Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Mark Twain sagði einu sinni: ,,Allir tala um veðrið en enginn gerir neitt í málinu.`` Það kann að vera að hér sé einmitt um þetta að ræða. En mig langar til þess að vekja í örstuttu máli athygli á einum þætti sem er mjög nauðsynlegur þegar horft er til þeirra atburða sem áttu sér stað núna um helgina, en það eru rannsóknir á eðli storma og þeirra gífurlegu krafta sem þeir leysa úr læðingi, þ.e. að efla og auka þekkingu þeirra sem fást við hönnun mannvirkja sem eiga að standast vindálag, slíkt ógnarálag sem við urðum öll vitni að hér um helgina.
    Á þessu sviði hefur verið unnið merkt brautryðjendastarf á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands, en því miður hafa þær rannsóknir liðið fyrir fjárskort og ekki verið hægt að efla þær sem skyldi. Því vil ég nota þetta tækifæri til að beina því til hv. alþm. að næst þegar farið er fram á fjárveitingar til þess að standa straum af kostnaði vegna þessa mikilvæga verkefnis, þá fái slíkt erindi jákvæða umfjöllun.