Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 01. febrúar 1991


     Flm. (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Í nafni okkar aðstandenda þessa frv. þakka ég þeim þingmönnum sem hafa getað séð af dýrmætum tíma sínum til að vera viðstaddir þessa umræðu. Þeim hefur farið svolítið fækkandi eftir því sem liðið hefur á daginn. Ég þakka líka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni. Þeir hafa talað hér málefnalega um þetta mikilvæga mál, að vísu einn af dálitlum stráksskap, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem mér finnst að vísu ekki passa þegar við erum að ræða um svo mikilvægt mál sem breytingar á stjórnarskránni.
    Það er eitt atriði sem ég vil sérstaklega nefna hér í upphafi að gefnu tilefni. Mér hefur þótt eins og nokkur gagnrýni hafi komið á þessi vinnubrögð, sem svo eru nefnd, sérstaklega kom það fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, og þessi gagnrýni hafi beinst í þá áttina að það sé jafnvel verið að taka fram fyrir hendurnar á stjórnarskrárnefnd. Það er mikill misskilningur. Ég vil taka það skýrt fram að ég sem formaður þessarar nefndar hafði sérstaklega samband við formann stjórnarskrárnefndar, hv. þm. Matthías Bjarnason, og greindi honum frá því hvað við værum að vinna og hann hafði ekkert við þau vinnubrögð að athuga eins og reyndar hefur komið fram í hans ræðu hér núna rétt áðan.
    Þótt segja megi og fullyrða reyndar að hver einasti þingmaður og þeir saman í einhverjum hópi eða hópum geti auðvitað flutt frumvörp um þetta og hitt og þar á meðal breytingar á stjórnarskránni, þá finnst mér ekki eðlilegt að taka þannig fram fyrir hendurnar á stjórnarskrárnefnd. Ég tek það mjög skýrt fram. En í þessu tilviki erum við að fjalla hér um einn alveg afmarkaðan þátt, þ.e. atriði í stjórnarskránni sem varða Alþingi sjálft. Það hefði verið hægt að taka miklu fleiri atriði inn í þetta frumvarp og sem varða Alþingi. Við erum ekki að taka öll. Alls ekki. Og það hefði mátt hugsa sér að taka á þeim með öðrum hætti en hér er gert í þessu frumvarpi en þetta varð niðurstaðan. Og ég vona að ég hafi komið því sæmilega til skila í minni ræðu áðan að þetta eru þau atriði sem samkomulag náðist um í nefndinni. Það er ekki þar með sagt að allir nefndarmenn séu sáttir við nákvæmlega það orðalag sem þarna er. En þetta var það sem samkomulag varð um. Þetta vil ég nú taka sérstaklega fram.
    Ég hlýt líka að nefna, vegna þess að það hefur þannig verið talað um stjórnarskrárnefndina og það kom einnig fram í máli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar eða ég skildi hann svo að það ætti ekki að vera að taka svona mál út úr heldur ætti að líta á þetta heildstætt.
Ég get út af fyrir sig verið honum alveg sammála um það. En ég hef bara af minni reynslu ekki trú á því að við náum samstöðu um nýja stjórnarskrá eða svo miklar breytingar á henni, sem hafa verið lagðar fram áður og ég veit að unnið er að núna í stjórnarskrárnefndinni, að það réttlæti það að bíða með allt annað sem við kunnum að ná samstöðu um. Og þar tek

ég undir síðustu orð sem hv. þm. Stefán Valgeirsson mælti hér áðan, að stutt skref eru betri en engin og ég tel að við séum að stíga einmitt slík skref.
    Þá kem ég að því sem hann sagði reyndar í fyrri ræðu sinni og benti á að hann hefði viljað taka inn fleiri atriði sem ekki varð hins vegar samkomulag um og nefndi þar sérstaklega erindi umboðsmanns Alþingis um mannréttindamál. Ég get verið hv. þm. alveg sammála um það að út af fyrir sig hefði það verið æskilegt að taka slíkar breytingar inn í þetta frumvarp. En ég bendi bara á að við vorum að fást við atriði sem vörðuðu Alþingi og þetta þótti okkur vera svona nokkuð til hliðar við það viðfangsefni okkar og við vissum ekki alveg hvar við mundum enda ef við færum að taka slíka þætti inn, jafnvel þótt nefndarmenn gætu verið um þá sammála.
