Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það hefur margoft verið bent á nauðsyn þess að samræma lög og reglur um fjárfestingu erlendra aðila í íslensku atvinnulífi því gildandi ákvæði hafa verið mjög óljós og ósamstæð. Að því leyti ber að fagna því að sett sé heildarlöggjöf um það efni. Ég get þó ekki sagt að ég sé sammála þeirri niðurstöðu sem kemur fram í frv. sem hér er til umræðu.
    Ég er sammála megintilgangi frv. eða því leiðarljósi, sem lagt er til grundvallar, að Íslendingar haldi yfirráðum yfir auðlindum sínum en ég tel að því miður náist það ekki fram með þessu frv. Tilgangurinn er góður en ég efast stórlega um að hann náist með þessu frv.
    Lítum nú á 4. gr. frv. sérstaklega, sem hlýtur að vera mikilvægasta grein þess, og athugum fyrsta liðinn. Þar er gert ráð fyrir að íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar, sem hér eiga heima, hafi einir rétt til þess að stunda fiskveiðar í landhelgi Íslands. Þessu er ég alveg sammála því og tel að það eigi að útiloka að erlendir aðilar geti átt eignarhlut í íslenskum fiskiskipum sem stunda veiðar í íslenskri landhelgi.
    Ákvæði frv. um fiskvinnslu eru hins vegar mjög óljós og vil ég í því sambandi benda á að það er mjög erfitt að gera greinarmun á því hvenær erlend fjárfesting er leyfð og hvenær ekki. Það kemur t.d. fram að erlendir aðilar mega eiga fyrirtæki sem flytja út ferskan fisk og þeir geta átt fyrirtæki sem setja fisk í neytendaumbúðir og til frekari vinnslu. Ég er ósammála þessu. Ég tel að aðalútflutningsiðnaður okkar eigi að vera í höndum Íslendinga og að það fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir muni auðvelda erlendum hagsmunaaðilum að ná tökum á fiskafla og þá um leið á fiskveiðum. Þó það yrði með óbeinum hætti.
    Ég vil benda á að það hefur komið fram hjá mörgum, bæði talsmönnum atvinnurekenda og samtaka í sjávarútvegi, að erfitt muni reynast að koma í veg fyrir ítök útlendinga í sjávarútvegi, einnig fiskveiðum, ef opnað verði fyrir erlenda fjárfestingu í atvinnulífi og þjónustugreinum. 2. tölul. 4. gr. er mjög óskýr og opnar fyrir innkomu erlendra aðila í fiskveiðilandhelgina. Þess vegna get ég alls ekki fallist á þennan tölulið óbreyttan. Ég held einnig að eignaraðild útlendinga að fiskvinnslufyrirtækjum muni ýta undir það að meiri aðgreining verði á þessum þáttum, þ.e. fiskvinnslu og útgerð. En í meiri hluta fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi eru veiðar og vinnsla á hendi sama aðila og yfirleitt er það talið treysta rekstur viðkomandi fyrirtækja og hamla jafnframt að einhverju leyti útflutningi á ferskum fiski.
    Ég get því alls ekki verið sammála því hvernig þarna er með farið og hefði talið miklu heppilegra að öll fiskvinnsla væri á hendi Íslendinga en ekki grautað svona saman eins og þarna er gert ráð fyrir. Hef ég enga trú á að það sé nokkur lifandi leið að halda þessu aðgreindu. Ég tel einnig mjög vafasamt að frekari vinnsla sjávarafurða geti verið í höndum erlendra

aðila að svo miklu leyti sem þarna er gert vegna þess að það mun geta orðið til þess að við missum alla möguleika á því að hér geti skapast frekari úrvinnsla á sjávarafla. Einnig tel ég að það ákvæði að erlendir aðilar geti átt fyrirtæki sem flytja út ferskan fisk sé mjög hættulegt fyrir greinina og með því munum við tapa yfirráðunum yfir auðlindinni sem er meginmarkmiðið með þessu frv.
    Ef litið er aðeins nánar á frv. þá gerir það ráð fyrir mikilli rýmkun að því er varðar íslenska viðskiptabanka. Ég tel að það atriði þurfi að kanna nánar og vil í því sambandi benda á að opnun á bankakerfinu og íslenskum fjármagnsmarkaði getur haft ýmsa hættu í för með sér ef ekki er að gáð. Langar mig í því sambandi að spyrja hvort einhver athugun hafi verið gerð á hugsanlegum áhrifum á íslenskt efnahagslíf ef bankakerfið er opnað. Hér er einungis gert ráð fyrir 25% eignarheimild í bönkum en samkvæmt þeim samningum sem verið er að gera við Evrópubandalagið er gert ráð fyrir að erlendir bankar geti starfað hér óhindrað. Þessi ákvæði mundu því einungis ná til tiltölulega mjög fárra landa miðað við það hversu margir munu geta stofnað hér banka ef af samningum um evrópskt efnahagssvæði verður. Þar er gert ráð fyrir að Íslendingar taki yfir öll lög Evrópubandalagsins. Þau gera ráð fyrir að ef banki hefur leyfi til að starfa í einu landi þá hafi hann leyfi til að starfa í öðru. Þarna er því mjög mikið ósamræmi.
