarf að hafa orð á að leyfi sér að skrifa upp á svona tillögu? Leyfi sér það. Og svona væri auðvitað hægt að telja miklu lengur. ( StG: Enda miklu fleiri.) Það eru fleiri, já, já, og ef hv. þm. Stefán Guðmundsson vill að ég telji alla röðina upp, þá er sjálfsagt að verða við því. En ég tók út tiltekna einstaklinga sem ég hélt að hv. þm. væru sammála um að væru ekkert dæmalausir í neikvæði merkingu í þessum efnum. ( StG: Heldurðu að það valdi ekki misskilningi?) Nei. Það þarf enginn að halda það, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að það valdi misskilningi sem ég segi. Það er mesti misskilningur ef hv. þm. heldur það. En það er auðvitað fullt af mönnum hér sem skrifa upp á þessa tillögu sem eru ekkert dæmalausir í neikvæðri merkingu, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Ekki hvað? Ég heyri að það er greinilega að lifna yfir mönnum þegar umræðan færist á þetta stig, meira að segja Reyknesingum, sem lítið hafa látið á sér kræla í þessum efnum undanfarið. ( Gripið fram í: Og fleiri.) Það er rétt, eins og fleiri. Austfirðingar eiga þar líka undir högg að sækja, geri ég ráð fyrir. En mér finnst svona tal hjá hæstv. ráðherra, hjá öðrum af tveimur guðfeðrum kvótans, vera út í hött. Þeir eru nefnilega tveir, núv. hæstv. ráðherrar, sem eru guðfeður þeirrar helstefnu sem kvótinn hefur innleitt í sjávarpláss víðs vegar um landið. Það er hæstv. sjútvrh. og núv. hæstv. iðnrh. sem þá var að vísu virtur embættismaður á þeim tíma þegar það kom til. En þetta eru guðfeður kvótans. Og ég er satt að segja alveg undrandi yfir því hvað hæstv. sjútvrh. var rólegur hér áðan. Auðvitað veit hann, jafngreindur og gáfaður maður og hann er, að það er mjög vaxandi þrýstingur gegn því kerfi sem við búum við. Það er mjög vaxandi þrýstingur, meira að segja úr herbúðum þeirra manna sem hafa talið þetta til hins ágætasta verkefnis með stýringu gegnum kvótakerfið.
    Ég hef ekki dregið neina dul á að það voru fulltrúar svokallaðra hagsmunaaðila, Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandsins, Farmanna - og fiskimannasambandsins, sem gerðu guðfeðrunum kleift að koma þessu kerfi á. Þeir gengust inn á það á sínum tíma og þess vegna búum við við ástandið eins og það er í dag, ástand sem er að leiða til glötunar á fleiri og fleiri stöðum í sjávarplássum úti um allt land. Það er ekki nema eðlilegt að menn fari að hugleiða það hvort ekki sé hægt með einhverjum hætti að breyta til og fara aðrar leiðir sem mundu reynast betur.
    En enn eru til menn sem lemja hausnum við steininn, vonandi ekki margir en þeir virðast vera til. Ég sé það t.d. í Morgunblaðinu 24. janúar að formaður Landssambands ísl. útvegsmanna hefur að yfirskrift að því er varðar þessa tillögu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Óvenjumikið ábyrgðarleysi og leit að atkvæðum.`` Taki menn nú eftir: ,,Leit að atkvæðum.`` Þessi ágæti maður að mörgu leyti telur það greinilegt að fólkið í landinu vill breytta stefnu, fólkið sem á að fara að ganga að kjörborðinu vill breyta um stefnu, ella væru menn ekki að leita að atkvæðum, hann teldi ekki svo vera. En hann heldur dauðahaldi í þessa tekjulind sem búið er að koma á hendur örfárra einstaklinga í landinu og búið að arfleiða þá að og þeir eru að halda til loka. Það kippir
auðvitað í kynið í þessum tilfellum þegar komið er að þeim sem ætti að fara að ýta við, hafa skarað eld að eigin köku. Og hann er trúlega einn af þeim sem hefur haldið utan um það lið, sem verið hefur varðgæslustjóri í þessum efnum öll þessi ár.
    Ég er alveg undrandi á því að mönnum skuli finnast það skrýtið eftir allar þær umræður sem orðið hafa um fiskveiðistefnuna á undanförnum árum og þær afleiðingar sem hún hefur haft á hina ýmsu staði, að mönnum skuli finnast það undrunarefni að flutt sé hér tillaga á hv. Alþingi um að kjósa þingmenn í milliþinganefnd til þess að yfirfara þetta mál. Það er í raun og veru ekkert sagt hvað hér á að gera varðandi stýringu. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Það er rangt. Það er ekkert sagt til. Það er auðvitað bent á hvað miða skuli við en ekkert sagt hvað á að gera. Til þess eru nú milliþinganefndir settar eða nefndir almennt að mínu viti. (Gripið fram í). Jú, hv. þm. Stefán Guðmundsson, til þess eru nefndir settar á laggirnar, til þess að finna út hvað hagstæðast er að gera í þeim tilvikum sem um er talað. Hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður sjútvn. Ed., ætti að vita þetta svo reyndur og gegn sem hann nú er. Þetta á öllum að vera ljóst.
    Mér er alveg sama, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, hvað menn veifa plaggi mikið. Það breytir engu. Hér er verið að tala um að milliþinganefndin endurskoði það kerfi sem við búum við núna og það kemur auðvitað margt til sem hægt er að breyta. (Forseti hringir.) Já, hæstv. forseti, ég skal fara að ljúka þessu. Menn eru margir orðnir órólegir og ég skal fara að ljúka mér af.
    Þetta er ósköp einfalt. Það er nauðsynlegt að það komi aðrir að þessu heldur en beinir hagsmunaaðilar sem hér eiga hlut að máli. Og hverjum er betur treystandi heldur en kjörnum fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi til þess að fara í gegnum þetta mál og finna þá leiðir, ef þær eru til, sem betri kunna að reynast?
    Því hefur alltaf verið haldið fram og ekki síst af hæstv. sjútvrh. að við sem höfum gagnrýnt þetta kerfi höfum aldrei bent á neitt sem ætti að koma í staðinn. Og það eru fleiri sem hafa haft þessa tuggu upp eftir hæstv. ráðherra, að við höfum aldrei bent á neitt sem ætti að koma í staðinn. Ég minni nú hæstv. sjútvrh. á það að meira að segja formaður Alþfl., og langt er nú gengið þá, hæstv. utanrrh., var flm. að breytingum á þessu kerfi á sínum tíma ásamt mér. Og hv. þm. Matthías Bjarnason og ég fluttum ítarlegar breytingartillögur við lögin sem voru hér til umræðu á Alþingi um áramótin 1987/1988 þegar mest gekk á. Þar var bent á ýmsar leiðir sem hefðu betur verið farnar heldur en það kerfi sem við búum við núna þannig að það er hægt að benda á ótal dæmi þess að menn hafi verið með aðrar leiðir heldur en þá helstefnu sem hæstv. sjútvrh. og núv. viðskrh. bjuggu til á sínum tíma og hafa leitt yfir þjóðina.