    Mér finnst gagnrýni hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar á forseta þingsins, að þeir skuli hafa fundið það upp hjá sér, eins og hann orðaði það, að skipa nefnd til að semja frumvarp um þessi atriði, mér finnst sú gagnrýni óréttlát. Mér þykir það mjög eðlilegt að forsetar þingsins, sem finna kannski best hvar skórinn kreppir í sambandi við starf þingsins, taki sig saman um það að undirbúa með einum eða öðrum hætti breytingar á starfsemi þingsins. Þeir völdu þessa leið, að biðja þingflokksformenn um að hafa um þetta forustu og kanna í sinn hóp hver samstaða gæti orðið um það meginviðfangsefni að koma þinginu í eina málstofu, og síðan voru í bréfi forsetanna, eins og ég greindi hér frá í ræðu minni áðan, talin upp ýmis atriði sem æskilegt væri að athuga hvort samstaða yrði um, en ef ekki yrði samstaða um slík atriði þá yrðu þau geymd. Og það er einmitt svona sem nefndin vann.
    Ég tek enn fram að mér sýnist engin ástæða til þess að segja að gengið hafi verið fram hjá stjórnarskrárnefnd eða gengið inn á hennar starfssvið.
    Ég bendi á líka í þessu samhengi að einu breytingarnar sem í raun og veru hafa verið gerðar á stjórnarskránni gegnum árin eru breytingar sem varða kjördæmaskipanina og þær breytingar hafa, ég held aldrei verið gerðar að tillögu einhverrar stjórnarskrárnefndar. Þær hafa margar starfað í gegnum árin eins og við vitum. Þær breytingar hafa ekki verið gerðar að tillögum stjórnarskrárnefndar. Það hafa yfirleitt aðrir komið til. Ég minni bara á síðustu breytingar. Ég þekki það mjög vel. Fyrst unnu þingflokksformenn einmitt að þeim breytingum. Síðar tóku formenn stjórnmálaflokkanna sem þá áttu fulltrúa á Alþingi við og gengu endanlega frá málinu.
    Þetta er alveg hliðstætt við það sem hér gerist. Að frumkvæði forseta þingsins taka þingflokksformenn þetta undirbúningsstarf að sér og ég sé satt að segja enga ástæðu til þess að vera að hafa uppi gagnrýni og stór orð um þetta framtak forsetanna. Mér þykir það virðingarvert að þeir skuli hafa tekið sig saman um að gera þetta.
    Ég þakka sérstaklega hæstv. forsrh. fyrir hans ræðu hér. Hann tók undir öll meginatriði frv. okkar og lýsti stuðningi við þau. Ég fann að því í upphafi ræðu minnar að fáir ráðherrar væru hér inni, aðeins tveir,

og nú er enginn. Ég veit að hæstv. forsrh. er bundinn annars staðar þannig að ég er ekki að finna að því að hann sé farinn af vettvangi, en hæstv. forsrh. sagði að það hefði stuðning hjá ráðherrum, eða ég skildi hann svo að alla vega hann væri því fylgjandi að ráðherrar væru ekki jafnframt þingmenn. Sú tillaga var á borði þessarar nefndar en ekki náðist um hana full samstaða þannig að við hættum við að flytja þá tillögu. Ég hef ekki farið út í það að skýra frá því hvað ágreiningur var um, ég sé það ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi og ætla að sleppa því. En að þessu gefna tilefni frá hæstv. forsrh. segi ég frá því að um þetta var rætt og í raun og veru var breið samstaða um það í hópi þingflokksformanna, en það var vitað að svo mikill ágreiningur er um það í þingflokkunum að við töldum ekki rétt að flytja þá tillögu. Ég hef áður lýst því úr þessum ræðustól að ég er fylgjandi þeirri skipan, en hef jafnframt sagt að það væri kannski ekki rétti tíminn til þess að koma þeirri breytingu á núna. Ég teldi réttara að nota tækifærið þegar --- ég segi þegar, við breytum kjördæmaskipaninni. Ég er alveg sammála hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að kjördæmaskipanin sem við búum við í dag stenst ekki og henni hlýtur að verða breytt. Við eigum alveg eftir að ræða með hvaða hætti og þar kann menn að greina mjög á, en ég teldi að um leið og við breytum kjördæmaskipan, þá eigum við að fækka þingsætum og þá eigum við að koma á þeirri skipan að þingmenn sem verða ráðherrar segi af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherradómi. Ég tel það rétta tímann til þess að koma þeirri skipan á. Ég skal ekki orðlengja meira um það, enda er það ekki á dagskrá núna.
