Flm. (Sigrún Helgadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um friðlýsingu Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum, sem er á þskj. 573 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,    Alþingi ályktar að fela umhvrh. að undirbúa lagasetningu um friðlýsingu Hvítár/Ölfusár frá upptökum í Langjökli til Ölfusárósa og Jökulsár á Fjöllum frá upptökum í Vatnajökli til ósa í Öxarfirði.``
    Þessa tillögu flytja með mér hv. þingkonur Kvennalistans Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með friðlýsingu ánna er átt við að vatnsmagni ánna verði ekki breytt af mannavöldum, t.d. með því að veita vatni sem til þeirra fellur inn á vatnasvið annarra áa. Vatnsyfirborði eða farvegum ánna verði ekki breytt af mannavöldum með uppistöðulónum, stíflum eða öðrum framkvæmdum eða mannvirkjum. Mannvirkjagerð og jarðraski meðfram ánum verði haldið í lágmarki og í óbyggðum verði ekki komið fyrir mannvirkjum sem áberandi eru frá árbökkunum. Losun mengandi úrgangsefna í árnar eða í ár sem til þeirra falla verði ekki leyfð. Náttúrulegt lífríki í og við árnar njóti verndar. Umferðarréttur almennings meðfram ánum verði tryggður. Aðstöðu til handa ferðamönnum verði komið upp meðfram ánum, en þess jafnframt gætt við skipulag og stjórnun ferðamennsku að svæðunum sé ekki spillt.
    Að undanförnu hefur oft heyrst að Íslendingar ættu að auglýsa sig og marka sér þá ímynd að vera forustuþjóð í umhverfisvernd. Fyrir þeirri umræðu fer ríkisstjórnin sjálf með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar, en ekki bara saklausir auðnuleysingjar, ábyrgðarlausir náttúruverndarar, prjónakonur í sveitum landsins og vaðmálskerlingar í kúskinnsskóm, svo notuð séu ,,kurteisleg`` orð stjórnmálamanna um þá sem eiga sér þá hugsjón að standa vörð um náttúru landsins og framtíð þjóðar.
    Hinn 15. mars 1990 skipaði hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, fimm manna nefnd til að kanna möguleika á kynningu Íslands á erlendum vettvangi og efla jákvæða ímynd þess. Nefndin átti m.a. að kanna hvort Ísland geti orðið ímynd gæða, hreinleika og heilbrigðs umhverfis og mannlífs. Nefndin skilaði af sér fyrir skömmu í formi skýrslu og í lokaorðum hennar á bls. 20 segir, með leyfi forseta:
    ,,Hvað varðar umhverfismál þurfa Íslendingar að reka af sér slyðruorð á sem flestum sviðum umhverfismála. Þetta er unnt og ódýrara en í flestum öðrum löndum. Sköpun slíkrar ímyndar mætti hefja strax því staðfestar áætlanir um viðamikið átak í þessum málum mundu afla okkur mikillar virðingar meðal þjóða heimsins.``
    Nokkru síðar í greinargerðinni á bls. 21 stendur, með leyfi forseta: ,,Lagt er til að hafist verði handa á 2 -- 3 svæðum með markaðsrannsóknum, gagnasöfnun, neytendakönnunum, markaðskönnunum, forkönnunum á áhrifum auglýsinga og kynninga, ráðgjöf og sérfræðiþjónustu áður en raunverulegar kynningaraðgerðir hefjast. Gert er ráð fyrir að kostnaður við ofangreint nemi 70 millj.``
    Þarna skýtur harla skökku við. Hætt er við að áætlanir um viðamikið átak afli okkur engrar virðingar meðal þjóða heimsins þótt staðfestar séu á meðan ekkert er farið að gera samkvæmt þeim áætlunum og enginn árangur þeirra gerða kominn í ljós. Enn einu sinni í íslenskri atvinnustefnu væri byrjað á öfugum enda, ef farið væri að tillögum nefndarinnar og byrjað á að verja 70 millj. kr. í markaðsrannsóknir og forkannanir á áhrifum auglýsinga o.s.frv. áður en hafist er handa við tiltektina heima hjá okkur. Þetta er svona álíka skynsamlegt og ef húsráðendur gerðu um það áætlun að taka nú ærlega til í húsi sínu þar sem allt væri á rúi og stúi til þess að bjóða heim gestum, sitjandi í rusli og skít en með áætlun um úrbætur í þeim efnum færu þeir svo að hringja í kunningjana og athuga með heimsóknir. En á meðan er næsta víst að einhverjir rækjust inn óboðnir eða boðsgestir yrðu með fyrra fallinu og kæmu áður en tiltekt og hreingerningu væri lokið og fínar áætlanir um tiltekt draga lítið úr hneykslun gesta. Svona þekkist auðvitað ekki á myndarheimilum þessa lands. Þar er tekið til og þrifið fyrst og fremst til þess að heimilisfólkinu sjálfu líði vel í notalegu umhverfi. Gestir sem rekast þar inn finna líka fyrir þeirri vellíðan og koma aftur og aftur, fleiri og fleiri og ég hygg að á mörgum gestkvæmum heimilum sé raunar aldrei gestum boðið formlega. Þeir koma án allrar markaðssetningar.
    Hið sama gerðist með íbúðina Ísland. Ef við tækjum okkur tak í umhverfisvernd, þá mundi það vekja athygli og fréttast. Kannanir hafa margsýnt að fólk kemur til Íslands fyrst og fremst vegna umtals og upplýsinga frá kunningjum og vinum en ekki vegna hefðbundinna auglýsinga. Það ætti ekki að þurfa að færa sannanir fyrir því hve heimskulegt það er að byrja á röngum enda í þessu efni, svo augljóst er það. En ég vil þó nefna eitt nýlegt dæmi.
