Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir einstaklega ítarlega og greinargóða ræðu og glæsilega framsögu fyrir þessu mikilvæga máli.
    Hinn 16. okt. 1990 greindi ég hv. þingheimi frá því bréfi sem forsetar Alþingis höfðu skrifað formönnum þingflokka um þetta mál svo að ástæðulaust er að endurtaka það hér. Hins vegar ber þess að geta að hv. formenn þingflokka tóku erindum forseta mjög vel og hafa unnið einstaklega gott og markvisst starf alveg síðan þeim var falið að kanna hvort kostur væri á því að nýta þetta síðasta þing þessa kjörtímabils til þess að breyta stjórnarskránni í þá veru að Alþingi yrði ein málstofa.
    Eins og hér hefur komið fram lögðu forsetar mikla áherslu á að þingflokksformenn könnuðu til hlítar um hvaða atriði kynni að vera samkomulag og um hver þau atriði, sem um var rætt, væri slíkur ágreiningur að ekki væri ástæða til þess að hefja mikla umræðu um þau. Þetta hafa þingflokksformenn gert með miklum sóma og skilað hér mjög góðu verki og ber að þakka það sérstaklega. Ég leyfi mér fyrir hönd forseta þingsins að færa hv. 2. þm. Reykn. og öðrum nefndarmönnum miklar þakkir fyrir þetta góða starf.
    Þá ber einnig að þakka starfsmönnum Alþingis sem hafa lagt fram mikla vinnu til þess að þetta mál mætti undirbúa svo sem best færi á. Ég sé ekki annað en það frv. sem hér liggur fyrir beri þess mjög merki að vel hefur verið til verksins vandað. Ég sé enga ástæðu til þess að bæta við það sem hv. 2. þm. Reykn. hefur hér lýst um tilgang þessa verks. Ég vil þó leggja áherslu á að fyrsta markmið þessa verks er að styrkja og efla Alþingi sjálft og stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu og það verður auðvitað ekki gert nema með því að styrkja innviði Alþingis sjálfs.
    Það hefur einnig komið fram í ræðu hv. 2. þm. Reykn. að við teljum að með einni málstofu sé allt verklag hér á hinu háa Alþingi ekki bara einfaldað heldur gert markvissara. En ég vil einnig leggja á það mikla áherslu að með nýjum þingskapalögum, sem þegar hafa verið kynnt drög að, verður vitanlega að tryggja það að ekki einungis meiri hluti njóti sanngjarns styrks síns, heldur verði einnig réttur minni hlutans tryggður. Á þetta hafa allir aðilar að ég hygg lagt mikla áherslu.
    Það er ljóst að á þessu síðasta þingi þessa kjörtímabils er gott tækifæri til að koma fram umbótum á starfsháttum Alþingis þar sem það þingrof sem fylgir í kjölfar breytinga á stjórnarskrá getur nú fallið saman við eðlileg starfslok þingsins að vori og þarf þess vegna ekki að hafa í för með sér neina aðra pólitíska röskun. Ég vil því, hæstv. forseti, skora á hv. þingheim að flýta fyrir að þetta mál nái nú fram að ganga á þessu þingi. Þar með eru forsetar vitaskuld ekki að biðja um að málið fái ekki nákvæma, þinglega meðferð. Ég tek undir þá ósk hv. 2. þm. Reykn. að málið fari til meðferðar í hv. allshn. og síðan hv. allshn. hinnar seinni deildar. En ég held að það væri mjög miður ef þetta mál dagaði uppi á þessu þingi. Við

höfum ekki mikla ástæðu til þess að halda það að vísu því að það er ljóst, sýnist okkur, af þessu verki sem hér hefur verið unnið að þegar um eflingu Alþingis og markvissari vinnu þess í þágu lands og þjóðar er að ræða sýnist ágreiningur hér á hinu háa Alþingi hverfandi.
    Þetta verk hefur átt sér langan aðdraganda og á síðustu árum hefur verið unnið allvel að því að endurskipuleggja alla starfshætti Alþingis hvað varðar starfsfólk og skipulag þinghaldsins. Forsetar vænta þess að menn hafi veitt því athygli að ýmislegt hefur þar horft til framfara og nægir að nefna skipulag og vinnubrögð við nefndir þingsins. Það segir sig hins vegar sjálft að það háir mjög öllu nefndastarfi hversu margar nefndir þingsins eru og því mikið álag bæði á hv. þm. og starfsfólki þingsins. Því treystum við að þetta breytist mjög til batnaðar ef þetta frv. nær fram að ganga og ég endurtek óskir mínar um að hv. þingheimur skoði þetta mál mjög vandlega. Forsetar hafa ekki neina efasemd um að það horfi til bóta fyrir starfsemi Alþingis alla.