    Hæstv. forsrh. minntist á 7. gr. frv. þar sem segir: ,,Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið.`` Þessa grein þarf að skoða í samhengi við 4. gr. þar sem breytt er ýmsum frestum, þar á meðal því að ekki geti liðið meira en fjórir mánuðir frá því að þing er rofið þar til það kemur saman að nýju, en nú eru það átta mánuðir eins og ég tók fram í minni ræðu í dag.
    Hæstv. forsrh. minntist líka á kosningalagafrv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft hér í undirbúningi og hefur samþykkt að leggja fram sem stjfrv. Ég vil aðeins upplýsa að það er a.m.k. rúm vika síðan það frv. var afgreitt í þingflokki sjálfstæðismanna. Þingflokkurinn fékk það sent frá hæstv. dómsmrh. Við afgreiddum það sem sagt fyrir einum tíu dögum og veittum okkar samþykki fyrir því að það mál yrði flutt hér þó að við ráðum því auðvitað ekki, en viljum leggja okkar af mörkum til þess að það frv. í núverandi eða breyttri mynd verði að lögum á þessu þingi.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson kvaðst ekki geta samþykkt þá túlkun mína um heimild til útgáfu bráðabirgðalaga sem ég setti hér fram, þ.e. að rétturinn til útgáfu bráðabirgðalaga sé svipaður og áður. Ég viðhafði þau orð og sagði að það væri ekki verið að þrengja rétt ríkisstjórnar til útgáfu bráðabirgðalaga og

ég lít svo á að það sé í sjálfu sér ekki verið að þrengja þennan rétt. En af sjálfu leiðir að meðan þingið situr allt árið hlýtur hver ríkisstjórn sem situr á hverjum tíma að hika mjög við það að nota réttinn með sama hætti og við þekkjum þó að hefur verið gert. Ég nefndi að það væru sex dæmi þess síðustu 20 árin að bráðabirgðalög hafa verið gefin út í þinghléi, þ.e. þegar frestað hefur verið þingi með þál. Þá er ég að tala um í jólahléum. Það eru sem sagt sex dæmi um það og þótt það hafi alltaf verið umdeilt hvort þetta sé heimilt, þá hefur nú verið litið svo á í raun og veru. Ég man eftir mörgum þrætum hér fyrir jólaleyfi þingmanna þar sem þess hefur verið krafist af stjórnarandstöðu að ríkisstjórn lýsi því yfir að hún muni ekki gefa út bráðabirgðalög í jólahléi. Þær yfirlýsingar hafa held ég aldrei verið gefnar. Ríkisstjórn hefur ekki viljað afsala sér þessum rétti sem hún hefur talið sig hafa.
    Ég vona að þessi ákvæði sem við höfum orðið sammála um verði til þess í raun að bráðabirgðalög verði ekki gefin út með svo frjálslegum hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum. Ég er ekkert að tala um árið í ár, menn mega ekki misskilja það. Ég tel að það hafi verið farið of frjálslega með þessi réttindi sem ríkisstjórn hefur og tel að við eigum að láta af þeim ósið að gefa út bráðabirgðalög þegar þing er í hléi. Ef þessar brtt. okkar verða samþykktar á að vera hægurinn hjá að kalla þingið saman til þess að fjalla um löggjöf sem ríkisstjórnin telur sér á hverjum tíma nauðsyn á að fá samþykkta. Ég gat ekki um það, taldi að menn skildu það, og auðvitað gera menn það, að þegar og ef sú skipan kemst á að þingið situr allt árið er það miklu léttara verk að kalla þingið til aukafunda á miðju sumri eða hvenær sem er. Þá þarf ekki að byrja á því að kjósa forseta þingsins og í allar nefndir. Það er hægt að ganga beint að verki og taka á dagskrá það mál sem á að afgreiða. Þetta tel ég allt eigi að leiða til þess að menn hætti bráðabirgðalagaútgáfu, en ég gat fallist á það að rétturinn til útgáfu bráðabirgðalaga yrði ekki afnuminn núna þótt ég hefði áður látið í ljós þær skoðanir mínar að þann rétt eigi að afnema með öllu.