    Það sem ég hef áhuga á að vita er hvort reynt hefur verið að meta áhrifin á íslenskt efnahagslíf af því að opna bankakerfið á þennan hátt. Það er vert að minna á að íslenska bankakerfið hefur veitt fyrirtækjum í landinu nauðsynlega fyrirgreiðslu. Sparifé landsmanna er bakhjarl þeirra aðgerða. Þeir sem koma nýir inn á fjármagnsmarkaðinn hafa engar þess háttar skyldur og geta því laðað til sín sparifé en skilið innlendu bankana eftir með vandamál atvinnulífsins. Þetta finnst mér mikilvægt að athuga vel áður en farið er út í slíka opnun sem gert er ráð fyrir í frv. og reyndar enn frekar að því er varðar evrópskt efnahagssvæði.
    Ein af þeim atvinnugreinum sem mikið er horft til núna er ferðaþjónusta. Nú er gert ráð fyrir að erlendir aðilar geti orðið aðilar að þess konar fyrirtækjum. Ég velti því fyrir mér hvort menn séu búnir að gera sér grein fyrir hvaða áhrif þetta muni geta haft á þá atvinnugrein. Í því sambandi bendi ég á að kröfur flestra í greininni sjálfri eru að minnka umsvif erlendra aðila hér á landi. Á þetta ekki síst við um ferðaskrifstofur þar sem þeirra fulltrúar hafa lagt höfuðáherslu á að fyrirtæki í ferðaþjónustu verði í höndum Íslendinga, sérstaklega að því er varðar ferðir innan lands. Mig langar til að vita hvernig þetta hefur verið hugsað og hve mikil samvinna hefur verið höfð við t.d. aðila í ferðaþjónustu varðandi þetta atriði og kannski enn frekar að spyrja hvort einhver takmörkun sé á þessu sviði varðandi evrópska efnahagssvæðið. Ég vil benda á að þarna er um nýtingu á mjög verðmætri auðlind að ræða, landinu, því að ferðaþjónusta byggir auðvitað fyrst og fremst á íslenskri náttúru og landinu. Þess vegna megum við ekki horfa

fram hjá þeirri auðlind þegar við erum að meta það með hvaða hætti við tryggjum yfirráð Íslendinga yfir auðlindum landsins.
    Ég sé heldur ekki nægilega vel tekið á þeim atriðum sem ég hef verulegar áhyggjur af. Það er almenningurinn, það er jarðvarmi, það eru fallvötn. Við getum tekið hálendið sem dæmi. Það getur verið mjög erfitt fyrir Íslendinga að krefjast þess að þeirra sé rétturinn þar ef á að hleypa erlendum aðilum t.d. inn í ferðaþjónustu án þess að þar sé tekið á hver hafi afnotarétt. Það er ekki einkaréttur á hálendinu og þar af leiðandi getur verið mjög erfitt að henda reiður á þessu.
    Ég bendi einnig á, og það kom reyndar fram hjá síðasta ræðumanni, að mjög er óljóst hvort frv. um yfirráðarétt yfir jarðvarma og fallvötn og fleiri þætti, sem er til meðferðar í iðnn. þessarar deildar verður afgreitt á þessu þingi. Ekki virðist vera samkomulag um það meðal allra sem í nefndinni eru að svo verði gert. Þess vegna finnst mér það atriði ákaflega óljóst.
    Ef þetta frv. verður að lögum þá er tekið mjög stórt skref í einu í átt að því að hleypa erlendum aðilum inn í íslenskt efnahagslíf, skref sem ég tel vera of stórt. Ég held að það eigi að taka smá skref og taka þau skref sem við teljum í hvert skipti að þjóni okkar hagsmunum. Velti ég því fyrir mér fyrir hvern þetta frv. er flutt nú, svo víðtækt sem það er.
    Ég vil einnig benda á að í 5. gr. er talað um að tilkynna beri Seðlabanka Íslands og gjaldeyriseftirliti alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningar eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Ég velti því fyrir mér þegar ég var að lesa þessa grein og reyndar aðrar greinar tengdar því hvað gerist ef þessu er ekki framfylgt. Verður um starfsleyfismissi að ræða ef brotið er gegn þessari grein? Það kemur ekki neitt fram í frv. um hvernig með skuli fara ef ekki er farið eftir 5. gr. frv., sem er um tilkynningaskyldu og annað. En ég gat ekki séð það á yfirlestri frv. að það væri tekið á því atriði en mér þykir mikilvægt að svo verði gert.
