Ástandið í fjarskiptamálum
Mánudaginn 04. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég tek það nú fram að ég tala hér sem ráðherra fjarskiptamála en ekki Veðurstofunnar, enda var sú stofnun flutt undan samgrn. á síðasta ári þó ekki verði nú séð að það hafi orðið til mikilla bóta hvað veðrið snertir.
    En það er ýmislegt í rekstri og uppbyggingu fjarskiptakerfisins sem getur hjálpað til í þessum efnum
þó að ég sé sammála þeim sem hér hafa talað um það að eina varanlega og fullkomna lausnin er að endurbyggja öfluga langbylgjusendistöð sem næst útvarpinu sjálfu, þá eru ýmsir fleiri möguleikar sem hér geta komið að gagni og styrkt útsendingarmöguleika útvarps við svona aðstæður, til að mynda uppbygging á miðbylgjusendum í landshlutunum og í gegnum fjarskiptakerfið að öðru leyti.
    Við höfum verið minnt á það rækilega undanfarnar vikur, ekki bara í þessu áhlaupi, heldur áður að þrátt fyrir tækniframfarir er okkar fjarskiptakerfi að ýmsu leyti viðkvæmt og það þarf að stefna að því að auka þar öryggi og byggja á meiri möguleikum þegar einhverjir detta út. Ég held að hringtenging landsins með ljósleiðurum sé mjög stór áfangi í þeim efnum. Menn geta gert sér í hugarlund ástand á símamálum ef við hefðum í dag eða fyrir nokkrum vikum síðan í ísingarveðrinu þá búið við línur á landi eins og við gerðum hér áður í þeim efnum.
    Ég held að uppbygging varajarðstöðvar sé eitt allra brýnasta mál fyrir utan þetta sem lýtur að öryggiskerfi útvarpsins. Og að koma upp annarri jarðstöð á einhverju því landshorni sem er ólíkast suðvesturhorninu hvað veður snertir er að mínu mati mjög brýnt.
    En að sjálfsögðu eru samgrn. og Póstur og sími tilbúin til samstarfs um að leysa úr þessum málum eftir föngum og ég er tilbúinn til að skoða það að fjárfestingaráætlun Pósts og síma verði að einhverju leyti hnikað til til þess að unnt sé að taka þátt í samstarfi um úrbætur á þessu sviði.