    Ég ætla ekkert að fara að deila við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson um einstök atriði sem hann nefndi hér, enda er ég mörgum þeirra sammála. Við getum t.d. rætt það hvort það sé skynsamlegri leið að kjósa til þingdeilda með breytilegum hætti. Það er alveg sjónarmið að hafa þingið í tveim deildum. En þann hátt sem við höfum á því núna tel ég algerlega úrelt fyrirkomulag sem við eigum að afnema og á því eru okkar tillögur byggðar. En það er sjónarmið út af fyrir sig og rétt hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það eru kannski fleiri þing en færri í heiminum sem eru deildaskipt, en ekki með þeim hætti sem okkar þing er nema norska þingið sem skiptir sér sjálft, eins og ég gat um í minni ræðu áðan, en hefur allt annað fyrirkomulag á sínum störfum en Alþingi. Og satt að segja tala norskir þingmenn ekki með neinni sérstakri virðingu um sínar deildir. Þar sem fjórðungur þingmanna situr í því sem kallað var lögþingið, þykir

mönnum afskaplega ómerkilegt að eiga sæti í raun og veru því að þar eru haldnir svona 5 -- 10 mínútna fundir og málum rúllað í gegn. Þeim þykir það ekki til sóma og eiga erfitt með að svara ef þeir eru spurðir hvers vegna þeir hafi ekki breytt þessu. Ég kann ekki að svara því.
    Ég ætla heldur ekkert að fara að ræða hér um þriðja stjórnsýslustigið og að hin ýmsu svæði hafi jafnmikið að segja hvert um sig um sín málefni. Þetta eru allt saman atriði sem eiga vissulega erindi í umræðu hér á hv. Alþingi. En það er ekki efni þessa máls, en á, eins og ég segi, auðvitað erindi í alvarlega umræðu hér í þinginu og þá ekki síður kjördæmaskipulagið sem hv. þm. minntist á.
    Hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni þótti líka einkennilega að verki staðið og vísaði þar til stjórnarskrárnefndarinnar. Ég hef þegar svarað því. Hann talaði um að hér væru tekin út úr ákvæði sem flestir alþingismenn væru í sjálfu sér sammála um. Ég bið hv. þm. aðeins um að athuga það að við erum að stíga ákveðin skref og ef við erum sammála um þau þá eigum við ekki að láta það standa í vegi fyrir afgreiðslu málsins að við teljum að fleiri ákvæði hefðu átt rétt á því að vera til umfjöllunar og afgreiðslu.
    Um þá tillögu okkar, eins og við orðum það, að úrelt ákvæði um eiðvinningu þingmanna falli brott, þá er þar í sjálfu sér ekkert ofsagt. Við teljum þetta vera úrelt ákvæði vegna þess að eiðvinning nýrra þingmanna á sér ekki stað og hefur ekki gert ég veit ekki hve lengi. Þingmenn undirrita hins vegar drengskaparheit um að halda stjórnarskrána og það er það atriði sem við leggjum til að standi eftir í greininni vegna þess að hitt er ekki notað. Og þess vegna er það kallað úrelt, það er einfalt mál. ( Gripið fram í: ... að sverja eið.) Já, en það eru bara sumir ekki tilbúnir að sverja eið af vissum ástæðum, t.d. vilja menn ekki af trúarástæðum sverja eið. En þeir eru tilbúnir að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni og um það hafa menn átt val. Þetta er saga málsins.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson tók fram að hann ætlaði ekki að fara út í neina efnisumræðu um málið. Hann hefur efasemdir um ágæti þessarar megintillögu að þingið verði í einni málstofu. Hann tók fram að hann væri ekki sérstaklega að mæla á móti tillögunni en færði eitt og annað fram sem hann taldi mæla með því að við héldum óbreyttri skipan. Ég þykist hafa fært hér fram mörg og veigamikil rök fyrir okkar tillögum og ég verð aðeins að harma það ef þau ná ekki til hv. þm. og duga honum ekki til þess að hann fallist á okkar viðhorf. Það vantar þá eitthvað í sannfæringarkraftinn hjá mér og ég verð að una við það. Ég skildi hins vegar ræðu hv. þm. þannig að hann væri reiðubúinn að athuga þetta atriði betur en taldi sig þurfa betri tryggingu fyrir því að nefndastörfin sérstaklega yrðu skilvirkari við þessa breytingu en hann sæi eins og málin lægju fyrir nú. Ég get ekki annað sagt en það að ég vildi gjarnan geta sannfært menn um að sú trygging yrði fyrir hendi að nefndastörfin yrðu skilvirkari. Ég get t.d. ekki hugsað mér að það geti orðið svo áfram sem við höfum búið við