    Mér þykja einnig of rúmar heimildir viðskrh. til undanþága, sérstaklega í 4. gr. Ef við tökum t.d. 6., 7. og 8. lið 4. gr. þá er ekki greint sérstaklega í hvaða tilvikum viðskrh. skuli veita undanþágur. Þykir mér þurfa
að vera ákvæði um það með hvaða hætti eða í hvaða anda undanþágur skuli verða. Mér þykir þetta mjög mikilvægt, ekki síst með tilliti til þess að sl. sumar, þann 27. júlí, gaf viðskrn. út reglugerð um skipan gjaldeyris - og viðskiptamála á grundvelli laga, mjög gamalla laga að vísu, sem eru frá 1979 og hefðu sjálfsagt þurft endurskoðunar við. En ég fullyrði að með útgáfu reglugerðarinnar sem viðskrn. gaf út í sumar hafi viðskrh. í raun tekið sér löggjafarvald þar sem þar var um svo veigamiklar breytingar að ræða. Þar var farið inn á verksvið löggjafans. Hvaða skoðun sem maður hefur á þeirri reglugerð sem þá var út gefin er það ljóst að hún fór algjörlega á svig við þau lög sem sett voru 1979 sem og bæði umræður, greinargerð og annað sem fram kom þegar þau lög voru

samþykkt. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að inni í lögunum standi hvenær og í hvaða tilvikum ráðherra skuli veita undanþágur frá ákvæðum laganna.
    Ég vil líka gera að umtalsefni 10. gr. frv. þar sem tekið er fram að ákveðin nefnd muni geta metið hvenær erlend fjárfesting ógnar öryggi landsins. Þar er talað um að viðskrh. geti þá stöðvað viðkomandi fjárfestingu. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta þyrfti ekki að vera ákveðnara, hvort hann þurfi þá ekki að gera það ef nefndin metur svo að fjárfestingin ógni öryggi landsins, hvort það sé ekki eðlilegra að þá skuli viðskrh. stöðva viðkomandi fjárfestingu. Mér finnst veikt að nefndin hafi þá raunverulega ekki vald til þess að hafa þarna eitthvað um að segja, heldur eingöngu að vera til leiðbeiningar fyrir viðskrh. og síðan sé það sett í hans vald hvort eftir skuli fara.
    Á bls. 17 í greinargerðinni með frv. er talað um viðhorf innan OECD. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Stefna þessi byggir á því að með auknu frjálsræði í fjármagnsviðskiptum milli landa verði tryggð hámarksnýting þeirra framleiðslugæða sem hagsæld hvílir á.`` Þetta er að vísu ekkert nýtt, maður heyrir þetta mjög oft. Og síðar kemur: ,,Meginmarkmiðið er að svipað frelsi gildi um fjármagn og almennt þykir sjálfsagt í dag að gildi um viðskipti með vörur og þjónustu.
    Milliríkjaviðskipti með fjármagn og sú efnahagsuppbygging, sem af þessu hlýst, leiða yfirleitt til virkari og víðtækari samskipta ríkja á milli og eru þá líkleg til að leiða til bættrar hagstjórnunar aðildarríkjanna.``
    Þetta finnst mér miklar fullyrðingar án alls rökstuðnings. Mig langar til að fá nánari útskýringar á því hvað þarna er átt við og langar jafnframt til að fá aðgang að og vita hvaða rannsókn þetta byggir á. Sagt er að það sé markviss rannsókn á löggjöf aðildarríkjanna sem OECD hafi framkvæmt og þetta m.a. er byggt á. Þessu hef ég ekki aðgang að og finnst þarna dálítið mikið fullyrt miðað við það að í mörgum ríkjum þar sem fjárfestingar hafa verið leyfðar frjálsar þá hefur þetta alls ekki gengið eftir. Get ég nefnt í því sambandi ýmis ríki í Suður - Ameríku, t.d. Argentínu, Úrúgvæ og Chile sem opnuðu sitt land fyrir erlendum fjárfestingum. Til að byrja með jukust erlendar fjárfestingar þar mjög og leit út fyrir að væri mjög til hagsbóta fyrir þessi ríki en síðan hefur efnahagsstjórn þeirra kollsteypst. Þannig að ég er ekki alveg viss um að fullyrðingar í skýrslu OECD séu réttar að því er varðar mörg ríki og gæti mjög átt við um Ísland líka. Ég óttast að Ísland sem er svo mjög háð einni auðlind, sem er náttúruleg auðlind, og þess vegna hlýtur efnahagskerfið, efnahagur landsins að sveiflast mjög eftir henni. Þess vegna óttast ég mjög að þarna sé allt of mikil bjartsýni á ferðinni og raunar fullyrði að þarna geti varla verið um staðhæfingar að ræða sem geti átt við Ísland.
