Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Frsm. landbn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. landbn. þessarar hv. deildar um frv. til laga um Héraðsskóga.
    Nefndin hefur fjallað um frv. á tveimur þingum, í fyrra skiptið á sl. vori þegar nefndin sendi frv. til umsagnar áhuga - og hagsmunaaðila um land allt og svo aftur á yfirstandandi þingi nú á síðustu vikum.
Þegar frv. var lagt fram á síðasta þingi gerði 4. gr. þess ráð fyrir að ríkið greiddi 100% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 80% á eyðijörðum. Í 4. gr. þess frv. sem nú liggur fyrir og hér er fjallað um eru þessi hlutföll lækkuð niður í 90% fyrir jarðir í ábúð og 70% fyrir eyðijarðir. Að öðru leyti er frv. að mestu í sömu mynd og það var þá.
    Við vinnu landbn. nú var stuðst við umsagnir frá síðasta þingi, þ.e. 112. þinginu. Umsagnir bárust þá frá Skipulagi ríkisins, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Náttúruverndarráði, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Stéttarsambandi bænda, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Búnaðarsambandi Austurlands, Félagi skógarbænda á Héraði og Búnaðarfélagi Íslands. Á þessu þingi hafa umsagnir borist frá Félagi skógarbænda á Héraði, Skógræktarfélagi Austurlands og Helga Gíslasyni verkefnisstjóra.
    Nefndin fékk nú á sinn fund Helga Gíslason, verkefnisstjóra Héraðsskóga, og Hauk Halldórsson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda.
    Þeirri skerðingu sem gert var ráð fyrir í frv. við framlagningu þess í haust á hlut ríkisins borið saman við frv. á síðasta þingi hafa skógarbændur á Héraði mótmælt og telja hana verða til þess að einungis 20% þeirra bænda sem upphaflega ætluðu að taka þátt í verkinu Héraðsskógar muni halda áfram við þær aðstæður. Undir þá skoðun tók einnig Helgi Gíslason verkefnisstjóri og Skógræktarfélag Austurlands og fleiri.
    Landbn. tekur undir þessi sjónarmið en til að ganga bil beggja er lagt til að skipting kostnaðar verði í hlutföllunum 97% fyrir jarðir í ábúð og 75% fyrir eyðijarðir. Til að bæta nokkuð stöðuna í framtíðinni til ræktunar nýrra skóga leggur nefndin til þá breytingu á 5. gr. frv. að í stað þess að 15% af tekjuafgangi skóganna fari til ríkissjóðs verði miðað við 30%.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með áðurgreindum breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn, þeir Skúli Alexandersson, Egill Jónsson, Jón Helgason, Valgerður Sverrisdóttir, Karvel Pálmason, Danfríður Skarphéðinsdóttir og Þorv. Garðar Kristjánsson.
    Herra forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir því að hv. landbn. skilar hér sameiginlegu áliti og þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir þá afstöðu og fyrir starfið í nefndinni við afgreiðslu þessa frv. Ég tel að hér sé um mjög mikilsvert mál að ræða sem stuðlar að leið til ræktunar og nýtingar okkar lands, leið

sem beðið hefur verið eftir að farin yrði um nokkuð langan tíma, kannski í rúma öld. Í Aldamótaljóðum orti Hannes Hafstein um lundi nýrra skóga. Kannski hefur sú leið sem hér er lagt til að farin verði ekki verið tímabær fyrr en nú.
    Grundvallarforsenda þessa frv. er í fyrsta lagi að bændur leggi land sitt undir skógrækt. Þar með hafa þeir bundið sitt land næstu áratugina frá annarri notkun og á þeim tíma skilar landið bændum litlum sem engum tekjum. Og í öðru lagi að ríkið veiti verkefninu öflugan stuðning meðan uppbygging skóganna fer fram.
    Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið athugað til að stuðla að áframhaldandi nýtingu landsnytja og fjárfestinga sem eru fyrir hendi úti um okkar dreifðu byggðir. Sumt hefur verið lagt þannig fyrir að það skilaði jafnvel tekjum áður en rekstur hæfist, hvað þá um fyrirhugaða arðsemi. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir tekjum á næstu árum, aðeins fyrir kostnaði í nokkuð mörg ár. Það er því mikilsvert að þessu frv. er fylgt héðan með samhuga stuðningi landbn. og vonandi allra hv. þm. hér í Ed. Sjálfsagt mun ekki af veita en það tryggir kannski og er vísbending um að okkar framtíðarsýn um ræktun nytjaskóga á Íslandi er að hefjast og verður í framtíðinni mikilsverður þáttur í okkar landsnytjum.