Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur atriði sem hér hafa komið fram. Það var gagnrýnt, eftir því sem mér skildist á nokkrum þingmönnum, að ég skyldi leyfa mér að segja að greinargerðin væri dæmalaus. Það sagði ég. Ég hef ekki sagt það nokkurn tíma að einstakir þingmenn séu dæmalausir og dytti það aldrei í hug. En greinargerðin er dæmalaus. Ég ætla að lesa nokkur orð upp til að útskýra hvað ég á við þegar ég segi að hún sé dæmalaus:
    ,,Á þessari skipan byggist sú forsjá hafta og miðstýringar sem kvótakerfið er. ... Arðsemissjónarmiðum er kastað fyrir borð. ... Meðalmennskan er færð til vegs og virðingar. Skriffinnskan, smámunasemin, hnýsnin, eftirlitið og gæslan er svo snuðrandi við hvert fótmál. En húsum ríður spillingin lipur og lævís, þessi sígildi fylgifiskur hafta og ofstjórnar í hvaða formi sem er.``
    Svo kemur hér að þetta séu fjörráð við einstakar byggðir. ,,Afleiðingin blasir við í skelfilegri byggðarröskun. ... Það stefnir nú í fullkomið öngþveiti og ráðleysi. ... Það verður að stöðva vitleysuna``, og niðurstaðan er, eins og ég les þessa upptalningu alla, sem ég tel dæmalausa og í reynd ekki hv. þm. og fyrrv. forseta þingsins sæmandi, ,,að taka upp frjálsa samkeppni svo að markaðsöflin fái að njóta sín í aðalatvinnuvegi landsmanna.`` Og þessi frjálsa samkeppni á að koma fram í sóknarstýringu þar sem þeir sem ekki kunna til verka, eins og kemur hér fram, falli fyrir borð. Þetta tel ég dæmalausan málflutning, og ég kveð nú sterkara að orði en það, og dæmalausa greinargerð.
    Ég spurði: Hvað verður um landsbyggðina? Og hv. 1. flm. spurði á móti: Ja, hvernig er með landsbyggðina í dag? Ég veit að þar eru margvísleg vandamál. Þau stafa ekki eingöngu af vandamálum í sjávarútvegi og ég vil minna hv. þm. á að það fer fram þróttmikil atvinnustarfsemi í sjávarútvegi um allt land. En þar steðja að önnur vandamál, m.a. samdráttur í landbúnaði. Fólk gerir aðrar kröfur en áður að vera þar eingöngu sem er hagstæðast til sjósóknar við önnur skilyrði og ófullkomnari fiskiskip. Það vill meiri þjónustu, það vill meiri félagsskap og það vill nútímalegra líf. Þetta er líka vandi landsbyggðarinnar og byggðarinnar í landinu. Hins vegar er það svo að verulegur fjöldi fiskiskipa hefur verið seldur á milli staða og það er einkum út á landsbyggðina sem þau hafa farið. En að leyfa sér að halda því fram, eins og oft er gert í umræðum, að vandi landsbyggðarinnar stafi af því að hér hafi verið tekið upp kvótakerfi er hrein rangfærsla. Ég tel að ef það hefði ekki verið gert hefði staðið mun verr á víðast hvar í landinu. Við skulum heldur ekki gleyma því að nýting þessarar auðlindar varðar ekki bara byggð á einstökum stöðum í landinu heldur í landinu öllu. Og að ætla sér að fara að stýra því með sóknarstýringu, vitandi það að aflabrögð eru mismunandi við landið, stundum eru þau góð við Reykjanes, stundum á Breiðafirði, stundum við Vestfirði, stundum við Austurland, og láta það

síðan ráðast hvernig mönnum gengur og hinir geti bara fallið fyrir borð og taka upp lögmál samkeppninnar, þetta fína lögmál, þá verði allt saman í góðu lagi í okkar landi. Það er nú ekki svo. En auðvitað eru ýmis vandamál á ferðinni og allt er þetta gallað og það stafar af því að við skulum þurfa að takmarka sóknina.
    Ég ætla ekki að fara um þetta mikið fleiri orðum en ég endurtek það að ég tel þessa töflu hér vera villandi vegna þess að við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því, vegna ákvæðanna að því er varðar sóknarmarkið, vegna línuafla að hálfu, vegna smábátanna, þá mundu tölurnar verða hærri og það hefur verið tekið fram að því er varðar nokkur árin hver er sú áætlun. Að vísu er það alveg rétt að hún hefur heldur ekki alveg staðist vegna þess að við höfum ekki komið algerum böndum þar á. Meðan þetta er kynnt með þessum hætti og við vissum að það yrði öðruvísi, þá er sá samanburður villandi, hver svo sem hefur tekið hann saman og í hvaða tilgangi sem hann er settur fram. Það sama á við um yfirlitið um fiskiskipaflota Íslendinga, fyrst og fremst vegna þess að hér á sér stað allt önnur flokkun á fiskiskipum en er í kvótakerfinu. Þetta leiðrétti ég við hv. þm. hér í umræðum á Alþingi fyrir um það bil ári síðan og það kemur mjög skýrt fram í svari til hv. þm. Skúla Alexanderssonar. Ég undrast það að hann skuli ekki vilja taka þessar athugasemdir til greina ef hann vill fyrst og fremst hafa staðreyndir málsins á borðinu. Þetta eru villandi upplýsingar, a.m.k. miðað við framsetningu málsins.
    Það er alveg rétt að flotinn hefur stækkað af ýmsum ástæðum. Það eru gerðar meiri kröfur til aðbúnaðar við menn og það er af hinu góða. Það eru gerðar meiri kröfur að því er varðar meðferð á afla. En staðreyndin er nú samt sú að ef litið er á virðismat fiskiskipa og heildartekjur þeirra eru skoðaðar á föstu verðlagi sl. 17 ár þá kemur í ljós að allt fram til ársins 1984 fylgdist virðismat fiskiskipanna og heildaraflatekjur þeirra að. Eftir 1984 hafa aflatekjur sífellt vaxið umfram virðismat fiskiskipa og eru nú um 34% meiri á fjármagnseiningu en þær voru 1984. Að vísu eru á þessu ýmsar skýringar og mér kemur ekki til hugar að segja að það sé bara vegna þess að hér hafi verið tekið upp kvótakerfi. En það er búið að koma á því kerfi sem hefur stöðvað aukningu flotans með því nú að ná böndum á smábátana. Það var meginmál. Nú hefur það verið gert og engum dettur í hug að ráðast í það nú að láta byggja nýtt fiskiskip. Menn eru að hagræða í þeim stóra flota sem við eigum, sem er góður floti og það er mikil eign í þeim flota. Ég vil ekki að hann verði brenndur eins og ýmsir vilja kannski gera. Það mun taka alllangan tíma að hagræða í þessum flota en við þurfum ekkert á því að halda að byggja hér eitt einasta nýtt fiskiskip á næstu árum. Ég ætla ekki að nefna árafjöldann en a.m.k. á næstu fimm árum þurfum við ekki á því að halda að byggja upp einasta nýtt fiskiskip.