Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Egill Jónsson :
    Herra forseti. Ég á það erindi eitt hingað upp í ræðustól að þessu sinni að færa samnefndarmönnum mínum í landbn. Ed. þakkir fyrir afgreiðslu þessa máls og fyrir ánægjulegt samstarf í landbn. að þessu máli. Það er sérstök ástæða til þess að færa formanni nefndarinnar þakkir fyrir lipurð í þessu starfi, ekki síst vegna þess að framgangur þessa máls átti náttúrlega allt sitt undir því að það yrði samkomulag um það á Alþingi. Það skiptir hér grundvallarmáli að óskum skógarbænda á Austurlandi hefur verið mætt að svo miklu leyti sem var samrýmanlegt sanngirnissjónarmiðum um hlutdeild ríkisins í þessu starfi. Það er að sjálfsögðu augljóst mál að það skiptir ekki svo miklu máli hvort um 97% þátttöku yrði að ræða eða 100%. Aðalatriðið er að samkomulag varð um málið.
    Ég tek undir orð formanns landbn. að í skógræktarmálum á Íslandi vil ég líta svo á að sé brotið nokkurt blað með þessu frv., ef að lögum verður, og því starfi sem af því kann að leiða. Hér er í fyrsta sinn lögfest að hafist skuli handa um skógarbúskap sem slíkan þótt fyrr hafi verið tekið til við skipulagðar ræktunaráætlanir í skógrækt. Ég er sannfærður um að þetta mál á eftir að skila Austurlandi miklum árangri og ég vona að það verði fyrirmynd að hliðstæðum verkefnum í öðrum byggðarlögum. Þess vegna ríður mikið á að vel takist til við þessa framkvæmd. Það þarf að vanda þessa ræktun ekki síður en aðra ræktun. Auðvitað eru íslenskir bændur vel í stakk búnir til þess að taka til hendinni í þeim efnum því að ræktun, þótt sé með misjöfnum hætti, byggist að sjálfsögðu á sömu grundvallarviðhorfum. Af þeirri ástæðu er hægt að fullyrða með nokkurri vissu að þessi mál muni ganga vel fram í höndum austfirskra bænda. Þetta er þýðingarmikið framhald af þeim ákvörðunum sem teknar voru með því að flytja Skógræktina austur á land.
    Ég vona að reynslan eigi eftir að sýna það að hér sé um hið besta mál að ræða. Ég endurtek þakklæti mitt til samnefndarmanna minna í þessum efnum og að ógleymdu þakklæti til hæstv. landbrh., sem hlýðir á þessa umræðu, fyrir mikilvægan þátt hans í framgangi þessa máls.