    Því er líka haldið fram að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur að fá erlenda aðila til að fjárfesta á Íslandi og muni það reynast okkur mjög farsælt þar sem erlendir aðilar muni fjárfesta og taka þar af leiðandi

á sig einhverja áhættu. Ég veit ekki betur en að reynsla okkar af erlendri fjárfestingu í fiskeldi sé alls ekki góð og ég veit ekki betur en að íslenskir aðilar hafi tekið meiri hlutann af þeim skelli í gjaldþrotum t.d. í fiskeldi að undanförnu.
    Síðan langar mig til að gera að umtalsefni samningana milli EB og EFTA. Það virðist augljóst að þetta frv. verður strax orðið úrelt ef af þeim samningum verður og því vandséð hvers vegna verið er að flytja þetta núna. Ríkisstjórnin virðist vera sammála um það að breyta verulega út af strax næsta vor, eftir tvo til þrjá mánuði, því hún hefur samþykkt, að því er manni skilst, að taka við öllum þeim 11 þúsund blaðsíðna lagatexta sem eru lög Evrópubandalagsins á þessu sviði. Þannig að það er merkilegt að vera að flytja þetta inn í þingið núna þó að auðvitað sé nauðsynlegt að taka á þessu máli. Þess vegna hefði mig langað til að vita hvort þetta er plagg sem er eitthvað í líkingu við það sem ríkisstjórnin er að semja um við Evrópubandalagið. Ef svo er er það algjörlega gagnstætt þeim upplýsingum sem við höfum fengið hingað til þar sem fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur samþykkt allan lagagrunn Evrópubandalagsins. Þess vegna hlýtur það að vera umhugsunarefni hvað af þessu er sett sem skilyrði af Íslands hálfu í samningunum við Evrópubandalagið. ( Gripið fram í: Verður ekki að spyrja forsrh.?) Já, Hann sést illa. Ég veit ekki hvort ég á að vona að hann heyri til mín eða ekki. En ég vil að sjálfsögðu fá svar hans við þessu því að þetta finnst mér vera mjög óljóst og einkennilega að þessu máli staðið.
    Það er sem sagt margt að athuga í þessu máli og það þarf að fá svör við mjög mörgum þáttum þessa máls og hef ég alls ekki farið í hvert einasta atriði heldur farið tiltölulega vítt og breitt yfir frv., enda er þetta 1. umr. málsins og reikna ég með að fulltrúi Kvennalistans í fjh. - og viðskn. vinni þetta mál enn frekar og að það verði farið vandlega yfir þetta mál. Ég bendi hins vegar á að það er tiltölulega skammur tími til stefnu og þykir mér mjög alvarlegt að ríkisstjórnin skuli leggja fram svona viðamikið mál á síðustu vikum þingsins. Forsrh. tók þannig til orða hér í gær að þetta væri eitt af stærstu málum þingsins og get ég verið honum sammála um það. Síðan er ætlast til þess að við rjúkum í að samþykkja þetta fyrir þinglok sem ég tel mjög óraunhæft að ætla ef fara á í þetta mál eins og þarf að gera ef einhver alvara er að baki. Menn hljóta að þurfa að skoða mjög vandlega hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenskt efnahagslíf og hef ég vissar áhyggjur af því.
    Samvinna við erlenda aðila í atvinnurekstri hér á landi getur auðvitað haft ýmsa kosti í för með sér, svo sem aðgang að tækniþekkingu, mörkuðum og viðskiptasamböndum. Að sjálfsögðu er hægt að afla þekkingar og eiga markaðssamstarf við útlendinga án þess að um eignarhlut sé að ræða í fyrirtækjum. Vil ég benda á að í mörum tilvikum fá Íslendingar ekki aðgang að þeirri tækniþekkingu og þeim mörkuðum sem erlendu aðilarnir ráða yfir. Þeir vilja halda sínu sjálfir. Þeir halda þessu mjög þröngu og passa að Íslendingar fái ekki mjög mikil sambönd og of mikla þekkingu til þess að gera sjálfa sig ekki óþarfa. Ekkert kemur þó í staðinn fyrir rannsóknir og þróunarstarf í íslensku atvinnulífi. En það hefur hingað til verið vanrækt af stjórnvöldum.
    Í stað þess að setja traust sitt á að erlendir aðilar bjargi þjóðarbúinu væri vænlegra fyrir íslensk stjórnvöld og atvinnurekendur að treysta undirstöður atvinnulífsins í landinu með því að tryggja óskoruð yfirráð yfir náttúruauðlindum okkar með því að hlúa að menntun og hugviti. Þetta held ég að væru betri fyrstu skref í átt að því að treysta undirstöðurnar heldur en fara þá leið sem þetta frv. gerir ráð fyrir.