Hraðamælingar í íbúðahverfum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykn. beinir til mín þremur fyrirspurnum á þskj. 519 og þar er óskað upplýsinga um ökuhraðamælingar lögreglu í Reykjavík og nærliggjandi byggðarlögum í íbúðahverfum þar sem 30 km hámarkshraði á klukkustund er leyfður.
    Í Kópavogi liggja ekki fyrir tölur um hversu oft lögreglan mælir ökuhraða. Hins vegar liggja fyrir tölur um kærur fyrir ökuhraðabrot. Á sl. ári var enginn ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á götum í Kópavogi þar sem 30 km hámarkshraði er í gildi, en það er aðeins á eftirtöldum götum: Holtagerði, Álfatúni og Kjarrhólma.
    Í Hafnarfirði er hámarkshraði alls staðar 50 km á klukkustund í íbúðahverfum.
    Í Garðabæ eru hins vegar nokkrar götur með 35 km hámarkshraða. Eftir beiðni voru gerðar sérhraðamælingar þar á árinu 1988 og gáfu þær eftirfarandi niðurstöður: Um er að ræða fjórar dagsetningar. Sú fyrsta 3. júní, þar var um að ræða 10 bifreiðar með meðalhraða 35 km um götuna Ásbúð, síðan 21. sept. 144 bifreiðar með meðalhraða 36 km um sömu götu, 23. sept. 69 bifreiðar með 39,9 km meðalhraða um götuna Smáraflöt og loks 29. sept. 56 bifreiðar með 35,3 km meðalhraða um götuna Ásbúð. Engar mælingar eru hins vegar til frá árinu 1990.
    Í Reykjavík mælir lögreglan reglulega ökuhraðann á starfssvæði sínu er nær einnig yfir Seltjarnarnes og Mosfellsbæ. Árið 1990 voru alls 5033 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og þar af 208 sviptir ökuleyfi hjá embættinu. Samsvarandi tölur fyrir 1989 voru 4322 og 173.
    Eftirliti með ökuhraða er hagað þannig að það fer jafnan fram þar sem þörfin er talin mest og sem jafnast í öllum hverfum án tillits til ökuhraða á hverjum stað. Hins vegar er ekki fyrir hendi skráning um þá staði sem mælt er á hverju sinni né heldur hversu lengi. En á sl. ári var fengið til notkunar tæki, svokallaður umferðarskynjari, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, sem notaður er til þess að fylgjast með hraða ökutækja. Ekki er það gert til þess að kæra ökumenn fyrir hraðabrot heldur aðallega til þess að mæla raunverulegan ökuhraða. Tækinu hefur verið brugðið upp víðs vegar á Reykjavíkursvæðinu og það veitir glöggar upplýsingar um raunverulegan ökuhraða. Tækið gefur þannig mjög mikilsverða vísbendingu um það hvert lögreglan eigi að beina hraðaeftirlitinu. Þá hafa niðurstöður mælinganna verið sendar borgarverkfræðingi vegna þess að verklegar úrbætur geta vitaskuld aukið öryggi vegfarenda.
    Ég hef hér undir höndum eitt sýnishorn af umræddum mælingum. Það eru mælingar sem gerðar voru með umferðarskynjaranum á Laufásvegi mánudaginn 11. júní 1990. Þetta er allmikið verk, þessi mæling þennan eina dag, en svona aðeins til að gefa vísbendingu um niðurstöður af þessu verki þá eru hér á lokasíðu þessa verks svofelldar upplýsingar. Alls óku þarna um á þessum tíma 231 tæki á um eða undir 30 km meðalhraða, það voru 11,42%. Jafnframt óku

þarna um 844 ökutæki á um eða undir 40 km meðalhraða á klukkustund eða 41,74%. Þarna óku hins vegar um 1628 ökutæki á um eða undir 50 km meðalhraða, sem sagt 80,51% á löglegum hraða. Þarna óku um 1968 ökutæki á um eða undir 60 km hraða eða 97,33% og 54 ökutæki óku þarna um á yfir 60 km hraða eða 0,67%.