að við getum drifið hér frv. í gegnum þrjár umræður með afbrigðum á einum og sama deginum. Oftast réttlæta menn það með því að það hafi áður gengið í gegnum fyrri deildina með því sem við getum kallað ,,eðlilegum`` hætti, en ég vil þó hafa orðið eðlilegum í gæsalöppum. Þetta er því miður allt of algengt að frv. fari jafnvel á sama degi --- ég er nú kannski að segja aðeins of mikið, ég hef ekki alveg í huga neitt dæmi um að frv. hafi farið í gegnum báðar deildir þings með afbrigðum á einum og sama degi. Þó hygg ég að slíkt dæmi megi finna um frv. sem ekki hefur verið ágreiningur um.
    Ég vil tryggja það í nýjum þingskapalögum að þetta geti ekki gerst. Það hafa verið uppi hugmyndir hjá okkur um tryggingar í þessum efnum, t.d. að afbrigði verði ekki veitt nema þá með auknum meiri hluta, t.d. 2 / 3 hlutum atkvæða. Og ég er ekkert viss um einu sinni að það eigi að opna fyrir þann möguleika að veita afbrigði um greiðari leið frv. í gegnum þingið, þegar það er orðin ein málstofa, með auknum meiri hluta. Ég hef um það ákveðnar efasemdir og tel heppilegast að það fari að þingskapalögum um þann tíma sem verður að líða milli umræðna. Ég skýrði frá því í fyrri ræðu minni að eitt með öðru sem á að tryggja vandaðri meðferð í þingnefnd er það að mál fari líka til nefnda eftir 2. umr. og það sé jafnvel hægt að stöðva afgreiðslu máls við 3. umr. Ef samþykktar hafa verið brtt. þá, þá sé hægt að fresta máli og koma því enn til nefndar. Þetta tel ég ákveðna tryggingu en ég get alveg fallist á það að við þurfum frekari tryggingar en þessar fyrir því að málum sé ekki hraðað svo hér í gegnum þingið að í raun og veru sé til vansæmdar eins og allt of oft hefur orðið í því skipulagi sem við búum við núna.
    Alveg á sama hátt vil ég sjá í þingskapalögum skýr ákvæði um það hvaða tími verði að líða frá því að frv. er lagt fram og þar til það er tekið til umræðu. Ég vil að við tryggjum að framkvæmdarvaldið geti ekki, eins og hér hefur verið sagt í dag, vaðið svo yfir löggjafarvaldið sem það hefur svo oft gert. Ég vil tryggja það og ég heyri að það er eitt meginatriðið í málflutningi hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og undir það tek ég af heilum hug. Sannleikurinn er sá að það sem við erum að gera hér með þessu frv. er að treysta stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. En ég tek það fram að frá mínum sjónarhóli göngum við ekki nægilega langt. Við göngum ekki nægilega langt í þeim efnum en ekki varð samstaða um að ganga lengra. Og ég segi eins og hér hefur annar maður sagt, að þótt skrefin séu ekki löng þá eigum við samt að taka þau. Þau eru áfangi að settu marki.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og hlýtt á hana. Ég segi enn og aftur að mér þykir miður að hv. þingdeildarmenn sýni þessu máli ekki meiri áhuga en hér kemur í ljós, en vel má vera að það sé vegna þess að þingfundur er nú á afbrigðilegum tíma, á föstudegi, og þessi dagur var ekki ætlaður í starfsáætlun þingsins sem þingfundardagur. Það var ákveðið nú fyrr í vikunni. Það kann að vera ástæðan fyrir því að svo fámennt er hér og ég vona satt að segja að það sé ástæðan en ekki áhugaleysi þingmanna fyrir þessu mikilvæga máli.