    Sl. haust kom hér blaðakona frá blaðinu Miljö Aktuelt sem gefið er út af sænska náttúruverndarráðinu. Hún kom til að skrifa um land sem væri hreint og fagurt og um fyrirmyndarþjóð í umhverfisvernd. Hún sá að sumu leyti það sem hún leitaði að, hreint og fagurt land, en hún áttaði sig líka fljótt á því að hreinleikinn og fegurðin var ekki þjóðinni að þakka heldur aðeins því hve fámenn hún er í stóru landi. Og hneykslan hennar var mikil þegar hún fór að kynna sér aðstæður hér. Hún gerði grein fyrir ferð sinni í janúarhefti blaðsins, bæði á forsíðu og í tveimur opnugreinum. Þar segir í fyrirsögn yfir þvera síðu að skólp frá Reykjavík fari óhreinsað í sjóinn og meðfylgjandi er mynd sem sýnir þau herlegheit í fjöru á höfuðborgarsvæðinu. Nokkru neðar á sömu síðu er mynd af ruslahaug og þess getið að þar ægi öllu saman, bæði heimilissorpi og hættulegum efnum.
    Á næstu opnu er vakin athygli á því, yfir alla opnuna í stórri fyrirsögn, að hálf milljón kinda níðist á gróðri landsins og einnig, neðar á blaðsíðu, að um umhverfismál á Íslandi sé mikið rætt en lítið gert.

Mér er spurn:
Þeir sem vilja byrja að auglýsa landið sem fyrirmynd í umhverfisvernd ætla þeir líka að taka upp nýju línuna í fjölmiðlum heimsins í dag og ritskoða þær greinar sem athugulir ferðamenn kunna að skrifa í blöð og tímarit þegar heim er komið? Ég er hrædd um að það verði eins og að moka sandi í botnlausa tunnu að ætla með staðfestum áætlunum og auglýsingum einum saman að efla jákvæða ímynd Íslands í augum umhverfisverndarmanna. Nei, hér sem annars staðar er best að láta verkin tala og hefjast handa strax og að því miðar sú tillaga sem hér er lögð fram.
    Við þurfum að taka okkur á á öllum sviðum umhverfisverndar. Umhverfisvernd er ekki bara það að tína upp rusl eða rækta skóg. Umhverfisvernd er t.d. líka það að taka frá merkileg landsvæði og leyfa þeim að eiga sig svo að náttúran fái þar að þróast eftir eigin lögmálum án afskipta mannsins. Tilgangurinn er sá að komandi kynslóðir fái notið þessara svæða til menntunar og skemmtunar, til fróðleiks og til náttúrurannsókna. Aðstæður hafa hagað því svo að friðlýsing lands hefur verið auðveldari í löndum hins svokallaða nýja heims, þ.e. til dæmis í Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi, heldur en í Evrópu. Í þessum löndum eru stór friðlýst svæði algeng.
    En Evrópa er þéttbýl heimsálfa og þar hefur fólk lifað og mótað landið í árþúsundir. Ísland hefur þess vegna þá sérstöðu í samfélagi Evrópuþjóða að hér eru enn stór landsvæði, jafnvel stórar heildir, sem eru tiltölulega lítið röskuð ef frá er talin gróðureyðingin. Segja má að þarna liggi ekki aðeins möguleikar þjóðarinnar að skapa sér sérstöðu innan Evrópu, sem markaðsfræðingunum þykir svo mikilvæg, heldur leggi þetta á herðar okkar ákveðna siðferðilega skyldu. Fyrst við getum enn friðað heilar ár og eigum þrátt fyrir það yfrið næga orku, þá ber okkur að gera það. Hins vegar er tíminn að hlaupa frá okkur.
    Á síðustu árum hafa orðið mjög hraðar breytingar og það fyrirtæki sem stundum hefur verið kallað ríki í ríkinu virðist einskis svífast og veður um allt, hvorki kannar vilja þjóðarinnar né virðir hann. Er þar nærtækast að benda á fyrirhugaða lagningu háspennulínu yfir hálendið norðan Vatnajökuls. Umræðu um legu hennar var haldið inni á stofnunum meðal örfárra manna og þjóðin vissi ekkert. Þegar fólk loksins fékk að vita hvað stæði til að gera og sýnist eiga að gera, að því er virðist alveg án tillits til þess hvort þörf sé fyrir orku Fljótsdalsvirkjunar eða ekki, þá var fólki misboðið og það mótmælti. Þeim viðbrögðum hefur að einhverju leyti verið mætt með hroka og stærilæti. Ég spyr: Hver á þetta land? Er það stjórn og starfsmenn Landsvirkjunar, eða er það fólkið sem býr í landinu, ræktar landið, verndar landið og vill varðveita gimsteina þess? Ég hygg að ef þjóðin væri upplýst og ef þjóðin fengi að ráða þá vildi hún halda í þau svæði sem hér er lagt til að verði friðlýst, þ.e. tvær af okkar fegurstu og merkilegustu ám og nánasta umhverfi þeirra.
    Við sem hér í þingsölum sitjum eigum að vera fulltrúar þjóðarinnar og ekki bara þeirrar þjóðar sem

nú lifir í landinu, heldur einnig þeirrar þjóðar sem hér verður vonandi eftir 100 ár og 200 ár. Eða ætlum við e.t.v. bara komandi kynslóðum að búa til sögualdarár rétt eins og við höfum verið að bisa við að búa til sögualdarbæ? Við höfum vel efni á því að geyma mikilvæg svæði, eins og alvöruárnar Hvítá og Jökulsá, fyrir afkomendur okkar og okkur ber skylda til að gera það.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn.