Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég mun ekki tala hér langt mál því að hv. frummælandi gerði það ítarlega grein fyrir þeim breytingum sem samkomulag hefur orðið um að flytja á stjórnarskipunarlögunum. En það er þó eitt atriði sem ég get ekki samþykkt og það er sú túlkun hans að það sé, ef ég hef tekið rétt eftir, svipaður réttur áfram til útgáfu bráðabirgðalaga eins og verið hefur. Ég held að það atriði einmitt, að þinginu verði ekki slitið, það standi allt árið, sé einmitt til þess að það sé ekki nema alveg í undantekningartilvikum sem megi gefa út bráðabirgðalög. En að öðru leyti get ég tekið undir hina skýru og skilmerkilegu ræðu sem hv. þm. flutti hér.
    Það er annað mál að ég hefði viljað taka inn mörg önnur atriði sem var ekki samkomulag um og sem er ekki vansalaust, að Alþingi skuli ár eftir ár ekki gera t.d. breytingar á því sem umboðsmaður Alþingis beindi til forseta Alþingis 1988. Það er umhugsunarvert að ekki skuli vera tekið á þeim málaflokkum og ekki skuli vera hægt að fá samstöðu um það vegna þess að ég get ekki skilið það að menn séu ekki alveg sammála um þær breytingar, sammála um breytingar sem í raun og veru eru um ýmiss konar samþykktir og samninga sem við erum aðilar að á opinberum vettvangi.
    Ég ætla aðeins, hæstv. forseti, að lesa hér upphaf að þessu bréfi frá umboðsmanni Alþingis. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, tel ég ástæðu til að vekja athygli á ófullkomnum ákvæðum til verndar mannréttindum í íslenskum lögum. Ég bendi á að í íslensku stjórnarskrána vantar almenn ákvæði um veigamikil mannréttindi.
Sem dæmi má nefna skoðunarfrelsi, jafnrétti, bann við afturvirkum refsilögum, vernd fjölskyldulífs og rétt til réttlátrar meðferðar fyrir dómi.`` Ég held að nokkuð mikið sé um það rætt, t.d. í okkar þjóðfélagi í dag, hvort réttarfarið sé í lagi. Ég hef séð bréf í blöðum sem aðrir alþingismenn munu hafa fengið sem einmitt fjalla um þetta. Enn fremur segir:
    ,,Ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar um félagsleg mannréttindi eru og fábrotin. Mörg mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar eru ófullkomin af ýmsum ástæðum.``
    Ég ætla ekki að lesa meira upp úr þessu bréfi, en það hlýtur að koma til álita í nefndinni að kveðja umboðsmann Alþingis til nefndarinnar til þess að hann útskýri nánar hvað hann þá á við, þ.e. hvernig hann hugsar sér að þessi ákvæði verði sett inn í stjórnarskrá. Það fer ekkert á milli mála hvað hann er að fara efnislega. En það er ekki nóg og það er ekkert víst að það mundi tefja störf nefndarinnar svo mjög þar sem umboðsmaður Alþingis hefur kynnt sér þessi mál og þekkir þau af sínum störfum sem dómari fyrir Mannréttindadómstólnum, eða ég hygg að hann sé þar.
    Hv. 2. þm. Reykn. nefndi ekki að fleiri frv. um breytingu á stjórnarskipunarlögunum liggja hér fyrir

nefndinni og hafa ekki fengið umfjöllun, sem er kannski eðlilegt þar sem að því var stefnt að bíða eftir því sem nefndin mundi verða sammála um. En ég vil minna formann nefndarinnar á það að ég er flm. að frv. um að gera breytingar á stjórnarskránni einfaldari í sniðum og bera síðan þær breytingar undir þjóðina við næstu kosningar og að stjórnarskráin í heild sinni verði í raun og veru þjóðarlög sem þjóðin hefur sjálf samþykkt.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en vil bara ítreka það, og ég mun spyrja eftir því við 2. umr. um þetta mál, hvort umboðsmaður Alþingis hafi verið kallaður til nefndarinnar og hverjar hans tillögur og ábendingar hafa verið, þ.e. ef ekki koma fram brtt. til þess að uppfylla a.m.k. að einhverju leyti þær óskir, þær ábendingar sem koma fram í hans áliti.